Categories
Uncategorized

Mótorhjóladagbækur Jóns frá Helluvaði

Jón Sigurgeirsson frá Helluvaði við Royal Enfield Bullet mótorhjólið sem hann hélt uppá.

Stundum rekur á fjörur manns fjársjóður eins og ljósmyndir og dagbækur þessa manns, Jóns Sigurgeirssonar frá Helluvaði í Mývatnssveit sem dóttir hans, Herdís Anna Jónsdóttir var svo elskuleg að senda mér eftir að hafa lesið grein í Bændablaðinu. Jón átti aðeins mótorhjól frá 1934 – 1950 áður en hann eignaðist bíl og flakkaði víða um landið og hálendi þess á reiðskjótum sínum. Hann hélt einstakar dagbækur um ferðir sínar sem eru frábær lesning. Hér er ferðasaga af honum á Royal Enfield Bullet 500 mótorhjóli frá 1939 sem hann var mjög hrifin af.

Bullet gerð Róyal Enfield kom fyrst fram 1931 og var toppventla, 250, 350 og 500 rsm hjól með hærri þjöppu og álheddum. Hjól Jóns var 500 rsm tveggja porta og hefur því verið öflugt hjól eða um 34 hestöfl.

Mótorhjólaferðalag með Árna frænda

Vorið 1943 heppnaðist mér að eignast traust og nýlegt mótorhjól “Royal Enfield” til kaups. Í næstum tíu ár hafði ég átt ýmsar tegundir hjóla sem voru mestu gallagripir sökum aldurs og slits. Ég ók þó einu þeirra vítt um Austurland, fór gömlu póstleiðina yfir Mývatnsöræfi og ferjaði það á bátskænu yfir Jökulsá hjá Grímsstöðum á Fjöllum. Af þremur gírum sem áttu að vera á hjólinu, vantaði miðgírinn, svo annað hvort fór það lúshægt, ellegar þá eins hratt og hægt var. Bensín kostaði þá 40 aura lítirinn sem nægði til að aka allt að 30 km vegalengd á góðum vegi.

Þegar þetta gljákrómaða nýtískulega mótorhjól, kom inní myndina ásamt fleiri vikna sumarfríi á kaupi varð mér á, að gera áætlanir um langar ferðir eitthvað út í buskann. Ég var þá fluttur til Akureyrar og var í starfi þar, en brá mér sífellt í frístundum uppá Helluvað um sumartímann að hjálpa til við heyskapinn. Gísli mágur minn stóð í fjárhúsbyggingu þetta sumar og sonur hans Árni, 17 ára vann að byggingunni. Hann hafði alist upp með mér á Helluvaði frá blautu barnsbeini og við frændurnir höfðum verið mjög samrýndir í leik og starfi. Hann fékk leyfi foreldra sinna til að fara í nokkurra daga ferðalag með mér á mótorhjólinu góða, heimsækja ömmu sína í Reykjavík og föðursystur sem mundu taka vel á móti okkur eins og á daginn kom.

Árni fékk far inneftir til mín í Aðalstræti 50 þar sem ég leigði hjá Páli frá Klömbrum og hafði ég allt tilbúið til ferðar, tjald, hitunartæki og nesti ef grípa þyrfti til.

Það hafði vorað seint og vegna hlýrrar sunnanáttar var vöxtur í ám og lækjum, þótt komin væru mánaðarmót júní og júlí, og var mér kunnugt um að vötn flæddu yfir vegi og að ræsi væru biluð. Vitað er að seinnipart nætur setur niður í leysingavötnum þannig að ég afréð að hefja ferðina með því að tjalda á grasbletti ofan við kartöflugarðinn í Aðalstræti 50 og sofa seinnipart dags og fram á nótt. Um óttuskeið, þann annan júlí skriðum við því upp úr pokum okkar, tókum saman ferðadótið, festum það á okkur og utan á hjólið og meðan bæjarbúar sváfu svefni hinna réttlátu rufum við hljóðmúrinn með mótorskellum svo undir tók í mannlausum strætum bæjarins. Nýr dagur var að renna upp yfir Vaðlaheiði með sunnablæ og vor í lofti. Seyrur og grafningar töfðu ferð okkar. Gloppuá í Öxnadal var í foráttu vexti og urðum við að leita eftir færu vaði niður á eyrum þar sem hún dreyfði sér. Upp hina illræmdu Bakkaselsbrekku skilaði hjólið okkur auðveldlega og í Giljareitum ómaði allt af vatnanið. Á grasbala í Silfrastaðafjlalli áðum við um stund, réttum úr stirðum hnjám og fengum okkur bita. Skuggar nærurhúmsins hurfu og morgunsólin gylltu vesturfjöllin og Mælifellshnjúk.

Ekkert lífsmark var að sjá í Blönduhlíð eða Vallhólma utan hópa vesældlegra útigönguhesta í vegköntum sem stukku frá okkur í ofboði er yfir dundu skellirnir í mótorhjólinu. Árna var umhverfið algerlega óþekkt, en ég hafði tíu árum áður gengið þjóðleiðina úr Borgarnesi í Helluvað, og gat því uppfrætt Árna nokkuð um hvaðeina, sem fyrir augu bar. Vörðurinn við Héraðsvatnabrúna var sjáanlega lítt hrifinn að vera rifinn upp úr fasta svefni um hánótt til að opna brúargrindina fyrir tveimur umrenningum.

Minnismerki Stephans G. á Arnarstapa skoðuðum við í krók og kring og vandfundinn mun betri sjónarhóll, víðara útsýni og fegurra, en þar gefur að líta, þegar morgunsólin fóðrar gulli fjöllin og byggðina.

Á Æsustöðu í Langadal bjó séra Gunnar, föðurbróðir Árna og áttum við þar alla fyrirgreiðslu vísa, en þegar okkur bar að garði, var klukkan bara að ganga sjö og heimilisfólk því í fastasvefni. Við vorum tveimur tímum á undan áætlun. Aldrei finnst mér ósiðlegra að vekja upp á bæjum, en svona snemma morguns. Við lögðum okkur því við vallargarðinn og drógum yfir okkur úlpur til að verjast sólarhitanum og sváfum til kl 10. Maður heyrði lífið færast í dalinn, hanar göluðu, hundar geltu og það og það brakaði í kýrklaufum er Æsustaðarkýrnar voru reknar fram hjá okkur í haga. Eftir að hafa svkett framan í okkur köldu vatni úr uppsprettulind og þurkkað stírur úr augum, gengum við á fund prests og konu hans Sigríðar frá Auðkúlu og fegnum hlýjar viðtökur. Átalið var þó, að hafa ekki vakið upp, en það létum við Árni ekki á okkur fá. Við sátum fram eftir degi í gleðskap og fagnaði en kl 2 kvöddum við á prestsetrinu og héldum okkar strik að Blönduósi hvar við bættum fimm lítrum af bensíni á hjólið. Ég spurðist fyrir um Björn Bergmann sem verið hafði kennari Árna og var trúfastur vinur minn og Mývetninga. Var hann sagður vera á Stóru-Giljá og þar tók hann á móti okkur af hjartans gleði. Drukkum við með honum kaffi og þar á eftir sýndi hann okkur mikla rafstöð í gilinu sem bærin dregur nafn af.  Síðan var haldið vestur sveitir á 70 km hraða eða meir, þar til við komum að sjoppu sem hét Norðurbraut, en er nú löngu aflögð. Þar fegnum við okkur límonaði og kex.

Royal Enfield mótorhjólið fyrir utan áningarstaðinn Norðurbraut.

Allt hafði gengið í sögu fyrir okkur, þar til við komum í Hrútafjörðinn, en þá sprakk afturhjólaslangan og olli það umstang, að rífa í sundur og líma, tveggja klukkustunda stoppi. Hjá Sveinatungu réttum við úr stirðum hnjám, lögðumst út á grasflöt og átum harðfisk en héldum svo fram hjá Grábrók og niður í Svignaskarð. Þar fékk ég bensín og leiðsögn í Reykholt. Þangað náðum við fyrir háttatíma og vorum því fegnir að koma til vinafólks og fá gistingu eftir 18 klst ferðavolk. Aldrei kvartaði Árni, þótt vont væri sæti hans, beinhart og rétt yfir afturhjólinu, en svo vel fylgdi hann eftir öllum hliðarsveiflum hjólisins að ég vissi naumast af því að hafa farþega, en farangurinn var mikill og til óþæginda. Hafði ég troðið bakpoka framan á mér spenntan aftur fyrir axlir og lá hann á bensíntankinum og veitti skjól í rokinu sem löngum er hvimleitt og alltaf í fangið sé nokkuð farið greitt.

Við Þórir skólastjóri í Reykholti áttum sömu ömmu, Sigríði á Helluvaði. Hann fagnaði okkur vel og bauð okkur gistingu. Er hann var smástrákur og í heimsókn hjá ömmu sinni, og átti að fara einn heimí bæ af kvíunum, fór hann í öfuga átt og lenti vestur í Helluvaðsheiði. Það var mesta mildi að hans var strax saknað og farið að leita. Þetta hefði getað skipt sköpum um skólastjórastöðuna og gistingu okkar og vinafagnaðinn í Reykholti.

Nýlega voru þá fundin jarðgöng út í laugina, og undursamlegt var að þreifa sig áfram milli þröngra veggjanna eins og Snorri Sturluson gerði í þessum dimma ranghala er hann fór í bað. Steinlagða vatnsrennu er hægt að sjá frá lauginni og í hverinn Skriflu, að nokkru leiti neðanjarðar. Eftir þessari rennu er vatnið leitt til upphitunar í skólabyggingarnar og nýtur staðurinn enn í dag handverka og hugvits Snorra.

Um miðjan næsta dag slitum við okkur upp frá frændfólkinu í Reykholti og héldum áfram ferðinni, ókum yfir heitan læk hjá Kleppjárnsreykjum og framhjá Varmalæk, og segir ekki af ferð okkar fyrr en við komum að Hvanneyri. Þá var komin ausandi rigning. Hímdum við þar um tíma undir húsvegg í skjóli fyrir vind og regni. Strákar óku mykju á tún í fjórhjóluðum vögnum. Sátu þeir á fjöl ofan á mykjuhlassinu, í regngalla með sjóhatta, og sungu við raust. Við gengum kringum skólabyggingarnar. Hafði ég gaman af því vegna þess að Jónas bróðir minn var hér tvo vetur í skóla, þegar ég var 10 og 11 ára. Var mér á þeim árum oft hugsað til þessa fjarlæga staðar, og á bréfunum sem við fengum stóð ávallt nafni stóra, Hvanneyri, efst á blaði. Nú fossaði vatn úr hverri þakrennu og enginn maður sást á ferli utan strákarnir á mykjuvögnunum.

Áfram var haldið í fossandi regni. Ég varð að hafa annað augað lokað og láta mér nægja að grilla til hálfs með hinu þar til mig fór að svíða en þá skipti ég um auga. Regndroparnir líktust sandkornum, að fá þá í andlitið, þegar hratt er ekið. Í Melaaveitinni, sem okkur virtist alveg óendanleg, gengu vatnsgusurnar upp að hnjám. Hvalfjarðarleið var okkur lokuð vegna hermanna sem réðu þar lögum og lofum, svo við stefndum á að fara á skipi frá Akranesi, og er þangað kom fórum við beint á hótel og fegnum okkur kaffi, til að taka úr okkur hrollinn og biðum skipsferðar.

