Elsta mótorhjólið til að nást á mynd

Bjargmundur Björgvinsson hafði samband við undirritaðan á dögunum með nokkrar gamlar mótorhjólamyndir úr safni afa síns, Bjargmundar Guðmundssonar. Bjargmundur hinn eldri var lengst af rafstöðvarstjóri í Hafnarfirði og átti nokkur mótorhjól en fyrsta mótorhjól hans var Bradburymótorhjólið. Á einni myndinni mátti sjá, svo ekki varð um villst, mótorhjól sem bar númerið RE-187, en það er einmitt númerið sem Bradbury-mótorhjólið bar. Við nánari skoðun á hjólinu á myndinni má sjá að um 1911 árgerð er að ræða sem gerir myndina ansi merkilega, því aðeins er vitað um eitt eldra mótorhjól á Íslandi, en það var ELG-mótorhjólið sem kom hingað fyrst allra árið 1905.

Bradbury Standard frá 1911 þekkist meðal annars af reimdrifi og gaslukt ásamt skermuðu frambrettinu.

Bradbury-mótorhjólið var fyrst skráð á Óskar Westlund prentara 24. apríl 1920 og er ári seinna skráð á Bjarna Þorsteinsson, Vesturgötu 33. Það er svo tilkynnt 1924 að í apríl 1922 hafi hjólið verið selt Bjargmundi Guðmundssyni í Hafnarfirði, en hann átti einnig BSA-mótorhjólið HF-10 árið 1927 eða þar um bil. Allavega er RE-187 komið á Rugby-vörubifreið í byrjun árs 1928 svo að líklega hefur hann selt Bradbury-mótorhjólið um eða eftir miðjan þriðja áratuginn. Hjólið var upphaflega skráð eins strokka og 3 ½ hestafl og 60 sentimetrar á breidd svo ekki hefur það verið með hliðarvagni.

Myndin virðist vera tekin við Rafstöðina við Elliðaár en Bjargmundur vann þar 1922-3 og er myndin því líklega tekin ekki síðar en 1923.

Bradbury er eitt af fyrstu mótorhjólamerkjunum en Bradbury-mótorhjól komu á markað árið 1902 með Minerva-vélum. Bradbury fékk einkaleyfi árið 1903 fyrir grind sem var ásoðin sveifaráshúsinu og þar af leiðandi þóttu hjólin stöðugri í keyrslu. Árið 1910 voru komnar kúlulegur í sveifarásinn og á þessum tíma þóttu Bradbury-mótorhjólin mjög fullkomin. Árið 1910 kom 3,5 hestafla gerðin á markað og voru tvær gerðir Bradbury þá á markaði, bæði 517 rsm. Gerðirnar kölluðust Sport og Standard og voru búnar reimdrifi. Þá voru þær búnar Dunlop-dekkjum og Brooks-hnakki, en Standard-útgáfan eins og hjól Bjargmundar var með gaslukt með gastanki fyrir ofan bensíntankinn og þekkist 1911 árgerðin af því.

Mótorhjól fyrir norðan á millistríðsárunum

Fyrsta skráða heimild um mótorhjól á norðurlandi er grein í Verkamanninum 10. júlí 1919 en þar segir svo: “Fyrst minnst er á bifreiðarnar. er ekki hægt að sleppa nýtískuleikfangi, sem nýkomið er til bæjarins. “Mótorhjól” er það kallað í daglegu tali. Ekki ber svo mikið á þessum ferðarokk á daginn, en með kvöldinu fer hann á kreik, og stundum hraðara en skyldi. Standa þessar skemmtiferðir stundum langt fram á nótt og fylgir þeim töluverður hávaði. Fólk kvartar sáran undan þessu óþarfa næturgöltri, en ekki ber á öðru en næturvörðurinn láti það afskiftalaust.” Um haustið sama ár fer líka að bera á auglýsingum um Henderson mótorhjólið sem Esphólín Co. á Akureyri hafði umboð fyrir, en hingað til lands kom eitt slíkt hjól sem var fyrir norðan fyrstu árin og er nú varðveitt á Mótorhjólasafninu á Akureyri.

