Categories
Uncategorized

Indian mótorhjólin – fyrri hluti – Powerplus

Fyrir nokkru barst mér mynd af eldgömlu mótorhjóli tekin um 1920 við Vesturgötuna. Sýnir myndin götumynd þess tíma vel og fyrir miðri mynd er veglegt mótorhjól með hliðarvagni. Þegar ég fór að rannsaka þessa mynd betur kom í ljós að hjólið hlyti að vera af Indian gerð því að slík hjól með hliðarvagni þekkjast vel á tvöfaldri festingu yfir í hliðarvagninn framanverðan. Við nánari skoðun á gömlum skráningum kemur í ljós að eina Indian mótorhjólið sem kom með hliðarvagni á þessum tíma var RE-233, sem var Powerplus gerð þess.

Þessi mynd sem tekin er við Vesturgötuna í kringum 1920 sýnir greinilega Indian mótorhjól með hliðarvagni svo að myndin hlýtur að vera af Powerplus hjólinu sem var eina Indian mótorhjólið frá þessum tíma með hliðarvagni. Maðurinn á hjólinu mun vera fyrsti eigandi þess, Kristján Gíslason. ©Viðar Víkingsson.

Reyndar er á Íslandi gömul grind af Indian mótorhjóli sem líkast til er af einu elsta mótorhjóli Íslands. Lengi vel var talið að um 1917 árgerð var að ræða en með skoðun á skráningu þess kemur í ljós að um 1918 árgerð er að ræða. Þar kemur fram að hjólið sé með vélarnúmerið 71K092 en stafurinn K er fyrir árgerðina sem í þessu tilfelli er 1918. Hjólið bar númerið RE-233 og var skráð 7,2 hestöfl svo að um þessa Powerplus útgáfu hefur verið að ræða. Breidd þess er skráð 1,40 metrar svo það hefur verið með hliðarvagni. Þann 1. júlí 1924 er það skráð á Kristján Gíslason, Nýlendugötu 15. Í ágúst 1926 er það tilkynnt selt Þorsteini Sveinbjörnssyni og síðar Þorsteini Þórðarsyni, Laugavegi 8b.

Auglýsing í Vísi í júlí 1928 nefnir tveggja strokka Indian en hitt tveggja strokka Indian hjólið hafði verið óskráð síðan 1925, svo að hér hefur verið um Powerplus hjólið að ræða. Ósagt skal látið hvort að “koffortið” sem um ræðir sé hlíðarvagninn eða bara venjuleg mubla.

Þann 1. júlí 1928 er það auglýst til sölu í Vísi en 26. September 1928 er það selt Axel Björnssyni, Ránargötu 30a og 2. maí 1929 Kristni Guðjónssyni, Njálsgötu 16. Þann 9. júlí sama ár er tilkynnt að bifhjól þetta sé ónýtt og umdæmistöluspjaldi skilað sama dag. Leyfar þessa hjóls eru til í dag og eru það grind, framgaffall, stýri, bretti og bögglaberi ásamt fleira smádóti. Þorsteinn Páll Gústafsson frá Fellabæ fann hjólið á níunda áratugnum í járnahrúgu við leyfar bragga, sem einu sinni var verkstæði Vignis Brynjólfssonar í Fellabæ. Til eru sögusagnir um að mótorinn hafi verið tekinn og notaður í hrærivél, en slíkt var stundum gert ef mótor bræddi úr öðrum strokknum og þá vélin endurnýtt með einum strokk til slíkra verkefna.

Indian Powerplus 1918 með frönskum hliðarvagni, ekki ólíkum þeim sem hefur verið á íslenska hjólinu. Takið eftir tvöfaldri festingu hliðarvagnsins að framanverðu.

Stórum hluta af velgengni Indian sem mótorhjólaframleiðanda má þakka tveimur módelum, Powerplus og Scout. Indian hafði alltaf ráðið til sín bestu hönnuðina og meðal þeirra voru Charles Gustafson og Charles Bayley Johnson sem hönnuðu saman Powerplus mótorhjólið árið 1916. Johnson hafði átt velgengni að fagna hjá Indian sem einn af þeim keppendum sem tóku fimm af sex efstu sætunum í Isle of Man TT keppninni árið 1911. Hann varð svo þekktur fyrir að hanna Scout mótorhjólið sem notaði tannhjól í stað keðju til að flytja aflið frá mótor til gírkassa, en það var eina ameríska mótorhjólið með slíkum búnaði á þessum tíma. Hann hannaði líka grindina fyrir Powerplus mótorhjólið en Gustafson hannaði vélina, sem hann byggði á grunni Hedstrom vélar Indian. Með því að nota líka Peugeot síðuventlavél sem hann hannaði fyrir Reading, setti hann saman 42° V2 vél sem er grunnurinn af mörgum V2 vélum nútímans.

Myndin sýnir hvernig innviði Powerplus mótorsins líta út.

Powerplus varð vinsælt hjól í fyrri heimsstyrjöldinni og sem lögregluhjól eftir stríð. Árið 1920 setti 4ra ventla Powerplus mótorhjól nýtt hraðamet þegar eitt slíkt náði 200 km hraða. Vélarnar notuðust við Scleber blöndunga og magnetukveikju frá Dixie og voru allt að 18 hestöfl. Tveir knastásar voru við hvert hedd og árið 1922 komu þau einnig með tannhjólum í stað keðju milli vélar og gírkassa. Meðal þeirra sem gerðu garðinn frægan á Indian mótorhjólum á þessum tíma var Cannonball Baker sem setti hvert metið á fætur öðru. Árið 1916 fór hann til Ástralíu til að keyra í langkeyrslu, þar sem hann fór rúmar 1.000 mílur (1.650 km) á undir 24 stundum. Frægasta hraðametið á Powerplus var þó sett rúmum 40 árum seinna, löngu eftir að hætt var að framleiða hjólið. Það var nýsjálendingur á sjötugsaldri, Burt Munro að nafni sem var þar að verki. Hann setti mörg hraðamet í eyjaálfunni á Scout hjóli sínu með 37 kúbiktommu (600 rsm) Powerplus vél, sem boruð var í 58 kúbiktommur (950 rsm). Árið 1962 fór hann svo til Bandaríkjanna til að reyna svo eftirminnanlega við hraðamet á saltsléttunum í Bonneville. Þar setti hann svo met fyrir hjól undir 1.000 rsm þegar hann náði 306 km meðalhraða á Indian hjóli sínu, og var mesti hraði hans þar yfir 330 km á klukkustund.

Burt Munro við Indian Scout/Powerplus mótorhjólið sem hann setti metið á.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *