Categories
Uncategorized

Motor Cycling fjallar um Ísland árið 1914

Í gömlu hefti Motor Cycling frá 1914 segir frá komu Miss Nan Henry til Ástralíu að kynna Precision mótorhjólin. Henry var eina konan í Bretlandi sem vann við að kynna mótorhjól. Í blaðagreininni segir hún meðal annars frá því að hún hafi verið ráðin af Íslenska mótorþróunarfélaginu (Iceland Motor Developing Company) til að kynna Precision Junior hjólin á Íslandi. Þar lýsir hún landi án lesta eða annara stórra farartækja og lélegum vegum sem þar voru. Vegna þess hefðu íbúar landsins þurft að snúa sér að léttum mótorhjólum til að komast á milli staða.

Greinin um Miss Nan Henry í Motor Cycling tímaritinu ári 1914.

Litla Junior hjólið hentaði landslaginu einstaklega vel þar sem það er svo létt og meðfærilegt. Hún klykkir út með að segja að það séu hundruð Precision Junior hjóla þar núna sem séu eigendum sínum til ómældrar ánægju. Eflaust er síðasta setningin ekkert annað en ýkjur til að auðvelda sölu hjólanna en til eru nokkur dæmi um hjól með Precision mótorum, aðallega af nokkrum myndum en einnig úr skráningum frá 1920 svo eitthvað er til í þessari sögu. Munu það vera nöfn eins og Mead Flyer og Radco svo eitthvað sé nefnt.

Mótorhjól með Precicion mótor einhverstaðar á Íslandi.

Annað sem styður þennan orðróm er stutt grein úr októberhefti The Motorcycle frá 1914. Þar segir frá láti mótorhjólamannsins L. W. Spencer í stríðsátökum í Frakklandi. Þar er hans meðal annars minnst sem eins breska mótorhjólamanninum sem ferðast hafi um Ísland á mótorhjóli. Spencer rak um tíma litla mótorhjólaverksmiðju sem framleiddi Little Giant hjólin, sem voru með Precision mótorum.

Categories
Uncategorized

Stína á hjólinu

Kristín Kristjánsdóttir frá Húsavík var ein fyrsta konan á Íslandi til að eiga og nota mótorhjól, en það átti hún um miðja tuttugustu öldina. Hún átti Royal Enfield hjól frá hernum í nokkur á og notaði hún hjólið talsvert í veiði og til að heimsækja fjölskyldu sína í Bárðardal. Einnig notaði hún það til ferðalaga og ferðaðist mikið með Ríkharði Pálssyni sem einnig átti mótorhjól. Fóru þau meðal annars saman í Ásbyrgi á hjólunum.

Myndin af Stínu sýnir hana laga sprungið afturdekk á hjóli sínu einhversstaðar í Aðaldalshrauni. Mynd © Minjasafnið á Akureyri.

Hún var mjög smávaxin og grönn og ef hjólið fór á hliðina reisti hún það ekki við hjálparlaust. Hún kom nokkrar ferðir á því í Lundarbrekku til systur sinnar. Hún hafði þann hátt á þegar hún var að fara fram í sveitir, að fara seinnipart nætur á stað til að losna við umferð. Einu sinni var hún á leið í Lundarbrekku og áði við BP bensíntank sem Lúter Vigfússon á Fosshóli var með. Hún mældi bensínið á hjólinu til að sjá hvort það dygði suður í Lundarbrekku. Hún vildi helst ekki vekja Lúter ef hún kæmist hjá því. Hún ákvað að bensínið væri nóg, en þegar hún var að setja hjólið í gang datt það á hliðina. Varð hún því að vekja Lúter og fá hann til að hjálpa sér að reisa það við. Lúter tók ekki annað í mál en hún drykki með sér kaffi, einmitt það sem hún ætlaði að sleppa við.


Royal Enfield Flying Flea var einfalt 125 rsm mótorhjól með handskiptingu á bensíntanki.

Einu sinni festi hún hjólið í djúpum hjólförum uppi á Mývatnsheiði. Hún var á leiðinni upp í Hofsstaði að veiða í Laxá. Það varð henni til bjargar að Siggi í Haganesi, frændi hennar kom á bíl og hjálpaði henni að losa hjólið, en hann var að fara í flug snemma til Akureyrar.

Talsverðu var eytt í þróun þess að geta kastað Flying Flea út úr flugvélum þótt það hafi sjaldan verið raunin þegar til kom. Mynd © Top Gear

Hjólið hennar Stínu bar númerið Þ-110 og var Royal Enfield Flying Flea hermótorhjól sem hannað var sérstaklega til að það væri hægt að kasta því út í fallhlíf. Hjólin voru létt enda bara með 125 rúmsentimetra vél en beðið var sérstaklega um þau af breska hernum þegar ekki var lengur hægt að fá DKW RT100 hjólin árið 1938 vegna yfirvofandi átaka. Hægt var að fella upp fótstig og startsveif ásamt stýrinu til að hjólið tæki sem minnst pláss. Gengið var frá bensíni þannig að það læki ekki þrátt fyrir að hjólið væri á hvolfi. Hjólin urðu vinsæl eftir stríð sem ódýr leið til að útvega sér ökutæki og voru í framleiðslu nánast óbreytt til 1950. Hjólið hennar Stínu er með handskiptingu hægra megin og handkúplingu vinstra megin á stýri, svo það hefur hugsanlega þjónað í stríðinu. Ekki er vitað um afdrif hjólsins eftir að Stína átti það.

Categories
Uncategorized

Ásinn frá 1959

Elsta lögregluhjólið á Íslandi er þetta Harley-Davidson FL frá 1959.

Árið 1958 urðu þáttaskil hjá Harley-Davidson með tilkomu afturfjöðrunar í stóru hjólunum. Vökvafyllt framfjöðrun hafði komið á markað 1949 og fékk fljótlega nafnið Hydra-Glide og því lá beint við að nýju hjólin fengu nafnviðbótina Duo-Glide. Elsta íslenska lögregluhjólið er einmitt slíkt hjól af 1959 árgerðinni. Í hjólinu er 50 hestafla Panhead mótor sem tók við af Knucklehead mótornum árið 1948. Hjólið er með svokölluðu „kickstarti“ en rafstart kom ekki í Harley-Davidson hjólum fyrr en 1965 og fengu þau heitið Electra-Glide.

Frá heimsókn Ólafs Noregskonungs árið 1961 en þar stýrði Sigurður Emil Ágústsson viðhafnarkeyrslu.

Þetta eintak er geymt á mótorhjólasafninu á Akureyri og er upprunalegt með öllu sem er frekar fágætt. Það er meira að segja með upprunalega gráa litnum sem aðeins var notaður á lögregluhjól Harley-Davidson á þessum tíma. Hjólið er búið sírenu á frambrettinu, slökkvitæki undir sætinu ásamt upprunalegri talstöð og lögregluljósum. Það eina sem vantar á hjólið er startsveifin sem tekin var af þegar hjólið var sett í geymslu á lögreglustöðinni á Hverfisgötu. Áður hafði það verið í geymslu á Korpúlfsstöðum við slæman aðbúnað en nokkrir framsýnir lögreglumenn björguðu því þaðan ásamt öðrum gripum. Reyndar er einnig til leyfar af eldra lögregluhjóli frá 1955 sem er óuppgert og í kössum, en vonandi fáum við tækifæri til að fjalla um það síðar.