Categories
Uncategorized

Ariel hjólin kringum 1930

Ariel hjól Björns við sæluhús á Holtavörðuheiði árið 1930. Það hefur þótt töluverða áræðni til að leggja í mótorhjólaferðalag frá Reykjavík til Norðfjarðar á þessum tíma.

Fyrir skömmu birtist mynd af Ariel mótorhjóli á Holtavörðuheiði árið 1930 á vefnum Sarpur.is og þótti mér númer hjólsins eitthvað kunnuglegt. Reyndist það vera NK-6 sem til eru allavega þrjár aðrar myndir af. Fyrsti eigandi þess var Björn Björnsson en hann keypti það nýtt 1920. Í bókinni Saga Norðfjarðar er sagt að það hafi verið hinn glæsilegasti gripur og að Björn hafi átt það í nokkurn tíma. Mun hann hafa selt Sigurði Lúðvíkssyni það, en til er mynd af Sigurði á hjólinu sem birt var í bókinni. Til er mynd af því tekin seint á fjórða áratugnum þar sem hjólið er orðið eitthvað sjúskað eftir óhapp. Þar sitja á því Georg Lúðvíksson og Leó Eggertsson. Hjólið er svo komið á skrá í Reykjavík árið 1941 með númerið R-1161. Sá sem er skráður fyrir því til 1942 er Bjarni Guðjónsson, Framnesvegi 5. Eftir það hverfur hjólið sjónum okkar.

Myndin af Georg og Leó er til á Þjóðminjasafni Íslands eins og reyndar allar myndirnar sem til eru af þessu hjóli.

Ariel Model A eins og það var kallað kemur fram á sjónarsviðið í lok árs 1925. Hjólið var hannað af hinum fræga Val Page og vakti nýja hjólið athygli fyrir sportlegt útlit. Þetta hjól átti ekki síst þátt í því að sala á Ariel mótorhjólum tífaldaðist á nokkrum árum en talsvert kom að þessum hjólum hingað til lands gegnum Garðar Gíslason heildsala sem var með umboðið fyrir þau. 557 hjólið var með 550 rsm síðuventla vél sem skilaði 14 hestöflum. Margar nýjungar voru á hjólinu eins og að tankurinn var nú kominn yfir grindina eins og við þekkjum í dag. Komin var endurhönnuð framfjöðrum og grind ásamt því að kveikjan var nú komin aftur fyrir vélina.

NK-6 var með vélarnúmerið K-6485 sem þýðir að um síðuventla Ariel 557 er að ræða. Hjól Björns var fullbúið, með raflýsingu og hnakk fyrir farþega.

Árið 1929 voru aðeins 4 Ariel hjól skráð á landinu öllu. Eitt þeirra hefur verið hjól Björns sem er síðuventla hjól en eitt þeirra hefur verið toppventla hjól en það er A-77 hjól Jón G. Guðmanns kaupmanns. Hann eignast hjólið í júní 1929 og selur það Þorsteini Benediktssyni frá Litla-Garði vorið 1933, og fær hjólið þá númerið A-215. Til er saga sem birtist í Verkamanninum 20. Júlí 1929 um ferð sem að Jón og félagi hans fóru til Sauðárkróks, en Guðmann var umboðsaðili Ariel bifhjóla fyrir norðan. „Nýlega fóru þeir Jón G. Guðmann kaupmaður og Þórður Jóhannesson smiður til Sauðárkróks á sínu Ariel-bifhjólinu hver. Hafði Guðmann frúna með í körfu. Á vesturleið hrefti ferðafólkið rigningu og norðanstorm. Voru vegir því slæmir á fjöllum uppi. En hjólin reyndust vel og gekk ferðin ágætlega.“

Unnar Þorsteinn Bjartmarsson á Ariel 1929 sem reyndar er með mótor úr Royal Enfield. Upplýsingar á grind og gírkassa hjólsins benda til þess að upphaflega hafi verið toppventla mótor í hjólinu svo mjög líklegt er hér um A-77 Ariel hjólið að ræða.
Þorsteinn Benediksson á Ariel VF31 500cc árgerð 1929 með vélarnúmerið 8256. Þorsteinn kaupir hjólið 5. desember 1933 en það fær seinna númerið A-215.
Í þessari auglýsingu frá Garðari Gíslasyni umboðsmanni Ariel mótorhjóla á Íslandi má sjá slagorðin sem að Victor Mole, sölustjóri Ariel bar ábyrgð á, „Ariel, the Modern Motor Cycle.“
Myndin af Sigurði Lúðvíkssyni á NK-6 er líklega tekin snemma á fjórða áratugnum. Myndin er í bókinni Saga Norðfjarðar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *