Categories
Uncategorized

Fyrsta lögreglumótorhjólið hét Imperia

Í bók minni „Þá riðu hetjur um héröð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi“ velti ég því upp sem möguleika á Lögreglan í Reykjavík hafi árið 1930 prófað að nota bifhjól í fyrsta skipti og þá líklega með Alþingishátíðina í huga. Hafði ég það eftir viðtali við Einar Björnsson sem átti nokkur mótorhjól á fjórða áratugnum, en hjólið sem um ræddi var af gerðinni Imperia, þýskt að uppruna og kraftmikið sporthjól. Hafði hann sögunna eftir þeim sem seldi honum hjólið. Nýlega fékk ég á því staðfestingu að hjólið var í reynd í eigu Lögreglunnar í Reykjavík um tíma árið 1930 sem gerir það að fyrsta lögregluhjólinu á Íslandi. Hægt er að sjá það í skráningarbók frá þessum tíma.

Hér sést í skráningarbókum að hjólið var um tíma í eigu Lögreglunnar í Reykjavík. Heimild: Ingibergur Bjarnason.

Við skulum grípa aðeins niður í sögu Einars af hjólinu í meðförum lögreglunnar. „Lögreglustjórinn á þessum tíma (1933-34), Erlingur Pálsson, stóð fyrir að hjólið væri keypt. Þá var í þjónustu lögreglunnar Vestur-Íslendingur að nafni Jón, gríðarlega stór og mikill. Hann fór í prufutúr á hjólinu með lögreglustjórann aftan á. Hann keyrði með lögreglustjórann inn í Sogamýri og þegar hann var kominn á sprett sleppir hann báðum höndum af stýrinu og lætur vaða aðeins áfram þannig. Stjórinn verður þá svo hræddur að hann segir að það komi ekki til mála að lögreglan fari að nota svona tæki. Hjólið var því selt í hvelli.“

Einar Björnsson tók eitt sinn þá ákvörðun á leið suður frá Blönduósi að fara um Hveravelli til baka, og varð því fyrstur til að fara á vélknúnu ökutæki9 yfir Kjöl. Þessi mynd var tekin af honum stutt frá Hveragerði er hann hafði lokið ferðinni en myndina tók Bjarni Einarsson í Túni.

Samkvæmt skráningarbókum er fyrsti skráði eigandi Imperia mótorhjólsins Bæjarsjóður fyrir Lögregluna í Reykjavík, en það er svo skráð á Ágúst Jón Brynjólfsson, járnsmið að Laugavegi 42. Það er selt Jeppe Svendsen, Framnesvegi 13 þann 2. júlí 1931, en hann var húsgagnasmiður sem fluttist hingað til lands á þriðja áratugnum. Hann á hjólið næstu tvö ár en Jón Erlendsson frá Sauðagerði er skráður fyrir því í júlí 1933. Árið 1935 er það skráð á Guðmund Fr. Einarsson, Þvervegi 2 en Einar Björnsson er skráður fyrir því 1936. Einar selur Gústaf B. Einarssyni, Hverfisgötu 59 hjólið árið 1937 en Einar Matt. Einarsson, Blómvangi í Mosfellssveit, eignast það 16. júlí 1937 og á það til 1940. Það skiptir um númer 1936 og fer af RE-265 á R-265 og 23. ágúst 1940 fer það á R-1143.

Að sögn Einars Björnssonar voru það tveir bræður sem keyptu af honum hjólið sem bjuggu á Hverfisgötu, og ekki er ólíklegt að þetta séu ein itt þeir sem sitja hér hjólið. Höfðu þeir séð til ferða Einars á hjólinu og þótt það kraftmikið og að þeir yrðu að eiganst gripinn.

R-1143 er skráð 23. ágúst 1940 á Einar M. Einarsson, Bræðraborgarstíg 31, en 11. mars 1942 er það komið á nafn Ólafs B. Þorvaldssonar. Laugavegi 128. Hann selur það 6. júní sama ár Jóni Kristbjörnssyni, Freyjugötu 45 og hjólið er skoðað 17. júlí 1942, degi áður en það er selt Guðmundi Brynjólfssyni, Óðinsgötu 3.

Imperia merkið var frægt fyrir tæknilega fullkomion hjól og á stundum óvenjulegar, eins og 348 rsm tvígengis boxermótor sem var í raun og veru einn strokkur með tveimur stimplum sem mættust í miðjunni. Þess vegna var sveifarás á sitt hvorum endanum sem voru tengdir saman með keðju og var keðjan einnig tengd keflablásara fyrir ofan vélina. Það var ekki síst fyrir mikinn kostnað við þróun slíkra véla að Imperia merkið komst í vandræði og hætti framleiðslu 1935. Hér má sjá alveg eins Imperia hjól og kom hingað til lands og er fyrri hluti vélarnúmers þess sá sami og á íslenska hjólinu, eða 1C9H8. Það er búið Bosch ljósum, Bosch flautu, Bosch kveikju, B&B blöndungi, auk stýrisdempara og hraðamæli.

Síðasti eigandi Imperia hjólsins sem vitað er um hét Þorsteinn Sigurfinnsson, Sólvallagötu 45. Hann er skráður fyrir hjólinu 15. janúar 1943 en í mars 1947 er það afskráð. Það fer svo aftur á skrá og er skoðað 1948 og selur Þorsteinn það síðan 13. desember 1955, en þá er það lagt niður sem ónýtt. Ómögulegt er að segja til um hvað varð af hjólinu eftir það og erfitt gæti reynst að finna hjólið erlendis, þar sem aðeins var skráður fyrri hluti vélarnúmers, sem er eins á öllum þessum hjólum af sömu árgerð.

Hér má sjá Imperia hjólið annað frá hægri en Einar Björnsson eigandi þess er lengst til hægri.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *