Við þetta venjulega grúsk í gömlum skráningum á Þjóðskjalasafninu rakst ég á skráningu sem ég hafði ekki séð áður af gömlu Indian mótorhjóli. Indian hjólið var fyrst skráð á númerið R-3516 en það kemur notað frá Englandi. Hjólið var fyrst skráð 15. febrúar 1947 á Vigfús Auðunsson, Herskálakamp 13a, en hann selur það í lok júní sama ár Bjarka Magnússyni til heimilis að Reykjum í Eskihlíð. Hann á það í fimm ár en það er selt Guðmundi Guðmundssyni, Hólsbraut 82 í Hafnarfirði í febrúar 1952. Böðvar Guðmundsson frá Reykjaskóla í Hrútafirði kaupir það svo í maí sama ár og færir það á númerið H-401.
Ég ákvað að fletta upp síðasta eiganda og komst að því að hann var enn á lífi. Það var til mynd af honum í gamalli blaðagrein svo að ég prófaði að auglýsa eftir ættingjum á Facebook síðunni Gamlar Ljósmyndir. Viðbrögðin voru framar vonum og það leið ekki á löngu þar til að ég var kominn með símanúmerið hjá Böðvari. Ég hringdi því í hann daginn eftir og hitti á hann við akstur, svo að ég beið á meðan hann lagði bílnum svo við gætum talað saman. Böðvar var hinn hressasti þrátt fyrir að vera kominn á tíræðisaldur. Að sögn Böðvars minnti hann að um herútgáfu hafi verið að ræða en hann notar hjólið í ein þrjú ár. Segist hann hafa keypt það af dönskum manni með eftirnafni Christiansen sem var húsvörður við íþróttahúsið við Hálogaland. Hjólið hafi verið 1.200 rsm en hann hafi skipt um strokka og hedd og það hafi þá verðið orðið 1.400 rsm. Við breytinguna hafi hann þurft að klippa aðeins úr bensíntankinum og ætti hjólið að vera þekkjanlegt á því. Hann hafi einnig þurft að sérsmíða pústkerfi undir hjólið.
Verksmiðjunúmer hjólsins er 26452 sem reyndar passar ekki við neina gerð af Indian frá þessum tíma, allavega ekki af Chief gerð. Scout hjólin voru með vélarnúmer sem byrja á tölunni 2 en þau eru aðeins 45 kúbiktommur eða 750 rúmsentimetrar. Það er þó ekki í fyrsta skiptið sem að mistök verða í skráningum. Ef hjólið var tveggja strokka 1.200 rsm hefur það verið Chief hjól en Böðvar minnir að hjólið hafi verið 1937 módel. Í skráningu þess er það hins vegar sagt vera 1942 módel og með hestaflatöluna 5. Líklega er það nærri lagi sú árgerð ef um herhjól hefur verið að ræða.
Þegar ég spurði Böðvar hvað hann hefði gert við hjólið kom áhugaverð frásögn frá honum. Þegar hann átti það vann hann við jarðvegsnámu sem var við gamla Álftanesveginn. Þar var gamall timburskúr sem hann fékk að geyma hjólið í. Hann þurfti svo að bregða sér af bæ og skildi hjólið þar eftir. Hann vitjaði þess svo ekki fyrr en ári seinna en þá var búið að moka yfir staðinn þar sem skúrinn stóð. Vonandi hefur einhver tekið hjólið áður en það gerðist en ef ekki, er verðmætt Indian mótorhjól grafið innan í gömlum skúr einhverstaðar nálægt Hrafnistu. Er einhver búinn að gúggla málmleitartæki núna?