Categories
Uncategorized

Yamaha kom fyrst 1967

Í bók minni „Þá riðu hetjur“ frá 2005 fjalla ég um fyrstu Yamaha hjólin sem hingað komu gegnum Bílaborg árið 1974, svo vitnað sé beint í texta bókarinnar. „Árið 1974 koma fyrstu Yamaha hjólin til landsins og voru það RD 50 til að byrja með. Það var Þórir Jensen hjá Bílaborg sem að flutti inn Yamaha hjólin. Voru þau send með Síberíulestinni í gegnum Rússland þar sem að erfitt var með flutning gegnum Súezskurð á þessum tíma. Komu 50 hjól í hverri sendingu, mest af skellinöðrum en seinna komu stærri hjól og þá aðallega torfæruhjól.” Meðal annars er tilgangur þessarar heimasíðu að leiðrétta ef upp koma rangfærslur, eftir útgáfu bókarinnar, eins og er í þessu tilviki.

Yamaha YDS3 eða “Twin Sport” eins og það var kallað þótti nokkuð fullkomið hjól fyrir sinn tíma. Það var með Autolube smurkerfi gegnum olíudælu í gírkassanum og stórum 24 mm blöndungum. Grindin átti ættir sínar að rekja til Asama keppnishjólsins en vélin var tvígengis, tveggja strokka og skilaði 27 hestöflum. Hjólið var 16,6 sekúndur að fara kvartmíluna og bremsurnar voru tveggja arma skálabremsur að framan. Í prófun Cycle World á hjólinu var helsti ókostur þess sagður að það eina sem takmarkaði getu hjólsins væri hversu fljótt það ræki sig niður í beygjum.

Fyrstu mótorhjólin frá Yamaha voru flutt inn af Japönsku Bifreiðasölunni árið 1967 og voru fjögur talsins. Þá vann Þorkell Guðnason þar og fékk það hlutverk að setja saman þessi fjögur hjól og prófa. Hann minnir að 80 hjólin tvö hafi ekki fengið skráningu þar sem að ekki var hægt að skrá þau sem skellinöðrur. “Ég var á þessum tíma þjónustustjóri hjá Japönsku bifreiðasölunni í Ármúla 7, sem var fyrsta Toyota umboðið á Íslandi, en við fengum bíla og þessi hjól frá Erla Auto Import í Danmörku. Það var lítill áhugi fyrir 80 rsm hjólunum sem pössuðu ekki á markaðinn hér, en ég prófaði þau í gryfjum þar sem nú er Fjölbrautaskólinn í Ármúla. Annað stærra hjólið fór á Skagaströnd en sá sem fékk 250 hjólið var Unnsteinn Egill Kristinsson, nágranni minn í Kópavoginum á þessum tíma. Hann seldi hjólið eftir að hafa lent í árekstri við hross hjá Bergsstöðum í Biskupstungum.”

Auglýsing úr Tímanum 10. Ágúst 1967 þar sem minnst er á hjólin en líklega hefur 100 rsm hjólið verið villa í auglýsingunni að mati Þorkels.

Egill minnist þess vel þegar hann lenti í árekstrinum við hrossið og sagði að það hefði þurft að aflífa það. “Það hljóp hrossahópur uppá veginn í veg fyrir mig og ég lenti á einu þeirra. Ég fótbrotnaði illa en hjólið skemmdist nokkuð mikið en ég lét laga það gegnum tryggingarnar sem að tók meira en ár að gera í lag. Þar sem ekki var hægt að fá rétt stýri og fleira breyttist það aðeins í meðförum okkar en ég seldi það svo til Reykjavíkur.”

Mynd af Tamaha 250 hjóli Unnsteins nýlegu fyrir utan heimili hans við Kársnesbrautina. Í bílskúrnum má sjá afturenda á Chevy Nova 1966.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *