Categories
Uncategorized

Mótorhjól Landssímans

Fyrstu hugmyndir um póstburð á mótorhjólum birtust í Íslending árið 1916, en þar segir: „Þá gæti einn maður í bifreið (eða á mótorhjóli með tveimur sætum) flutt póst um alt Faxa- flóaláglendið á einum degi.” Ekki varð af þeim áformum strax og póstburður á mótorhjólum var ekki stundaður hér fyrr en af hermönnum Breta í seinni heimsstyrjöldinni. Fyrstu heimildir um mótorhjól í eigu Landssíma Íslands munu verða þær að það voru allavega tvö BSA af 1948 árgerð skráð á Landsímann. Báru þau númerin R-1131 og R-1136. Voru þau notuð til að flýta fyrir skeytasendingum í Reykjavík. Sérstakir póstsendlar voru þá við störf og unnu nokkrir þeirra á bifhjólum að fara með símskeyti út um allan bæ.

Samkvæmt Bílabókinni frá 1956 er R-1131 skráð á Landssíma Íslands sem BSA 1948 mótorhjól. Einnig var R-1136 þar skráð sem BSA mótorhjól af sömu árgerð í eigu Landssímans. R-1136 var síðast skráð á Matchless hjól árið 1947 en það var flutt til Danmerkur sama ár svo að 1948 árgerðin getur vel staðist. Hugsanlega er annað hjólið til hérna ennþá samkvæmt skráningarupplýsingum.

Næstu mótorhjól Landssímans virðast hafa verið keypt árið 1951 en þá eru þrjú slík skráð á Landssíma Íslands með númerin R-1114, R-118 og R-1124. Vélarnúmer R-1114 er ekki skráð en R-1118 var með vélarnúmerið 9001NA og flutt inn 9. ágúst 1951 nýtt frá Englandi. Triumph mótorhjól með vélarnúmer 101NA til 15808NA eru öll af 1951 árgerð og þá annað hvort 500 eða 650 rúmsentimetra. R-1124 var með vélarnúmerið 9225NA svo það hefur einnig verið 1951 árgerð. Þegar farið er að skoða nákvæmlega hvernig Triumph 1951 út frá myndum sem til eru af gripunum kemur í ljós að um svokallað 6T Blackbird mótorhjól er að ræða, en þau áttu aðeins að fara á Ameríkumarkað. Eru þau auðþekkjanleg á svörtum litnum, með svörtum framdempurum.

Þrír póstmenn á Triumph mótorhjólum af 1951 árgerð, en myndin er líklega tekin þegar hjólin komu hingað ný árið 1951. Frá vinstri Magnús Björnsson, Ólafur Jónsson og Magnús Benjamínsson. Mynd © Gunnlaugur Emilsson.

Triumph mótorhjólið R-1124 er skráð á Landsíma Íslands árið 1951 og er í eigu fyrirtækisins til 1958 er það er sett á númerið R-3524. Það er skráð 1959 á Ritsíma Íslands í Landssímahúsinu og árið 1961 er það skráð á Egil Óskarsson, Nesvegi 12. Baldur Bjarnason, Nökkvavogi 36 er skráður fyrir því árið 1962 og Jens B. Guðmundsson, Bústaðahverfi 8 er skráður fyrir því 1964-66 er það er lagt niður sem ónýtt.

Magnús Benjamínsson frá Stóra-Knarranesi Vatnsleysiströnd. Skeytaþjónustumaður Landssímans uppúr 1940. R-1118 var í eigu Landssímans frá 1951 þegar það kemur nýtt, til ársins 1956 svo myndin er tekin einhverstaðar á því tímabili.

Póstur og Sími mun hafa notað vespur en þann 26 september 1962 birtist frétt í blaðinu Mynd um stuld á Vespu frá Pósti og Síma. Þar eru þeir sem hafa orðið gráu vespunnar R-3922 varir síðan um helgi, að láta rannsóknarlögregluna vita. Landssíminn fékk sér svo aftur ný BSA mótorhjól af 1954 og 1955 árgerð, sem báru númerin R-3917 og R-3946. R-3917 var með vélarnúmerið BM 21-3355. M-21 var með 600 rsm síðuventlamótor. Þau voru upphaflega notuð í stríðinu en framleiðsla á M-21 stóð alveg til 1958. R-3917 var einnig selt Agli Óskarssyni, Nesvegi 12 þann 21. nóvember 1961 en ekki er vitað hvað af því varð eftir það. R-3946 var selt Júlíusi Ingvarssyni, Fossvogsbletti 30 þann 13. maí 1964.

Árið 1961 birstist í öllum blöðum þessi auglýsing í byrjun nóvember. Þarna er Landssíminn að auglýsa öll mótorhjól sín á einu bretti.

Loks eru nokkur BSA mótorhjól og 3 stykki Vespur auglýst í fjölmiðlum til sölu nokkrum sinnum í apríl 1964 en notkun mótorhjóla við póstburð og skeytasendingar virðist því hætta um miðjan sjöunda áratuginn. Kannski hafði þessi frétt sem birtist þann 4. Janúar 1964 í dagblaðinu Vísi sín áhrif:

“Stolna mótorhjólið fannst í porti lögreglunnar”

Geysiumfangsmikil leit var gerð fyrir nokkru að mótorhjóli í ríkiseign, nánar Landssímans. Mótorhjólið hvarf eitt kvöldið og fannst ekki þrátt fyrir leit og greinargóðar lýsingar dagblaðanna á gripnum. Það bar svo við að nýliði í lögreglunni, gæddur þefvísi og eftirtekt hins unga manns, tók eftir mótorhjóli, sem hafði verið lagt upp við skilti í porti lögreglustöðvarinnar sem kvað svo á, að „bannað væri að leggja hjólum í portinu”. Í Ijós kom að þar var mótorhjól Landssímans. Nú kom einnig í ljós að starfsmaður á Landssímastöðinni hafði „rétt skotizt” á nöðrunni i kaffi á veitingahús við hlið lögreglustöðvarinnar, en steingleymt að loknum veitingum að hann hafði komið á reiðskjótanum og kom honum ekki í hug eftir þetta að hann hafði tekið reiðskjótann án fengins leyfis!

Thunderbird 650 mótorhjólin komu fyrst á markað árið 1949 og þau voru kynnt með sérstökum hætti. Á steyptu Montlhéry hringakstursbrautinni í Frakklandi voru þrjú slík látin keyra 800 km með meðalhraðann 150 km á klst. Síðustu hringirnir voru eknir á yfir 160 km hraða og þeim var svo öllum ekið aftur til Coventry í Englandi, sem er um 650 km leið.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *