Það að safna heimildum og skrifa bækur um gömul mótorhjól er verkefni sem stoppar ekki, og sífellt eru að koma viðbætur við söguna. Aðeins hefur bæst í söguna síðan að bókin „Goðsögnin frá Ameríku“ kom út um jólin og því er það góður vettvangur að nota fornhjol.is til að segja frá því sem bæst hefur við heimildir. Til dæmis áskotnaðist ritstjóra fornhjol.is mynd af Sigga Palestínu á WL mótorhjólinu sem tekin er að vetri til. Einnig hafði maður samband sem að gat sagt frá því að Harley-Davidson U-módelið frá 1942 sem talið var að brunnið hafði í skemmuni við Hálogaland, var ekki ónýtt eftir brunann heldur var það gert upp. Loks komu myndir frá Hilmari Lútherssyni sem sýna bæði frá uppboði Harley-Davidson lögregluhjóla árið 1989 og myndir af hjóli Hlyns Tómassonar, flugvirkja þegar Stjáni Meik sótti það úr geymslu, og var með á vörubílspallinum í nokkra daga. Óhætt er að segja að það vakti nokkra athygli á sínum tíma.
Það var Jón Már Richardsson rafeindavirki sem að keypti hjólið vorið 1960 og seldi aftur árið 1966. Sá sem gerði það upp að mestu var Jóhann Erlendsson flugvirki, en hann kemur heim frá námi í Bandaríkjunum árið 1957. Ekki fylgir sögunni hvernig hann eignaðist það en þegar hann kemur heim eru sex ár liðin frá brunanum svo líklegt er að einhver hafi átt það á undan honum. Jón Már var að vinna með bróðir Jóhanni flugvirkja sem hét Höskuldur og hafði aðstoðað við uppgerðina á hjólinu. Jón Már lýsir því þegar hann fór að skoða hjólið með þessum orðum. „Árið 1959 fæ ég bílpróf, og fer að velta fyrir mér kaupum á mótorhjóli. Áður var ég búin að vera með skellinöðru, en Höskuldur bróðir Jóhanns, segir að Jói bróðir sinn sé með stórt mótorhjól til sölu. Förum við nú suður á Reykjavíkurflugvöll til að skoða hjólið. Ég man að mér varð hálfpartinn um er ég sá gripinn, risahjól með hliðarkerru. Harley-Davidson týpa-U. Ég fór í smá prufutúr á gripnum, en hjólið var þungt og réð ég ílla við það með hliðarkerruna. Ekki varð af kaupum þá, en ég hugsaði málið í dálítinn tíma og gerði honum svo tilboð í hjólið, án hliðar kerrunar. Hann tók tilboðinu, en ekki veit ég hvað hann gerði við kerruna.“