Harley-Davidson 1920 við Pollinn á Akureyri en slíkt hjól var í eigu Gríms Valdimarssonar á þriðja áratugnum. Ef einhver getur nafngreint mennina á myndinni væri það vel þegið. Mynd © Minjasafn Akureyrar.

Talsvert var um mótorhjól á Akureyri og nágrenni strax á millistríðsárunum enda hafa þau verið hentug til ferðalaga á þeim vegum sem þar voru á þessum tíma. Meðal fyrstu mótorhjóla norðan heiða hafa verið Henderson mótorhjól Esphólín frá 1918 og Harley-Davidson hjól Gríms Valdimarssonar sem var 1920 árgerð. Ekki er vitað hvaða A-númer var á Henderson mótorhjólinu en hjól Gríms var fyrst með númerið A-16 en síðar A-41. Önnur mótorhjól með lág A-númer voru AJS hjól Stefáns K. Snæbjörnssonar sem bar A-17 og A-21 sem var í eigu Eggerts Stefánssonar. A-17 var með vélarnúmerið 48475 og hefur samkvæmt því verið Model E6 af 1925 árgerð, en A-21 líklega 1928 módel. Næsta hjól með lágt númer var BSA hjól Gests Pálssonar með A-31 en á eftir því sjaldgæft Rudge Whitworth hjól Kristjáns Rögnvaldssonar frá Fífugerði. Einnig voru notuð E-númer á fyrstu árunum og meðal mótorhjóla sem báru E-númer var Opel hjól Tryggva Gunnarssonar sem fyrst bar númerið E-15 en síðar A-120.

Opel 500 Motoclub 1928 síðuventla, en slíkt mótorhjól var aðeins framleitt í 3 ár, frá 1928-30. Vélarnúmer A3259. Jón Norðfjörð á hjólið frá 1930-32. Mynd © Minjasafn Akureyrar.

A-52 var NSU mótorhjól í eigu Þórs Jóhanssonar og hefur verið fyrsta NSU mótorhjól landsins. Hann hefur átt hjólið 1934-35 en árið 1936 er það selt Gunnari Sigþórssyni. A-53 var svo Norton 18H mótorhjól frá 1934 í eigu Kristjáns P. Guðmundssonar. Næsta hjól í röðinni er svo A-59 sem var Triumph hjól í eigu Lárus J. Rist. Næst koma A-61 Ariel bifhjól í eigu Ólafs Jónssonar, Gróðrastöðinni og þvínæst A-62 sem var AJS í eigu Þorvalds J. Vestmann. A-63 var þýskt DKW sem Marinó Stefánsson átti.

NSU mótorhjólið var með vélarnúmerið 106868 svo það hefur verið Model 501 eins og þetta og þá líklega af 1927 árgerð. Það var reyndar ekki búið hliðarvagni eins og þetta hjól en 501 hjólið þótti fullkomið að mörgu leyti, eins og að mótor og þriggja gíra kassi voru sambyggðir. Kveikja og rafkerfi komu frá Bosch en hjólið skilaði 11 hestöflum og gat náð 100 km hraða.

A-68 var Triumph hjól sem að Aðalsteinn Einarsson átti frá 1934-37 en þá keypti Ölver Karlsson hjólið. A-69 var Ariel 1929 sem að var meðal annars í eigu Inga Hanssonar, Þorsteins Davíðssonar og Hafliða Guðmundssonar. Triumph hjólið A-71 var í eigu Jóns Kristinssonar frá 1934-36 en svo í eigu Ágústs Ásgrímssonar. A-77 var Ariel hjól sem var í eigu Þorsteins Benediktssonar lengi vel. RMW var sérstakt hjól frá Þýskalandi sem bar númerið A-89 og er í eigu Páls Tómassonar frá 1934. Það er svo komið í eigu Bifreiðastöð Akureyrar árið 1937.

RMW mótorhjólin voru framleidd í Sauerland í Þýskalandi með vélum sem kallaðr voru Phönix og festist það nafn oft við hjólin. Hér má sjá 250 Super Sport hjól frá 1938.

Næstu A-númer eru svo A-103 og A-104, en það voru Triumph hjól í eigu Þorvalds Hallgrímssonar og Francis Barnett hjól í eigu Páls Sigurðssonar frá Bakka. A-107 var New Imperial mótorhjól sem fyrst var í eigu Karls Magnússonar en síðar Antons Kurtgannon frá Englandi. Sama var með OCD hjólið A-108 sem var í eigu Richard Ryel til 1936 en svo í eigu Friðjóns Axfjörð og Þóris Björnssonar. A-114 var Triumph mótorhjól sem var í eigu Jóns Helgasonar til 1936 en svo í eigu Björns Guðnasonar og svo Ingólfs Kristinssonar. A-128 var DKW hjól með vélarnúmerið 266913 í eigu Vigfúss Sigurgeirssonar. A-136 er svo áðurnefnt Harley-Davidson hjól frá 1920, þá komið í eigu Björns Guðnasonar og svo Jóns Sigurgeirssonar frá Helluvaði. OEC hjólið A-108 hefur svo í stuttan tíma farið á A-142 undir nafni Gook 1935 áður en það er selt til Reykjavíkur. A-157 er svo Triumph sem var í eigu Kristins Sigmundssonar frá Hóli.

Norðlingur, 30. ágúst 1928.

A-128 var DKW hjól með vélarnúmerið 266913 í eigu Axels Kristjánssonar og Vigfúss Sigurgeirssonar um miðjan fjórða áratuginn.

Á mótorhjóli fóru þeir austur í Mývatnssveit fyrir stuttu Ottó Baldvins símritari og Vigfús Sigurgeirsson Ijósmyndari. Fóru þeir alla leið að Skútustöðum, og komu einnig að Grenjaðarstað. 3 og 1/2 kl. st. voru þeir þaðan og hingað tii Akureyrar. Þessi leið hefir aldrei verið farin áður á mótorhjóli.

Dagur, 19. ágúst 1937.

Önnur grein um slysið í Morgunblaðinu, 14. ágúst 1937.

Maður slasast á Akureyrargötum.

Um miðja síðustu viku var Herluf Ryel skipasmiður hér í bæ á leið heim til sín síðla kvölds og fór á bifhjóli. Maður í innbænum, Gunnar Thorarensen, heyrði að ekið var bifhjóli eftir götunni, en skyndilega heyrði hann þungt högg og í sama bili að tók fyrir gang bifhjólsins. Fór hann þá á fætur og fann Herluf liggjandi á götunni meðvitundarlausan í nánd við húsið nr. 19 við Aðalstræti. Hjá því húsi var gryfja í austurhluta götunnar, en allstór sleði hafði verið lagður yfir gryfjuna, og á hann er álitið að Herluf hafi ekið. Læknir kom brátt á vettvang, og var Herluf flutitur á sjúkrahús. Hafði hann hlotið meiðsl á höfuð og hefir legið meðvitundarlítill síðan.

Verkamaðurinn, 20. júlí 1929.

Jón Guðmann ásamt konu sinni og Þórður Þorbjarnarson á Ariel hjólum sínum.

Nýlega fóru þeir Jón O. Guðmann kaupm. og Þórður Jóhannesson smiður til Sauðárkróks á sínu ARIEL-bifhjólinu hverHafði Ouðmann frúna með í körfu. Á vesturleið hrefti ferðafólkið rigningu og norðanstorm. Voru vegir því slæmir á fjöllum uppi. En hjólin reyndust veltiþing og gekk ferðin ágætlega

Guðmundur Jónasson auglýsir hér 5 hestafla Triumph mótorhjól til sölu í Íslending árið 1931.

Á mótorhjóli á Skjaldbreið

Pétur Símonarson frá Vatnskoti í Þingvallasveit var þekktur fyrir marga vélarsmíðina og smíðaði meðal annars tvo vélsleða sitt hvoru megin við seinni heimsstyrjöldina með mótorum úr flugvélum. Hann notaði einnig mótorhjól við smíði sumra tæka eins og Vatnadrekans sem var með motor úr gömlu mótorhjóli. Einnig breytti hann gömlu Ariel mótorhjóli fyrir vetrarakstur og fór á því víða og fjöllum við aðeins um það hér.

Pétur átti Ariel hjólið 1936-38 en áður hafði hann átt gamalt Radco mótorhjól frá því kringum 1920. Ariel hjól Péturs var með númerið RE-429 og var með vélarnúmerið L.3980. Fyrsti eigandi var Konráð Guðmundsson, Fjölnisvegi 12 en hann skráði það 15. maí 1933. Hann kaupir það 10. Júlí 1936 af Pétri Maack, Bragagötu 22. Það er svo afskráð með vottorði 27. Júlí 1938. Það er bróðir Péturs, Aðalsteinn sem situr hjólið.

Fyrst er minnst á Ariel mótorhjólið í Nýja Dagblaðinu þann 18. Apríl árið 1937 í grein um það þegar Pétur fór á Skjaldbreið á hjólinu. “Um páskaleysið í vetur tók Pétur Símonarson í Vatnskoti við Þingvallavatn að vinna að útbúnaði, sem hann kom fyrir á mótorhjóli, er hann átti, og sem hann ætlaðist til að gerði kleift að fara á því yfir tiltölulega lausan snjó. Festi hann málmskíði meðfram framhjólinu og undir vélarkassann og setti á það gilda bílakeðju.

Nærmynd af Ariel hjóli Péturs fyrir breytingar en á hjólinu situr Ída, öðru nafni Ingibjörg Tómasdóttir.

Á sunnudaginn var steig Pétur svo á hjól sitt og stefndi Kaldadalsveginn til fjalla. Var þá auð jörð hið neðra, en óslitin snjóbreiða úr því kom innfyrir Hofmannaflöt. Fór hann eftir íshrönn meðfram Sandvatni og síðan beint af augum upp Skjaldbreið. En þegar ofarlega kom í fjallið varð hann að halda skáhallt upp hlíðarnar vegan hallans og komst hann þannig alla leið uppá fjallið, þar til hann átti aðeins ófarna 200 metra að gígnum. Þar uppi hafði snjórinn bersýnilega aldrei hlánað neitt í vor. Veður var bjart og fagurt þennan dag og logn á öræfum. Drifhvítur snær svo langt sem augað eygði, en blánaði fyrir brúnum Hlöðufells og Skriðu. Niðri í hlíðunum var mikil sólbráð og þegar Pétur fór til baka, hafði fönnin hjaðnað svo mikið, að snjórinn, sem hjólin höfðu bælt undir sig, er hann fór upp, stóð nú eins og lág brún upp úr hjarnbreiðunni. Við Sandvatn var færðin orðin mjög slæm, en þó gekk allvel og alls var Pétur 8 klukkustundir í ferðinni. Pétur segir, að gott sé að ferðast á hjólinu, með þessum útbúnaði, sé snjórinn það samanbarinn, að hann haldi gangandi manni, en tafsamt sé hann lausari.”

Ariel hjól Pétur á bungu Skjaldbreið.

Í viðtali við Tímann 5. Maí 1963 segir Pétur aðeins ffrá hjólinu þegar hann er spurður hvort að hann hafi farið á slíku tæki uppá Skjaldbreið. “Já, og um hávetur” svarar Pétur. “En þetta var ekkert venjulegt mótorhjól. Ég var búinn að umbreyta því. Ég smíðaði tannhjól í það og gíraði niður, svo það yrði kraftmeira. Svo setti ég aluminiumskíði sitt hvoru megin við framhjólið, stálskíði undir mótorinn og gírkassann. Ég smíðaði nýjan gaffal á það að aftan og setti sverari hjólbarða undir það og hafði á því keðjur. Svo brunaði ég á því út um allar trissur, fór oft yfir heiðina til Reykjavíkur, þótt allt væri ófært. Það var svo kraftmikið, að snjórinn stóð í strók á eftir mér.”
Gekk ekki erfiðlega upp á Skjaldbreið?
“Nei, Nei, en ég varð að skáskera brekkurnar upp og velja leið; þar sem snjórinn var fastastur. Ég var aftur á móti ekki lengi á leiðinni niður, brunaði. bara beint af augum. Þag kom náttúrlega stundum fyrir, að ég missti það niður í krapafláka, en smávegis erfiðleikar höfðu ekki mikil áhrif á mann. Maður var alltaf að skrattast á þessum mótorhjólum. Þegar ís var á Þingvallavatni, djöfluðumst við nokkrir strákar á mótorhjólum fram og aftur á glerhálu svellinu, þetta var okkar líf og yndi.

Pétur á hjólinu óbreyttu á ísilögðu Þingvallavatni við Sandey.

Pétur lenti í slysi á hjólinu á veginum milli Þingvalla og Vatnskots eitt sinn. Þá mætti hann bíl svo að hann leti útan vegar og á gjárvegg þar sem hjólið stoppaði en hann flaug sjálfur yfir.

Areil hjól Péturs var svokallað LB model sem kom fyrst á markað árið 1929 og hjólið hans Péturs hefur að öllum líkindum verið af þeirri árgerð. Það var 250 rsm og hjól með þessa kúbikatölu voru kölluð Colt í daglegu tali. Ariel valdi nefnilega að koma með minni fjórgengishjól í stað þess að koma með ódýrari tvígengishjól handa þeim sem vildu ódýrari hjól. Hjólið var rétt undir 200 punda skattaþröskuldinum og 1929 árgerðin var eina árgerðin sem kom með miðjustandara undir hjólinu. Þótti hann vera of veikur og auk þess mjög erfiður í notkun og kom hann því ekki á 1930 árgerðunum. Hjólið hans Péturs hefur verið með Lucas SS49 aðalljósi og eru 250 hjólin mjög sjaldgæf í dag þar sem að það voru frekar stærri hjólin sem lifðu lengur.

Í-88 aftur komið á götuna Vélhjól á Vestfjörðum II

Í öðrum þætti Vestfjarðarmótorhjólanna fjöllum við um hjól sem margir þekktu en það var Matchless mótorhjól Helga Hartarsonar sem bar númerið Í-88. Helgi Hjartarson átti reyndar þrjú mótorhjól uppúr seinna stríði. Fyrst kom Royal Enfield herhjól líkt og áður hefur verið talað um, því næst Matchless G8L og svo BSA mótorhjól sem enn er til hérlendis óuppgert. Að sögn sonar hans Hjartar Helgasonar þótti honum vænst um Matchless hjólið, sem hann seldi fyrir útborgun í íbúð þegar hann gifti sig. Hjörtur fékk oft að fara með honum rúntinn á því hjóli, og sat lengst af á bensíntankinum á sérstökum púða sem amma hans útbjó. Til er mynd af honum þar sem hann situr í fangi föður síns á BSA hjólinu.

Mynd af Helga Hajrtarsyni á hjólinu við Skálavík, rétt hjá Bolungarvík, en þessi mynd af honum er tekin 1952 meðan hann átti það ennþá.

Einu sinni ákvað hann að fá sér rúnt til Þingeyrar einn síns liðs á Matchless hjólinu. Þegar hann kom uppí Kinn mætti hann Ágústi Leósyni á mótorhjóli. Hann spyr hvert Helgi sé að fara og þegar hann heyrir það segir Ágúst. „Ég er að koma þaðan en ætla að snúa við og koma með þér.“ Þetta sýnir hvað menn höfðu gaman af mótorhjólunum á þessum árum. Helgi var mikill veiðimaður á bæði stöng og byssu. Hann fór allra sinna ferða á hjólinu og oft í veiðiferðir. Stundum fór vinur hans með til rjúpna en þá setti Helgi bakpokann og byssuna framan á sig, en vinurinn hafði sitt á réttum stað. Þannig keyrðu þeir alla leið í Arnarfjörð og víðar. Einu sinni plataði hann vin sinn til að koma með sér í langferð, alla leið suður yfir Snæfellsnes. Þar var unnusta hans í kaupavinnu það sumar. Þegar þeir voru komnir langt suður yfir gömlu Þingmannaheiðina þá yfirtók feimnin kjarkinn, og þeir snéru við.

Í-88 endurreist í allri sinni dýrð, gljáfægt eins og þegar Helgi Hartarson átti það.
Myndir © Tryggvi Þormóðsson.

Þegar við fréttum af því að búið væri að gera upp gripinn hans Helga urðum við að heimsækja eigandann, Guðmund Ásgeirsson, en hann hefur átt hjólið síðan 1963. Hann á annað mótorhjól sem hann hefur gert upp en það er BMW R50 1967 sem að Karl K Cooper átti einu sinni, en það er önnur saga. Við spurðum Guðmund hvernig hjólið komst í hans eigu. „Pabbi minn var vörubílsstjóri í Njarðvík og í einni af ferðum hans inná Stapa sem var þá ruslahaugur, hitti hann á félaga sína sem voru að henda drasli úr bílskúrstiltekt. Þar á meðal var hræið af þessu hjóli.“

Hjólið á meðan þar var ennþá í uppgerð, en hún hefur staðið með hléum síðan 1963.

Að sögn Guðmundar var það eina sem var nothæft úr hjólinu, stellið og hjólnáin og svo botninn úr mótorsnum ásamt gírkassa. „Brettin voru ónýt en það var hægt að nota stögin. Ég lét smíða bretti sem voru völsuð en ég þurfti svo að laga til og hnoða saman“ sagði Guðmundur. „Fljótlega eftir að ég fæ hjólið hjá honum var ég kominn með vél frá Englandi sem ég gat notað toppinn úr. Þá varð maður var við viðmótið hjá Tollinum sem vildi skipta sér af því hvað ég væri að panta þetta sjálfur, og vildi meina að ég ætti að fá þetta í gegnum umboðið.

Matchless G80 hjólin voru framleidd í 20 ár, milli 1946 og 1966 og kom fjöldi þeirra hingað uppúr seinni heimsstyrjöldinni. Flest voru af gerðinni G80L eins og þetta sem þýddi að það var með vökvafjöðrun að framan. Matchless og AJS voru þá komin í eina sæng og deildu nánast eins hjólum, og hét hjólið Model 18 AJS megin. Munurinn á hjólunum fyrir utan merkingu var að að á AJS var magnetan fyrir framan vélina en fyrir aftan á Matchless.

Ég kom svo hjólinu í gang en þegar ég fór í skóla var það sett í geymslu. Það er reyndar skemmtileg saga af því þegar það var komið í gang, en þá kom pabbi að því þar sem það var í gangi. Hann spyr hvort að hann mátti prófa en hann hafði aldrei prófað svona áður. Hann settist á hjólið og ég sýndi honum gírana og þess háttar. Með það rauk hann af stað og endaði í gegnum trégrindverkið í næsta garði.“ Óhætt er að segja að það hafi vel tekist til við uppgerðina hjá Guðmundi sem vonast til að geta prófað hjólið í vor með hækkandi sól.

Myndin er úr Bæjarins Besta frá 1992 en þar var viðtal við Viðar Finnsson, en pabbi hans átti Matchless hjólið um tíma. Myndin kom úr safni Helga eins og nokkrar aðrar myndir. “Þau voru glæsileg saman, Dúddí og mótorhjólið góða, sem var í eigu eiginmanns hennar Helga Hjartarsonar. Sagan segir að á hjólinu hafi aldrei sést ryk, og það var alltaf stífbónað. Myndin var tekin 1947.”

Yamaha kom fyrst 1967

Í bók minni „Þá riðu hetjur“ frá 2005 fjalla ég um fyrstu Yamaha hjólin sem hingað komu gegnum Bílaborg árið 1974, svo vitnað sé beint í texta bókarinnar. „Árið 1974 koma fyrstu Yamaha hjólin til landsins og voru það RD 50 til að byrja með. Það var Þórir Jensen hjá Bílaborg sem að flutti inn Yamaha hjólin. Voru þau send með Síberíulestinni í gegnum Rússland þar sem að erfitt var með flutning gegnum Súezskurð á þessum tíma. Komu 50 hjól í hverri sendingu, mest af skellinöðrum en seinna komu stærri hjól og þá aðallega torfæruhjól.” Meðal annars er tilgangur þessarar heimasíðu að leiðrétta ef upp koma rangfærslur, eftir útgáfu bókarinnar, eins og er í þessu tilviki.

Yamaha YDS3 eða “Twin Sport” eins og það var kallað þótti nokkuð fullkomið hjól fyrir sinn tíma. Það var með Autolube smurkerfi gegnum olíudælu í gírkassanum og stórum 24 mm blöndungum. Grindin átti ættir sínar að rekja til Asama keppnishjólsins en vélin var tvígengis, tveggja strokka og skilaði 27 hestöflum. Hjólið var 16,6 sekúndur að fara kvartmíluna og bremsurnar voru tveggja arma skálabremsur að framan. Í prófun Cycle World á hjólinu var helsti ókostur þess sagður að það eina sem takmarkaði getu hjólsins væri hversu fljótt það ræki sig niður í beygjum.

Fyrstu mótorhjólin frá Yamaha voru flutt inn af Japönsku Bifreiðasölunni árið 1967 og voru fjögur talsins. Þá vann Þorkell Guðnason þar og fékk það hlutverk að setja saman þessi fjögur hjól og prófa. Hann minnir að 80 hjólin tvö hafi ekki fengið skráningu þar sem að ekki var hægt að skrá þau sem skellinöðrur. “Ég var á þessum tíma þjónustustjóri hjá Japönsku bifreiðasölunni í Ármúla 7, sem var fyrsta Toyota umboðið á Íslandi, en við fengum bíla og þessi hjól frá Erla Auto Import í Danmörku. Það var lítill áhugi fyrir 80 rsm hjólunum sem pössuðu ekki á markaðinn hér, en ég prófaði þau í gryfjum þar sem nú er Fjölbrautaskólinn í Ármúla. Annað stærra hjólið fór á Skagaströnd en sá sem fékk 250 hjólið var Unnsteinn Egill Kristinsson, nágranni minn í Kópavoginum á þessum tíma. Hann seldi hjólið eftir að hafa lent í árekstri við hross hjá Bergsstöðum í Biskupstungum.”

Auglýsing úr Tímanum 10. Ágúst 1967 þar sem minnst er á hjólin en líklega hefur 100 rsm hjólið verið villa í auglýsingunni að mati Þorkels.

Egill minnist þess vel þegar hann lenti í árekstrinum við hrossið og sagði að það hefði þurft að aflífa það. “Það hljóp hrossahópur uppá veginn í veg fyrir mig og ég lenti á einu þeirra. Ég fótbrotnaði illa en hjólið skemmdist nokkuð mikið en ég lét laga það gegnum tryggingarnar sem að tók meira en ár að gera í lag. Þar sem ekki var hægt að fá rétt stýri og fleira breyttist það aðeins í meðförum okkar en ég seldi það svo til Reykjavíkur.”

Mynd af Tamaha 250 hjóli Unnsteins nýlegu fyrir utan heimili hans við Kársnesbrautina. Í bílskúrnum má sjá afturenda á Chevy Nova 1966.

Flókin ættfræði gamalla mótorhjóla

Það er ekki einfalt mál að finna út úr eigendasögu gamalla mótorhjóla á Íslandi og skráningarupplýsingum þeirra. Fyrir það fyrsta eru þær skráningarupplýsingar sem eru til frekar gloppóttar og oft þarf að reiða sig á aðrar upplýsingar eins og ljósmyndir eða munnlegar heimildir. Við getum tekið tvö dæmi en það voru skráningarnar R-1129 og R1164. Á forsíðumyndinni með þessari grein má sjá R-1129 að leik í snjónum við Stærribæ í Grímsnesi en þar bjó Hafliði Grímsson sem átti X-171,  en þá átti Ólafur Sigurðsson nágranni hans R-1129.

R-1129 var á þessu Royal Enfield mótorhjóli í eigu Hans Peter Christensen og það fór ásamt nokkum öðrum mótorhjólum yfir Kjöl og er til myndasería frá þeirri ferð í myndasafni fornhjol.is.

Svo við byrjum á R-1129 var það fyrst á Harley-Davidson mótorhjóli þegar það kom á númer og þá í eigu Eyjólfs Steinssonar. Það hjól hafði áður borið númerið R-23 en með breytingu á númeraskrá kringum 1940 voru bifhjól flutt á númerin R-1100-1199 í Reykjavík. Það dugði þó ekki lengi en þar sem mikið kom af hjólum til landsins á stríðsárunum þurfti að bæta við á nokkrum árum R-2800, R-3500 og R-3900. R-1129 sem Harley fer svo á nafn Guðna Guðbjartssonar, Seljavegi 39 1941-42. En svo við víkjum aftur að R-1129 til ársins 1945 er númerið komið á Triumph hjól af 1927 árgerð en þá átti Skarphéðinn Frímannsson það. Uppúr seinna stríði er númerið komið á Royal Enfield mótorhjól sem var fyrst í eigu Ólafs Sigurðssonar.

Þessi danski maður með íslenska nafnið Örn kom í heimsókn á Mótorhjólasafn Íslands og fann þá mynd með föður sínum á Royal Enfield mótorhjólinu R-1129.

Á árunum eftir stríð bjó hinn danski Hans Peter Christensen hér um nokkurra ára skeið. Númerið R-1129 er þó hvergi skráð á hann í skráningarupplýsingum og er aðeins sjáanlegt á nokkrum ljósmyndum. Svo merkilega vildi til að sonur hans heimsótti Mótorhjólasafn Íslands fyrir skömmu og rakst þá á mynd af föður sínum úr myndasafni undirritaðs. Í Bílabókinni frá 1956 var svo númerið skráð á BSA 1947 árgerð í eigu Inga R. B. Björnssonar.

R-1129 var fyrst á eins strokks Harley-Davidson Model C mótorhjóli frá 1931 en það var 500 rsm hjól með síðuventla mótor eins og sést hér á myndinni. Frá 1929-1931 komu þau með þessum tvöföldu framljósum og er eitt slíkt hjól ennþá til hérlendis.

R-1164 var fyrst á gömlu Monark 1928 mótorhjóli frá Svíþjóð, en það var skráð á Ásgeir Vigfússon til heimilis að Hraunborg við Engjaveg. Það er selt á Þistilfjörð árið 1943 og fer þá númerið á Norton herhjól frá 1940.

R-1164 var skráð á Monark hjól árið 1942 og er svo selt til Þistilfjarðar.

Það er fyrst í eigu Arnórs Hjálmarssonar frá Steinhólum við Kleppsveg 1943, en 1944 í eigu Jóhanns Einarssonar, Miklubraut 28. Gísli Sigurðsson frá Hrauni eignast það 1945 en sama ár fer R-1164 á nýttinnflutt AJS mótorhjól frá Englandi. Fyrst er það í eigu Jóns Ingvarssonar, Framnesvegi 18 og 1946 er það komið undir Bjarna Steingrímsson, Reykhólum. Árni Sigurðsson, Grettisgötu 47 eignast það sama ár en 1947 er það komið í eigu Björns Kristjánssonar frá Skagaströnd en þá fer það á númerið H-191.

R-1164 var á þessu Vespa hjóli sem samkvæmt munnlegum heimildum var fyrsta slíka hjólið sem kom til Íslands.

Árið 1949-50 er það komið á BSA hjól í eigu Tove Olsen frá Grenimel 38 en það hjól er svo flutt til Danmerkur. Næst sjáum við númerið á Rex skellinöðru frá 1954 en það var í eigu Hafsteins Daníelssonar, Sörlaskjóli 16 árið 1956. Árið 1957 er númerið komið á Vespa mótorhjól sem líklega var fyrsta eintakið hérlendis en það hjól má sjá á nokkum myndum með það númer. Loks er númerið aftur komið á BSA hjól 1959 og var þá í eigu Valdimars Samúelssonar.

R-1164 var komið á BSA 250 mótorhjól sem er hér í fjallaferð 1959 en myndin er tekin við gangnamannaskála nálægt Hlöðufell
Monark mótorhjól frá 1928 hefur verið eins og þetta 175 rsm hjól með vél sem Monark framleiddu sjálfir. Um er að ræða toppventlavél með þriggja gíra kassa frá Sturmey-Archer.