Categories
Uncategorized

Brúðkaupsferðin á Harley

Þetta er Óskar Gíslason að brasa í Harley-Davidson hjólinu fyrir utan heimili þeirra að Grettisgötu 37. Hann er skráður fyrir hjólinu frá júlí 1931 til júlí 1933.

Þorleifur Óskar Gíslason átti nokkur mótorhjól snemma á fjórða áratugnum en hann fékk sér fyrsta mótorhjólið 1929 þegar hann kom frá námi í Danmörku. Þaðan kom hann líka með kvonfang sitt, Margrete Nielsen, síðar Gislason sem hann giftist 8. Júlí 1932. Þá átti hann forláta Harley-Davidson Model C 1930 sem bar númerið RE-439.

Óskar á RE-439 sem var 1930 árgerð af Model C með 500 rsm mótor. Vélarnúmer þess var 1815 svo það var númer 815 í röðinni af þeim 1.483 sem smíðuð voru árið 1930.

Þegar kom að því að giftast henni var ákveðið að fara með Suðurlandinu til Borgarness og aka þaðan í heimsókn til ættmenna á Sturlu Reykjum. Athöfnin var hins vegar haldin að Arnbjarnarlæk áðurnefndan dag. Þegar kom að því að ákveða hvert skyldi halda að brúðkaupi loknu var ákveðið að fara á Þingvöll og hafði Óskar hugsað sér að fara nýruddan veg um Kaldadal. Sóttist þeim ferðin vel þar yfir enda vegurinn góður en Margrete, sem alltaf var kölluð Gréta, minnist þess að hafa haldið sér fast niður brekkuna við Meyjarsæti.

Óskar uppábúinn á Harley hjólinu, en hvort það hafi verið á brúðkaupsdaginn er ekki vitað. Kannski getur einhver sagt okkur hvar þessi mynd er tekin til að ráða úr því?

Þegar komið var á Þingvöll þótti þeim gistingin þar heldur dýr og því var ákveðið að halda áfram í bæinn. Það reyndist hins vegar slæm ákvörðun þar sem að búið var að bera í Þingvallaveginn eftir skemmdir sem höfðu orðið á honum vegna Alþingishátíðarinnar. Var vegurinn því með mikilli lausamöl og grafinn þannig að oft þurfti Gréta að aðstoða bóndann við að losa hjólið á leiðinni. Þótti henni svo nóg um að hún vildi lítið koma nálægt þessum grip eftir það. Við getum þó þakkað henni fyrir myndirnar sem hún skildi eftir sig, en hún var dugleg að taka myndir sem var fátítt á þessum tíma. Hvort að myndir hér fyrir ofan sé úr brúðkaupsferðinni góðu verðum við að leyfa ímyndunaraflinu að ráða.

Þessi 500 rsm eins strokks mótor var kynntur til sögunnar árið 1929 en hjólið sjálft var nakvæmlega eins og tveggja strokka 750 hjólið og var hægt að skipta um mótor milli hjóla ef út í það var farið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *