Fótalaus fór hann meira en milljón kílómetra á mótorhjóli

Í fimmta hefti Heimilispóstsins frá 1950 er sögð saga Alfred Leroy sem 15 ára gamall missti báða fætur og helming af vinstri handlegg í sporvagnaslysi árið 1910. Hann náði sér af slysinu og gerðist lásasmiður og varð vinsæll sem slíkur svo að hann gat leyft sér þann munað að fá sér mótorhjól. Við grípum hér niður í frásögn Leroy í tímaritinu en saga hans var skráð af J. E. Hogg. “Árið 1913 keypti ég mér bifhjól með hliðarvagni og útbjó það stjórnartækjum við mitt hæfi, þannig að ég gat stjórnað bifhjólinu þótt ég sæti í hliðarvagninum. Bifhjólið veitti mér tækifæri til að fara allra minna ferða, eftir lögðum vegum og skapaði mér nýjan mælikvarða á fjarlægðir. Síðan ég eignaðist þetta fyrsta bifhjóls-úthald mitt, hefi ég eignazt og ekið hálfa tylft slíkra
ökutækja samtals hátt á aðra milljón kílómetra, í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.”

Leroy átti nokkur mótorhjól á öðrum áratug tuttugustu aldarinnar, eins og til dæmis Minneapolis og Thor, en Harley-Davidson J-módel hjólið frá 1916 er líklega þekktasta hjólið hans. Meðan hann var enn unglingur fór hann í rúmlega 50.000 mílna ferð um Bandaríkin á þessu hjóli.

Hjólið var breytt til að hann gæti notað það á langferðum og svaf hann til dæmis í hliðarvagninum ásamt hundi sínum sem var alltaf með honum á ferðalögum hans. “Vöntun fótanna gerir manni mögulega ýmsa hluti, sem vanalegum manni með heila limi er ómögulegt að vinna. Af því að ég er ekki nema 99 sentimetra hár, get ég t. d. eins auðveldlega sofið í hliðarvagninum mínum og aðrir menn sofa í bezta
rúmi. Meðan ég ferðaðist mest á bifhjóli, var ég vanur að búa um mig í hliðarvagninum. Ég flutti með mér litla undirdýnu og svæfil, sem ég geymdi á daginn í ,,nefinu“ á vagninum. Á náttstað hagræddi ég beðnum, hneppti vatnsheldri þekju yfir allan hliðarvagninn og lagðist til svefns.”

Hundur Leroy var ávallt með honum í för og svaf hann og sat í lítlum “hliðarvagni” á hliðarvagninum, en Leroy kom sér vel fyrir undir segli sem einnig var notað til að safna vatni yfir nóttina.

Leroy lenti í ýmsum ævintýrum á ferðum sínum eins og í Kansas. “Fótaleysi mitt hefur stundum orðið orsök í ýmsum hlægilegum atvikum. 1916, til dæmis, þegar ég var í einni ferð minni þvert yfir Bandaríkin, fór ég ein nótt að sofa í hliðarvagninum við þjóðveginn á gresjum Vestur-Kansas. Eins og margir vita, er þessi hluti Bandaríkjanna sléttur eins og gólf og trjálaus. Ég var nýsofnaður, þegar ég hrökk upp við annarleg hljóð, sem bentu til þess að einhverir væru þama á ferð. Þegar ég gægðist undan brúninni á þekjunni, sá ég tvö bifhjól, er stóðu skammt frá mér, í tunglsljósinu. Ökumennirnir töluðu saman í hálfum hljóðum og ég heyrði annan segja: ,,Gott, enginn virðist nálægur. Þú mátt taka slithringinn, ef þú óskar; ég ætla að taka framljósið af stýrinu!”

Svo að Leroy gæti ekið Harley hjóli sínu þurfti að gera á því nokkrar breytingar. Valinn var hliðarvagn vinstra megin við hjólið svo að hann gæti haft góða handlegginn nær hjólinu. Stöng var fest við vinstri hluta stýrisins sem að hann stýrði með handarstúfnum. Með hægri hendinni stjórnaði hann kveikjuflýtinum, inngjöfinni, gírum og bremsum.  Hann notðai hægri höndina líka til að snúa hjólinu í gang.

“Þegar ég heyrði tal dónanna, tók ég skammbyssuna mína undan koddanum, til vonar og vara. Mennimir nálguðust nú bifhjólið mitt með ýmis verkfæri, en ég hélt niðri i mér andanum og varaðist að hreyfa mig, þar til annar beygði sig til þess að leggja skrúflykil á framhjólið mitt og hinn kraup niður til að fjarlægja framljósið. Þá settist ég upp, notaði skammbyssuna sem barefli og sló með handfanginu aftan á hálsinn á þeim við hjólið, sneri henni svo við og skaut upp í loftið. Við skotið og höggið stökk sá er fyrir varð, upp með öskri miklu og þaut á harðahlaupum að hjóli sínu og hinn var ekki seinn að fylgja hinum viðbrigðna vini sínum. Og til þess að skynda för þeirra reif ég upp svörðinn við fætur þeirra með nokkrum skotum! Á styttri tíma en frásögn mín tekur, voru þjófarnir komnir á bifhjól sín og þotnir með miklum hreyflagný út í buskann. Svo mikill var asinn á þeim félögum, að þeir skildu eftir öll verkfærin, sem þeir höfðu ætlað að nota við að „tileinka” sér áðurtalda hluti af bifhjólinu mínu. Ef þessir
dygðardindlar skyldu enn vera lifandi og lesa þetta, mun frásögn mín leysa gátu, sem áreiðanlega hefir valdið þeim miklum heilabrotum.”

Eitt sinn lenti hann í slysi á hjólinu þegar hann ók yfir trjábol með þeim afleiðingum að hann kastaðist úr hliðarvagninum. Hann slapp vel frá þeirri byltu og náði aftur mótorhjólinu sem hafði stöðvast að lokum. Seinna fékk hann sér bíla sem hann breytti til að nota sjálfur en hann öðlaðist nokkra frægð fyrir árin sín á mótorhjóli og kom nokkrum sinnum fram í auglýsingum fyrir mótorhjól og hluti þeim tengdum.

Goliath þríhjólið sjaldgæfa

Ef vel er að gáð má sjá merkinguna Kaffibrennsla O. Johnson & Kaaber á hlið vagnsins en kvikmyndina má sjá á vef Kvikmyndasafns Íslands.

Bremen Borgward & Co var vatnskassaverksmiðja til að byrja með og var staðsett í Bremen í Þýskalandi. Líklega var það þess vegna sem þríhjólið kom hingað til lands gegnum þessa þekktu hafnarborg. Fyrsta Goliath þríhjólið kallaðist Blitz-Karren og kom á markað árið 1925 með 120 rsm DKW tvígengisvél sem skilaði 2,2 hestöflum. Það var með beint beltadrif á annað afturhjólið og burðargetan var 250 kíló. Næst kom á markað Goliath Standard árið 1926 sem var í nokkrum útgáfum eins og tækið sem kom hingað til lands. Vélin var 350 rsm 1 strokka Ilo tvígengisvél sem skilaði 7,5 hestöflum og burðargetan var hálft tonn. Lokaða útgáfan kallaðist Rapid og kom á markað árið 1928 og var með keðjudrifi, en það er útgáfan sem kom hingað til lands.

Goliath Rapid var útgáfa hjólsins með lokuðum flutningskassa og kom á markað 1928.

RE-849 var skráð á O. Johnson & Kaaber árið 1930-31, en þessi mynd af gripnum er tekin úr kvikmynd frá þriðja áratugnum um kaffibrennsluna. Þríhjólið var þar notað til sendiferða með framleiðsluna. Það var skráð 500 kíló og 7,5 hestöfl og var með vélarnúmerið 767175. Þessi tæki voru talsvert notuð í Norður-Evrópu fyrir seinna stríð en týndu nánast alveg tölunni og eru talin mjög sjaldgæf í dag. Þannig hefur líklega farið fyrir þessu hjóli sem var selt til Danmerkur 12. desember 1931.

Auglýsing fyrir Goliath Standard frá þriðja áratugnum en það var selt á 1.495 Ríkismörk.

Fyrsta ferð til Akureyrar á mótorhjóli

Á dögunum fjölluðum við um fágætt Rudge mótorhjól sem var statt fyrir norðan þegar tekin var af því ljósmynd. Hjólið var með númer frá Reykjavík og giskuðum við á að það hefði lagt í ferðalag norður um 1930. Nú kemur hins vegar uppúr kafinu að hjólið fór í ferðalag þangað og staðfesta tvær heimildir það. Það sem meira er að hjólið fór norður sumarið 1928 og er það fyrsta ferð norður á mótorhjóli svo vitað sé.

Hér er greinin sem birtist í Degi í ágústmánuði árið 1928 þar sem nafn Ottó Baldvinssonar kemur fram.

Þann 15. ágúst 1928 er sagt frá ferðalaginu í Alþýðublaðinu með fyrirsögninni “Á bifhjöli til Akureyrar.” Þar segir í nokkrum orðum frá afrekinu. “Nýlega var farið frá Borgarnesi til Akureyrar á mótorhjóli á 19 og 1/2 klukkustund. Var þó tekinn 6 stunda krókur til Sauðárkróks. Er þetta í fyrsta sinni, sem þessi leið er farin á mótorhjóli. Samskonar grein er birt í Íslendingi 12 dögum áður svo ferðalagið hefur farið fram einhverntíman í júlímánuði.

Rudge hjól Ottó er hér aftara hjólið RE-321 en fyrir framan er AJS mótorhjól. Hvort það sé sama hjól og Ottó keypti um sumarið er ómögulegt að segja. Mynd © Minjasafnið á Akureyri.

Sá sem ók bifhjólinu hét Ottó Baldvinsson radíóamatör. Hann var skráður fyrir Rudge hjólinu sumarið 1928 en er svo skráður fyrir AJS mótorhjóli seinna um sumarið. Rudge mótorhjólið var ansi merkilegt Rudge Whitworth 500 hjól, 1926 árgerð með fjögurra ventla mótor. Það hefur því getað skilað sér ágætlega áfram enda var Ottó aðeins rúma 19 tíma norður þrátt fyrir sex stunda krók til Sauðárkróks. Ottó mun hafa selt Rudge mótorhjólið fyrir norðan því það er skráð með númerið A-42 á Kristján Rögnvaldsson, Fífugerði árið 1934. Hann á það allavega til 1936 en árið 1939 er það komið á Þórarinn Ólafsson með númerið A-234. Það var síðan afskráð árið 1941 og það síðasta sem við vitum af því er að það var selt til Þórshafnar.

Rudge mótorhjólamerkið var stofnað 1910 og var helst þekkt fyrir að þróa 4ra ventla eins strokks mótorhjól. Fyrsta fjögurra ventla hjólið frá þeim kom árið 1924 og var með fjögurra gíra kassa, eins og RE-321. Árið 1928 vann slíkt hjól Ulster Grand Prix og þess vegna komu á markað hin frægu Ulster hjól frá Rudge. 

New Hudson mótorhjólin

Á Íslandi voru allavega til tvö New Hudson mótorhjól á millistríðsárunum. Voru þau bæði frekar forn en þau voru 1920 og 1924 árgerð. Samkvæmt skráningarupplýsingum virðist yngra hjólið hafa verið flutt inn frá Grimsby 12. apríl 1930. Það er fyrst í eigu Bjarna Guðmundssonar frá Túni fyrstu þrjú árin og bar þá númerið ÁR-46. Árið 1933 er það sagt bilað og það er selt Hannesi Gíslasyni, Reykholti Laufásvegi í nóvember það ár. Fær það þá númerið RE-465 en Hannes er allavega skráður fyrir því 1935. 1936 er það skráð á Marís Sigurðsson frá Litlu Brekku en hann virðist selja það 1937 Kristjáni Gíslasyni, Sogabletti 10 sem selur það Óskari Benediktssyni, Bragagötu 33 og fær það þá númerið R-1102 en hjólið er afskráð 1. júlí 1938. Hjólið birtist aftur á skrá fyrir austan fjall 1943 þegar Árni Gunnar Pálsson frá Litlu-Reykjum er skráður fyrir því, en það fer af skrá 1944. Hann er svo skráður fyrir því í Bílabókinni 1945 og er það síðasta sem við vitum um hjólið.

Hjólið ÁR-46 situr Bjarni Guðmundsson í Túni en hann átti hjólið frá 1930-33. Mynd ©
Héraðsskjalasafn Árnesinga.

Eldra hjólið var með skráningarnúmerið RE-392 og fór á skrá 19. mars 1927. Vélarnúmer þess var 20J1375 sem bendir til þess að um 1920 árgerð sé að ræða. Það var fyrst skráð á Friðrik K Þorgeirsson, Njálsgötu 47 en 16. ágúst 1928 er tilkynnt með bréfi að bifhjól þetta hafi verið selt Konráði Guðmundssyni, Óðinsgötu 13. Það er sagt ónýtt frá 16. júní 1930 og númeri þá skilað.

Hjólið á myndinni er af New Hudson 350 síðuventla eins og hjólinu sem hingað kom. Þetta hjól er 1924 árgerð og fannst í Svíþjóð um miðjan sjötta áratuginn í kössum. Það var gert upp af Alf Laver og selt Esko Rautanen sem notaði það talsvert. Það var selt á uppboði í Las Vegas árið 2019 og metið á 22.000 dollara, enda er New Hudson hjólin orðin fágæt. Hjólið var áður hluti af mótorhjólasafni í Stokkhólmi.

Þriðja New Hudson hjólið var skrá 3,5 hestöfl og var 1940 árgerð. Það hlýtur þó að vera eldra þar sem að New Hudson hætti framleiðslu á mótorhjólum vegna kreppunnar árið 1933 og byrjaði ekki fyrr en 1940 aftur, og þá aðeins á 98 rsm hjólum með Villiers vélum. Alveg er fræðilegur möguleiki að hjólið frá 1924 hafi verið endurskráð, allavega passar hestaflatalan við stærð vélarinnar. Það fór á skrá í Reykjavík 6. ágúst 1952 en hafði áður verið á númerinu B-22. Það var fyrst skrá í Reykjavík á nafn Ejvel Christiansen frá N-Gade í Kaupmannahöfn með númerið R-1150. Það er svo selt 11. desember 1953 Jóni Ólafssyni, Skipholti 27 og númerið lögð niður. New Hudson mótorhjólið R-3944 birtist í Bílabókinni 1956 og mjög líklegt má telja að um sama hjól sé að ræða. Það var þá skráð á Pétur Jónsson, Samtúni 10. Loks var svo eitt New Hudson mótorhjól til af 1946 árgerð, en þá átti um tíma Hilmar Lúthersson, Snigill nr. 1. Það var aðeins 98 rsm og þurfti ekki að skrá og hefur það líklega aldrei farið á skrá.

Þessi síða úr bækling fyrir New Hudson mótorhjólin sýnir tækniupplýsingar og einnig sést að um Model 83 er að ræða, þar sem íslenska hjólið var hvorki með ljósi né rafmagnsflautu.

New Hudson mótorhjólin frá fyrri hluta þriðja áratugarins voru í stíl tíðarandans með eins strokks toppventla eða síðuventla vélum sem voru berandi hluti grindarinnar. Gafflarnir voru Druid gormagafflar og tankurinn milli efri grindarbita og olíutankurinn milli hnakksúlunnar og afturbrettis. Þetta þóttu falleg og sportleg hjól með gott orðspor. Hjól Bjarna í Túni sem myndin sem fylgir þessari grein er af, bar vélarnúmerið L7222 en það hefur líkast til verið 1924 árgerð. L þýddi að um 350 rsm hjól var að ræða og auðvelt er að sjá að hjólið hefur verið síðuventla.

Hilmar Lúthersson situr hér New Hudson nöðruna sína sem hann gerði upp fyrir nokkrum árum. Mynd © Tryggvi Sigurðsson.

Fyrsta lögreglumótorhjólið hét Imperia

Í bók minni „Þá riðu hetjur um héröð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi“ velti ég því upp sem möguleika á Lögreglan í Reykjavík hafi árið 1930 prófað að nota bifhjól í fyrsta skipti og þá líklega með Alþingishátíðina í huga. Hafði ég það eftir viðtali við Einar Björnsson sem átti nokkur mótorhjól á fjórða áratugnum, en hjólið sem um ræddi var af gerðinni Imperia, þýskt að uppruna og kraftmikið sporthjól. Hafði hann sögunna eftir þeim sem seldi honum hjólið. Nýlega fékk ég á því staðfestingu að hjólið var í reynd í eigu Lögreglunnar í Reykjavík um tíma árið 1930 sem gerir það að fyrsta lögregluhjólinu á Íslandi. Hægt er að sjá það í skráningarbók frá þessum tíma.

Hér sést í skráningarbókum að hjólið var um tíma í eigu Lögreglunnar í Reykjavík. Heimild: Ingibergur Bjarnason.

Við skulum grípa aðeins niður í sögu Einars af hjólinu í meðförum lögreglunnar. „Lögreglustjórinn á þessum tíma (1933-34), Erlingur Pálsson, stóð fyrir að hjólið væri keypt. Þá var í þjónustu lögreglunnar Vestur-Íslendingur að nafni Jón, gríðarlega stór og mikill. Hann fór í prufutúr á hjólinu með lögreglustjórann aftan á. Hann keyrði með lögreglustjórann inn í Sogamýri og þegar hann var kominn á sprett sleppir hann báðum höndum af stýrinu og lætur vaða aðeins áfram þannig. Stjórinn verður þá svo hræddur að hann segir að það komi ekki til mála að lögreglan fari að nota svona tæki. Hjólið var því selt í hvelli.“

Einar Björnsson tók eitt sinn þá ákvörðun á leið suður frá Blönduósi að fara um Hveravelli til baka, og varð því fyrstur til að fara á vélknúnu ökutæki9 yfir Kjöl. Þessi mynd var tekin af honum stutt frá Hveragerði er hann hafði lokið ferðinni en myndina tók Bjarni Einarsson í Túni.

Samkvæmt skráningarbókum er fyrsti skráði eigandi Imperia mótorhjólsins Bæjarsjóður fyrir Lögregluna í Reykjavík, en það er svo skráð á Ágúst Jón Brynjólfsson, járnsmið að Laugavegi 42. Það er selt Jeppe Svendsen, Framnesvegi 13 þann 2. júlí 1931, en hann var húsgagnasmiður sem fluttist hingað til lands á þriðja áratugnum. Hann á hjólið næstu tvö ár en Jón Erlendsson frá Sauðagerði er skráður fyrir því í júlí 1933. Árið 1935 er það skráð á Guðmund Fr. Einarsson, Þvervegi 2 en Einar Björnsson er skráður fyrir því 1936. Einar selur Gústaf B. Einarssyni, Hverfisgötu 59 hjólið árið 1937 en Einar Matt. Einarsson, Blómvangi í Mosfellssveit, eignast það 16. júlí 1937 og á það til 1940. Það skiptir um númer 1936 og fer af RE-265 á R-265 og 23. ágúst 1940 fer það á R-1143.

Að sögn Einars Björnssonar voru það tveir bræður sem keyptu af honum hjólið sem bjuggu á Hverfisgötu, og ekki er ólíklegt að þetta séu ein itt þeir sem sitja hér hjólið. Höfðu þeir séð til ferða Einars á hjólinu og þótt það kraftmikið og að þeir yrðu að eiganst gripinn.

R-1143 er skráð 23. ágúst 1940 á Einar M. Einarsson, Bræðraborgarstíg 31, en 11. mars 1942 er það komið á nafn Ólafs B. Þorvaldssonar. Laugavegi 128. Hann selur það 6. júní sama ár Jóni Kristbjörnssyni, Freyjugötu 45 og hjólið er skoðað 17. júlí 1942, degi áður en það er selt Guðmundi Brynjólfssyni, Óðinsgötu 3.

Imperia merkið var frægt fyrir tæknilega fullkomion hjól og á stundum óvenjulegar, eins og 348 rsm tvígengis boxermótor sem var í raun og veru einn strokkur með tveimur stimplum sem mættust í miðjunni. Þess vegna var sveifarás á sitt hvorum endanum sem voru tengdir saman með keðju og var keðjan einnig tengd keflablásara fyrir ofan vélina. Það var ekki síst fyrir mikinn kostnað við þróun slíkra véla að Imperia merkið komst í vandræði og hætti framleiðslu 1935. Hér má sjá alveg eins Imperia hjól og kom hingað til lands og er fyrri hluti vélarnúmers þess sá sami og á íslenska hjólinu, eða 1C9H8. Það er búið Bosch ljósum, Bosch flautu, Bosch kveikju, B&B blöndungi, auk stýrisdempara og hraðamæli.

Síðasti eigandi Imperia hjólsins sem vitað er um hét Þorsteinn Sigurfinnsson, Sólvallagötu 45. Hann er skráður fyrir hjólinu 15. janúar 1943 en í mars 1947 er það afskráð. Það fer svo aftur á skrá og er skoðað 1948 og selur Þorsteinn það síðan 13. desember 1955, en þá er það lagt niður sem ónýtt. Ómögulegt er að segja til um hvað varð af hjólinu eftir það og erfitt gæti reynst að finna hjólið erlendis, þar sem aðeins var skráður fyrri hluti vélarnúmers, sem er eins á öllum þessum hjólum af sömu árgerð.

Hér má sjá Imperia hjólið annað frá hægri en Einar Björnsson eigandi þess er lengst til hægri.

Sunbeam hjólin á Íslandi

Sunbeam hjól voru ekki algeng hérlendis þótt þau hafi notið nokkurra vinsælda í Bretlandi sérstaklega. Að minnsta kosti fjögur slík voru þau hér samkvæmt mismunandi heimildum. Eitt þeirra var elst, líklega 1922-3 árgerð, eitt 1929 og það þriðja frá miðjum fjórða áratugnum. Það fyrsta sem við höfum um fyrsta Sunbeam hjólið er auglýsing sem birtist í Morgunblaðinu 11. Ágúst 1923. Þar segir að til sölu sé Sunbeam-mótorhjól næstum nýtt og upplýsingar hjá K. Stefánssyni, Vesturgötu 3. Einnig er auglýst í Vísi í júlí 1926 „The Sunbeam“ mótorhjól, ódýrt vegna burtferðar, til sýnis að Skólavörðustíg 15.

Auglýsingin sem birtist í Morgunblaðinu í ágúst 1923.

Í gömlum skráningarbókum má finna Sunbeam hjól sem að öllum líkindum er sama hjólið. Það bar númerið RE-265 og var skráð sem tveggja strokka, en aðeins ein gerð tveggja strokka Sunbeam mótorhjóla var til á þessum tíma. Það var 8 hestöfl og kom 1922 með JAP vél. Í sömu skráningarupplýsingum kemur fram að hjólið hafi verið í eigu Axel Lange, Stýrimannastíg 9. Þar kemur einnig fram að hjólið hafi verið flutt utan til Danmerkur með skipinu Botníu 4. ágúst 1926.

Hér má sjá tveggja strokka Sunbeam mótorhjólið með JAP vélinni en þau báru lág vélarnúmer. Þetta eintak sem selt var af Bonhams uppboðsfyrirtækinu árið 2010 fyrir 1,8 milljónir króna, bar vélarnúmerið 1714 og var árgerð 1924 en íslenska hjólið var með númerið 721 svo að ekki er ólíklegt að það hafi verið 1-2 árum eldra.

Næsta Sunbeam hjól var 1929 árgerð og þótt engin mynd sé til af því er því vel gert skil í skráningarupplýsingum. Það er á skrá frá 1939-43, fyrst á R-númerinu 1117 en Baldur Kristinsson þjónn, Skeggjagötu 9 átti það fyrst. Er það sagt innflutt notað frá Englandi en Baldur selur það Sveini Ásmundssyni, Ásvallagötu 49, sem selur aftur Stefáni Karlssyni, Mánagötu 3 í ágúst 1940. Haustið 1940 er það komið í eigu Einars Jónssonar, Laugavegi 13 en þann 1. Júlí 1941 er það komið í eigu Sigurbjörns Magnússonar í Hafnarfirði og fær þá númerið G-211. Kristinn Þorbergsson í Garði er svo skráður fyrir því árið 1942 og aftur ári seinna en ekkert er vitað um hjólið eftir það. Það bar vélarnúmerið 22435 svo líklega hefur það verið Model 7 og 350 rsm síðuventla, en einmitt sú gerð breyttist árið 1929 og fékk nýtt útlit. Fékk það nýja grind og skiptu þeir út flata bensíntankinum fyrir söðultank, og þar sem vélarnúmerið var í hærri kantinum er ekki ólíklegt að um þannig hjól hafi verið að ræða.

Þriðja Sunbeam mótorhjólið sem við höfum vitneskju um bar númerið R-1158 sem finnst ekki á skrá með því númeri, en til er góð mynd af þessu hjóli. Hjólið er mjög auðþekkjanlegt og sést vel að um Model 14 hjólið er að ræða. Það var framleitt frá 1933-38 en R-1158 er númer sem kemur ekki á mótorhjól fyrr en 1940 í fyrsta lagi svo ómögulegt er að geta sér til um árgerðina.

Sunbeam mótorhjólið ber númerið R-1158 sem bendir til þess að myndin sé tekin á fimmta áratugnum.
Model 14 hjólið var 250 rsm og búið fjögurra gíra Burmann gírkassa. Hjólinu var aðeins breytt árið 1935 með nýrri ventlum, lengri slaglengd og minna bori en sú breyting þótti ekki heppnast vel og kom hjólið aftur í fyrri gerð árið 1936.
Loks er svo 6 hestafla Sunbeam mótorhjól, vandað og nýlegt auglýst til sölu í Fálkanum sumarið 1945.
AMC keypti Sunbeam merkið árið 1937 og vegna stríðsins þurfti að hagræða innan samsteypunnar og áherslan var sett á Matchless G3 herhjólin. Þess vegna voru sí‘ustu fyrirstríðshjólin þessi B25 módel sem voru á sölulista Sunbeam alveg fram til 1940. Líklegt má teljast það hjólið sem auglýst var 1945 hafi einmitt verið svona hjól.