Categories
Uncategorized

Í-88 aftur komið á götuna Vélhjól á Vestfjörðum II

Í öðrum þætti Vestfjarðarmótorhjólanna fjöllum við um hjól sem margir þekktu en það var Matchless mótorhjól Helga Hartarsonar sem bar númerið Í-88. Helgi Hjartarson átti reyndar þrjú mótorhjól uppúr seinna stríði. Fyrst kom Royal Enfield herhjól líkt og áður hefur verið talað um, því næst Matchless G8L og svo BSA mótorhjól sem enn er til hérlendis óuppgert. Að sögn sonar hans Hjartar Helgasonar þótti honum vænst um Matchless hjólið, sem hann seldi fyrir útborgun í íbúð þegar hann gifti sig. Hjörtur fékk oft að fara með honum rúntinn á því hjóli, og sat lengst af á bensíntankinum á sérstökum púða sem amma hans útbjó. Til er mynd af honum þar sem hann situr í fangi föður síns á BSA hjólinu.

Mynd af Helga Hajrtarsyni á hjólinu við Skálavík, rétt hjá Bolungarvík, en þessi mynd af honum er tekin 1952 meðan hann átti það ennþá.

Einu sinni ákvað hann að fá sér rúnt til Þingeyrar einn síns liðs á Matchless hjólinu. Þegar hann kom uppí Kinn mætti hann Ágústi Leósyni á mótorhjóli. Hann spyr hvert Helgi sé að fara og þegar hann heyrir það segir Ágúst. „Ég er að koma þaðan en ætla að snúa við og koma með þér.“ Þetta sýnir hvað menn höfðu gaman af mótorhjólunum á þessum árum. Helgi var mikill veiðimaður á bæði stöng og byssu. Hann fór allra sinna ferða á hjólinu og oft í veiðiferðir. Stundum fór vinur hans með til rjúpna en þá setti Helgi bakpokann og byssuna framan á sig, en vinurinn hafði sitt á réttum stað. Þannig keyrðu þeir alla leið í Arnarfjörð og víðar. Einu sinni plataði hann vin sinn til að koma með sér í langferð, alla leið suður yfir Snæfellsnes. Þar var unnusta hans í kaupavinnu það sumar. Þegar þeir voru komnir langt suður yfir gömlu Þingmannaheiðina þá yfirtók feimnin kjarkinn, og þeir snéru við.

Í-88 endurreist í allri sinni dýrð, gljáfægt eins og þegar Helgi Hartarson átti það.
Myndir © Tryggvi Þormóðsson.

Þegar við fréttum af því að búið væri að gera upp gripinn hans Helga urðum við að heimsækja eigandann, Guðmund Ásgeirsson, en hann hefur átt hjólið síðan 1963. Hann á annað mótorhjól sem hann hefur gert upp en það er BMW R50 1967 sem að Karl K Cooper átti einu sinni, en það er önnur saga. Við spurðum Guðmund hvernig hjólið komst í hans eigu. „Pabbi minn var vörubílsstjóri í Njarðvík og í einni af ferðum hans inná Stapa sem var þá ruslahaugur, hitti hann á félaga sína sem voru að henda drasli úr bílskúrstiltekt. Þar á meðal var hræið af þessu hjóli.“

Hjólið á meðan þar var ennþá í uppgerð, en hún hefur staðið með hléum síðan 1963.

Að sögn Guðmundar var það eina sem var nothæft úr hjólinu, stellið og hjólnáin og svo botninn úr mótorsnum ásamt gírkassa. „Brettin voru ónýt en það var hægt að nota stögin. Ég lét smíða bretti sem voru völsuð en ég þurfti svo að laga til og hnoða saman“ sagði Guðmundur. „Fljótlega eftir að ég fæ hjólið hjá honum var ég kominn með vél frá Englandi sem ég gat notað toppinn úr. Þá varð maður var við viðmótið hjá Tollinum sem vildi skipta sér af því hvað ég væri að panta þetta sjálfur, og vildi meina að ég ætti að fá þetta í gegnum umboðið.

Matchless G80 hjólin voru framleidd í 20 ár, milli 1946 og 1966 og kom fjöldi þeirra hingað uppúr seinni heimsstyrjöldinni. Flest voru af gerðinni G80L eins og þetta sem þýddi að það var með vökvafjöðrun að framan. Matchless og AJS voru þá komin í eina sæng og deildu nánast eins hjólum, og hét hjólið Model 18 AJS megin. Munurinn á hjólunum fyrir utan merkingu var að að á AJS var magnetan fyrir framan vélina en fyrir aftan á Matchless.

Ég kom svo hjólinu í gang en þegar ég fór í skóla var það sett í geymslu. Það er reyndar skemmtileg saga af því þegar það var komið í gang, en þá kom pabbi að því þar sem það var í gangi. Hann spyr hvort að hann mátti prófa en hann hafði aldrei prófað svona áður. Hann settist á hjólið og ég sýndi honum gírana og þess háttar. Með það rauk hann af stað og endaði í gegnum trégrindverkið í næsta garði.“ Óhætt er að segja að það hafi vel tekist til við uppgerðina hjá Guðmundi sem vonast til að geta prófað hjólið í vor með hækkandi sól.

Myndin er úr Bæjarins Besta frá 1992 en þar var viðtal við Viðar Finnsson, en pabbi hans átti Matchless hjólið um tíma. Myndin kom úr safni Helga eins og nokkrar aðrar myndir. “Þau voru glæsileg saman, Dúddí og mótorhjólið góða, sem var í eigu eiginmanns hennar Helga Hjartarsonar. Sagan segir að á hjólinu hafi aldrei sést ryk, og það var alltaf stífbónað. Myndin var tekin 1947.”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *