Categories
Uncategorized

Trúboði á mótorhjóli

Arthur Gook var enskur trúboði sem ferðaðist mikið um landið á fyrripart aldarinnar. Stundaði hann trúboð og smáskammtalækningar auk þess að reyna að koma á fót fyrstu útvarpsstöðinni á Íslandi. Hann bjó á Akureyri og frá 1929 til 1935 var aðal farartæki hans mótorhjól. Hjólin voru allavega tvö og var það fyrra nokkuð merkilegt, af gerðinni OEC. Hann skildi eftir sig dagbækur þar sem hann fjallar um mótorhjólið meðal annars. Dagbækur þessar færði Þóra Guðrún Pálsdóttir á tölvutækt form og birti á bloggsíðu sinni, þaðan sem við fengum þennan úrdrátt.

OEC mótorhjól Arthur Gook bar númerið A-108 meðan hann átti það, en það var 1930-1937 þegar það var selt Ríkharði Ryel 9. Júní 1937. Það var svo selt Bjarna Zophaníassyni 1. Febrúar 1939 og fékk þá númerið A-220. Aðalsteinn Sveinbjarnarson er næst skráður fyrir því og það er svo selt Aðalsteini Bergdal lögregluþjóni 15. Júlí 1941. Það er svo komið til Vestfjarða ári seinna en þá er Leifur Pálsson skráður fyrir hjólinu með númerið Í-62 og fer hann með það í skoðun 18. Ágúst 1942. Þessi mynd af hjólinu er tekin í Englandi áður en hjólið kom til Íslands. © Minjasafn Akureyrar.

Fyrst er minnst á mótorhjól í dagbókunum 23. júní 1930 þegar hann fer á hjólinu til Reykjavíkur, en sonur hans Eric hafði einnig farið suður á mótorhjóli tveimur dögum áður. Arthur leggur af stað frá Stöðinni eldsnemma morguns og borðar á Blönduósi en fer svo í Fornahvamm og gistir þar um nóttina. Daginn eftir fer hann af stað um hádegi og stoppar fyrst í Reykholti og svo Húsafelli. Heldur svo áfram gegnum Kálfadal til Þingvalla og þaðan til Reykjavíkur. Ljóst má vera á þessari lýsingu að það hefur verið erfið ferð á malarvegum þess tíma, og vel í lagt að fara hana á aðeins tveimur dögum. Hann heimsækir svo aftur Þingvelli áður en hann heldur 30. júní með skipinu Rodney til Englands. Á meðan á þriggja mánaða Englandsdvöl stendur kaupir hann sér forláta Douglas mótorhjól. Hann heimsækir meðal annars Veigastaði 27. október á hjólinu og fer með Eric syni sínum fram í Kristnes nokkrum dögum seinna á hjólinu. Hann virðist láta Eric hafa hjólið því að Eiríkur G. (Gook?) er skráður fyrir Douglas hjólinu A-106 1930 til 1933.

Eric Gook sonur Arthurs var oft með í ferðum og virðist hafa fengið Douglas hjólið fyrst til afnota. Jóhanna Jóhannsdóttir minnist hans í viðtali sem skemmtilegum strák sem átti mótorhjól og reiddi hana og systur hennar tangahringinn svokallaða. Hér má sjá hann á veg þar sem nú er Drottningarbrautin ásamt vini sínum. Douglas mótorhjólið A-106 var með vélarnúmerið E02270 og árið 1933 er það komið til Reykjavíkur með númerið RE-268. Fyrst á Oddur Sigurðsson, Laugavegi 30 hjólið og er einnig skráður fyrir því 1935. Gísli Þórðarson í Gunnarshólma er skráður fyrir því 1936 og Björgvin Bjarnason, Norðurstíg 7 árin 1937-8. Það er selt Þorkeli Guðmundssyni í Tungi í Kópavogi 11. Október 1938 og fær það þá númerið R-268. 31. Júlí 1940 fer það á númerið R-1137 og þá kaupir Sveinn Lýðsson, Þingholtsstræti 8 hjólið 22. Ágúst 1940. Haraldur Haraldsson, Frakkastíg 12, kaupir svo hjólið vorið 1942 og selur það síðsumars til Gísla Kr. Guðmundssonar, Bústaðarbletti 50. Ekki er vitað um hjólið eftir það. © Minjasafn Akureyrar.

Í apríl 1931 fjallar hann um nokkrar ferðir á mótorhjólinu, sú fyrsta 6. apríl. Þar nefnir hann að vegirnir séu mjög slæmir ennþá en fjórum dögum síðar er hann aftur á ferðinni og segist hafa ekið yfir þrjár brýr, og segir þá vegina miklu betri. Þann 20. apríl fer hann á Grund á mótorhjólinu ásamt tveimur öðrum. Svo á sumardaginn fyrsta segir hann frá því að allir hafi farið saman á mótorhjólum upp í brekkurnar hinu megin við fjörðinn. Til eru myndir úr þeirri ferð sem var upp í Vaðlaheiðina. Hann segist þar hafa ekið í fyrsta skipti með farþega og að þetta hafi verið skemmtilegur tími.

Á myndinni má sjá hópinn sem fór á sumardaginn fyrsta 1931 í brekkurnar í Vaðlaheiði. Aftast er Arthur Gook á OEC hjólinu en í miðjunni er New Imperial Blue Prince hjólið, en Karl Magnússon átti það á þessum tíma. Fremst er svo Francis Barnett 1929 mótorhjól með 172 rsm, tveggja porta Villiers tvígengisvél. © Minjasafn Akureyrar.

Næst er Arthur á ferðinni á uppstigningardag 14. maí þegar sjö fóru saman á fjórum mótorhjólum til Bægisár. Lagt var af stað um tíuleytið og fegnu þau fínt veður, en ekið var til baka um kvöldmatarleytið. Svo er hann aftur á mótorhjólinu 25. maí þegar hann heimsækir Dalvík kl 12:30, Hrísey 2:30 og Svalbarðseyri 5:30. Hann fékk gott veður og fór með mótorbáti til Svalbarðseyrar þar sem hann hélt samkomu. Hann fór svo með hesti upp á þjóðveg þar sem Eric beið hans með mótorhjólið, en heim á Akureyri komu þeir ekki fyrr en um hálftólfleytið. Í júní fer hann í ferð til Sauðárkróks en hann borðar hádegismat á Öxnadalsheiði, en kvartar yfir vondum vegi í Hólmum, og kom því seint á áfangastað. Hann heimsækir Hofsós með mótorbát og gistir að Reykjahóli, svo Haganesvík daginn eftir. Þvælist hann um nágrennið næstu daga en fer svo heim á hjólinu 26. júní. Hann segist svo fara næst á mótorhjólinu þann 13. júlí í Vaglaskóg.

New Imperial mótorhjólin þóttu nokkuð góð en um leið ekki of dýr og urðu nokkuð vinsæl á tímabili. Frá 1927 smíðuðu verksmiðjurnar sínar eigin vélar og þá voru 17 módel fáanleg. Hjólið hér er svokallað B10 Blue Prince sem var auðþekkjanlegt á ljósbláum lit. Það var sportlegt ferðahjól sem var með 350 rsm toppventlavél. Í desember árið 1930 komst slíkt hjól í fréttirnar þegar það kláraði 25.000 km þolakstur á 25 dögum í rigningu og stundum snjókomu. Það eina sem bilaði í hjólinu var hraðamælisbarki eftir 20.000 km akstur.

Arthur heldur svo til Reykjavíkur 31. júlí á mótorhjólinu og kemur á Blöndós daginn eftir, en hann gisti á Silfrastöðum. Hann er kominn að Fornahvammi 3. ágúst og daginn efir leggur hann af stað um hádegi. Talar hann um góða og slæma vegi en að gírarnir séu bilaðir á hjólinu. Daginn eftir er hann kominn á Akranes en fer svo með mótorbát til Reykjavíkur með mótorhjólið. Hann á fundi með ýmsu fyrirfólki næstu daga en fer svo á mótorhjólinu á Vífilsstaði 16. ágúst til fundar við Guðmund Einarsson.

Líklega úr sömu ferð og þegar farið var á Vaðlaheiðina sumardaginn fyrsta 1931. Fremst er New Imperial hjólið en Francis Barnett hjólið virðist kona vera við stýrið. Ef hún hefur verið eigandinn er hún ein fyrsta konan á Íslandi til að eiga mótorhjól, en Helga M. Níelsdóttir átti sitt mótorhjól í byrjun seinni heimsstyrjaldarinnar. © Minjasafn Akureyrar.

Þann 28. ágúst fer svo Arthur með Suðurlandinu til Borgarness og þaðan til Stykkishólms á hjólinu. Þar er hann í nokkra daga og heimsækir meðal annars Flatey. Hann leggur svo af stað til baka suður um morguninn 9. september og gengur vel yfir skarðið. Hljóðkútur losnar af hjólinu en gert er við til bráðabirgða á bensínstöð, og svo haldið áfram í Borgarnes. Þar er gert almennilega við hljóðkútinn. Hann ekur síðan nýjan veg að Fornahvammi en þarf að fara yfir á. Daginn eftir heldur hann svo af stað norður en brýtur bremsupedal og fótstig á Holtavörðuheiði. Hélt samt áfram á fullri ferð að Stað og Melstað og gistir svo á Blönduósi. Daginn eftir fer hann yfir Vatnsskarð og yfir í Skagafjörð og svo áfram yfir Öxnadalsheiði. Þar slitnar kúplingsvír sem veldur honum töfum. Hann heldur áfram í fyrsta gír, fyrst í Bakkasel og svo að Steinsstöðum þar sem hann fær gistingu. Er ekki útskýrt hvernig hann kemst svo til Akureyrar en hann er allavega næst á ferðinni á hjólinu 23. september þegar hann fer með Shenton að Munkaþverá í góðu veðri.

Douglas mótorhjólin voru vinsæl á sínum tíma sem var á millistríðsárunum. Þau voru með boxervél sem var langsum í hjólinu og voru þekkt fyrir endingu og þýðan gang. Hjól Eric var T6 útgáfan með krómuðum bensíntank og svinghjóli, verkfæratösku úr leðri, Brooklands pústkerfi, keðjudrifi og miðjustandara undir hjólinu sem var nýjung. Douglas T6 var nánast eins og hjól Robert Fulton Jr. Sem var fyrstur manna til að fara kringum hnöttinn á mótorhjóli, og sagt er frá í bókinni One Man Caravan. Hjólið á myndinni má sjá á breska mótorhjólasafninu í Birmingham.

Árið 1932 er þess getið strax í febrúar að Arthur sé á ferðinni á mótorhjólinu. Þá er þess getið að hann hafi ekið með sunnudagaskóladrengina í smá túra á mótorhjólinu, þeim til skemmtunar. Nokkru síðar fer hann með Helga Helgasyni á mótorhjólinu yfir brýrnar þrjár og ekki löngu seinna ekur Arthur um bæinn á hjólinu og tekur ljósmyndir. Mótorhjólið virðist þannig ekki einungis hafa verið tæki til að komast á milli staða, heldur virðist sem Arthur hafi haft gaman af því að skreppa í stutta túra á hjólinu og taka sér þannig örstutt frí frá amstri dagsins.

Arthur leggur af stað í ferðalag til Reykjavíkur þangað sem hann kemur 15. maí og er hann á mótorhjólinu. Hann hittir fjöldann allan af fólki og heldur samkomur á ýmsum stöðum, meðal annars í Keflavík þann 22. maí. Þangað fer hann á mótorhjóli og nefnir að hafa þurft að stoppa á leiðinni til að pumpa í afturdekkið. Hann var engu að síður kominn tímanlega. Næsta dag er Arthur þreyttur en það hindrar hann ekki í að fara með hjólið í viðgerð þar sem gert var við dekkið. Þann 24. maí fer Arthur með manni, Bjarna að nafni, á hjólinu til Þingvalla. Í byrjun júní fer hann til Eyrarbakka og heldur samkomu þar. Daginn eftir fer hann í Þrastarlund og ætlar sér að halda samkomu á Stokkseyri en verður að fresta henni vegna úrhellisrigningar. Hann heldur þess í stað áleiðis til Reykjavíkur og ferðin þangað gengur vel þrátt fyrir að hált hafi verið upp Kambana á mótorhjólinu. 

OEC hjól Arthur Gook á einhverjum þeirra slæmu vega sem hann minnist á í dagbókum sínum. © Minjasafn Akureyrar.

Mánudaginn 20. júní leggur hann af stað til norður á mótorhjólinu. Veðrið var ekki uppá sitt besta, það var skelfilega hvasst og sandrok gerði honum erfitt fyrir. Ekki er ljóst hvar hann gisti um nóttina. Daginn eftir fer hann með báti yfir Hvalfjörð og drekkur kaffi að Kalastöðum áður en hann heldur áfram ferð sinni. Það rigndi í fyrstu en Guð svarðaði bænum hans og það dró úr regninu. Hann stoppar í Fornahvammi, fær kaffi og hvílir sig um stund. Um nóttina gistir hann hjá Þórði og Guðrúnu á Hvammstanga, sem taka vel á móti honum. Næsta dag heldur hann af stað um eittleytið. Vegirnir eru slæmir og keðjan var sífellt að detta af hjólinu, í eitt sinn gerðist það þegar hann var að aka upp brattann að Vatnsskarði. Hann stoppar að Víðimýri, fær sér mjólk að drekka og setur eldsneyti á hjólið. Áfram heldur hann að Ytri-Kotum þar sem hann þarf að vekja upp heimilisfólkið til að fá mjólk og bensín. Enn heldur Arthur áfram för sinni. Á Öxnadalsheiði er ákaflega hvasst og í Hörgárdal festist keðjan. Sem betur fer á bíll leið þar hjá einmitt á réttum tíma og bílstjórinn aðstoðar Arthur við að koma keðjunni í lag. Hann er ekki kominn heim á Sjónarhæð fyrr en milli hálf fjögur og fjögur aðfaranótt fimmtudags, eftir erfitt ferðalag.

Arthur strýkur af sér svitann eftir erfiði í leðju á OEC mótorhjólinu. Takið eftir grófum kubbadekkjunum á hjólinu, ekki veitti víst af miðað við veginn á myndinni. © Minjasafn Akureyrar.

Ekkert er minnst á mótorhjólið í dagbækum áranna 1933 og 1934 en í nóvemberblaði Norðurljóssins 1935 er sagt frá því af hverju tafir hafa orðið á útgáfu blaðsins, en var það vegna þess að Atrhur sem var ritstjóri blaðsins, lenti í slysi á mótorhjólinu skammt frá Reykjavík. Meiddist hann á höfði og fékk mikinn heilahristing og lá í tvær vikur á sjúkrahúsi. Hann ræðir í bréfi norður að hann búist ekki við að fara austur yfir heiðina á bifhjólinu, heldur tekur hann skipið Dronning Alexandrine norður seinna um veturinn. Árið eftir er hann kominn á bíl svo að líklega hefur hann selt hjólið um veturinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *