Við myndaleit vegna bókarskrifa hjá Þjóðminjasafni Íslands rakst ég á tvær mjög gamlar myndir af BSA mótorhjólum. Erfitt er að segja hvar þessar myndir eru teknar eða hvaða fólk er á hjólunum en sjá má númer á öðru þeirra. Myndirnar eru líklega teknar snemma á þriðja áratug síðustu aldar og því að verða hundrað ára gamlar.
RE-161 var í eigu Þórðar L Jónssonar, Þingholtsstræti 1 til 8. júní 1920, en þá tilkynnir Þórður að hann hafi selt Lofti Guðmundssyni, verksmiðjueiganda hjólið en hann bjó þá á Miðstræti 4. Tilkynnt er 5. september 1922 að hjólið hafi verið selt í ágúst Magnúsi Oddssyni frá Eyrarbakka. Hann selur að Gunnar Gunnarssyni bifreiðastjóra, Hafnarstræti 8. Hann selur Hinriki Jónssyni Álftanesi en tilkynnt 20. september 1923 að það sé selt Ásgeiri Stefánssyni í Hafnarfirði.
1926 er það komið í eigu Guðmundar Egilssonar í Hafnarfirði og þá með númerið HF-48. Guðmundur er einnig skráður fyrir því 1929 og er það það síðasta sem vitað er um hjólið.
Þessi útgáfa BSA Model 2 kom á markað árið 1915 og þótti sérlega hentugt til að bera hliðarvagn. Tvær útgáfur voru af því, Model K sem var með reim sem lokadrifi og Model H sem var með keðju í lokaðri hlíf. Á síðu Yesterdays.nl í Hollandi var til sölu slíkt hjól fyrir nokkru með Canoelet hliðarvagni, svipuðum og á íslenska hjólinu.