Það stytti upp og gerði besta veður. Við ókum því þvers og langs um Skipatanga til að sjá okkur um og eyða tímanum, fórum svo aftur á hótelið og fengum okkur að borða. Loks kom Suðurlandið að bryggju og allir tróðust um borð og við Árni með hjólið. Hann fór sína fyrstu sjóferð og stóðst hana vel. Skipið lagðist við Grandagarðinn, þar sem fjöldi fólks beið á bryggjunni. Það var víst til siðs í Reykjavík að fjölmenna við hverja skipskomu, líklega af tómri forvitni. Við fórum ekki varhluta af henni, vorum grandskoðaðir en hjólið rauk í gang og við forðuðum okkur úr mannþrönginni og ókum að Sólvallagötu 29 þar sem okkur var fagnað sem við værum af himni sendir. Það var dáðst af því hvað við værum á fallegu mótorhjóli og það var látið standa í innganginum við dyrnar. Hjónin, Kristinn Ármannsson og Þóra höfðu oft dvalið á Helluvaði með börnin á sumrin og nutum við þess, fegnum jafnvel sérherbergi og þjónustu alla eins góða og hægt var að veita okkur.

Við gerum hér hlé á ferðasögu Jóns og Árna, en eftir komuna til Reykjavíkur gerðu þeir sér ferð um Suðurlandið á mótorhjólinu, áður en þeir fóru aftur norður. Verður þeirri sögu gerð skil hér á næstu vikum.

Categories
Uncategorized

Vélhjól á Vestfjörðum – 1

Mikill mótorhjólaáhugi virðist hafa verið á Ísafirði og nágrenni um og uppúr seinni heimsstyrjöldinni. Talsvert kom af Royal Enfield herhjólum upp úr lokum heimsstyrjaldarinnar, en þau voru seld í kippum eftir stríð því það var svo mikið til af þeim, og fengust þannig mjög ódýrt.

Svona var staðan í stríðslok, ofgnótt af mótorhjólum sem seld voru í kippum ódýrt.

Eflaust hafa einhverjir freistast til að kaupa slík hjól þannig eins og Ingvar Jónasson, Andrés Gunnarsson, Snorri Júlíusson, Sverrir Elíasson, Pétur Þórarinsson, Sverrir Guðmundsson, Hermann Sigurðsson, Gísli Sigurðsson, Elí Ágúst Ingibjartsson og Hafsteinn Hannesson sem allir áttu Royal Enfield. Báru þau númerin Í-86, Í-121-124 og Í-127-131. Til eru fjögur vélarnúmer af slíkum hjólum á skrá, en þau eru frá 19225-19510 sem þýðir að um sérstakar útgáfur fyrir breska flugherinn var að ræða, eins og passar vel við myndir sem til eru af nokkrum þeirra. Royal Enfield herhjólin voru framleidd í tugum þúsunda eintaka en aðeins voru gerð 2.826 eintök fyrir flugherinn sem gerir þau að sjaldgæfum gripum. Þau hafa verið dökkblá að lit til að aðgreina þau.

Royal-Enfield herhjólin sem hingað komu voru flest hver WD/CO og voru með toppventlamótor en þannig komu þau 1942 fyrst. Alls voru 29.037 WD/CO framleidd frá 1942-44 og voru 2.826 fyrir breska flugherinn. Komu þau þá mörg hver í þessum bláa lit í stað græna.

Helgi Hjartarson átti þrjú mótorhjól uppúr seinna stríði. Fyrst kom Royal Enfield herhjól líkt og hér er talað um, því næst Machless G8L og svo BSA mótorhjól sem enn er til hérlendis. Að sögn sonar hans Hjartar Helgasonar þótti honum vænst um Matchless hjólið, sem hann seldi fyrir útborgun í íbúð þegar hann gifti sig. Hjörtur fékk oft að fara með honum rúntinn á því hjóli, og sat lengst af á bensíntankinum á sérstökum púða sem amma hans útbjó. Til er mynd af honum þar sem hann situr í fangi föður síns á BSA hjólinu.

Helgi með Hjört í fanginu á BSA hjólinu sem hann hefur átt í kringum 1950.

BSA hjólið hans mun hafa komið seinna en það var keypt bilað. Hann dundaði sér lengi við að gera við það en gekk illa með magnetuna. Rafverkstæði sögðu að hún væri ónýt og ekki hægt að fá varahluti. Hann fór þó með hana heim aftur og reif í sundur stykki fyrir stykki. Síðan horfði hann á hvern hlut til að reyna að sjá ágalla. Það eina sem hann fann var að fíberskinna var með sprungu í, svo hann náði sér í lím og makaði yfir sprunguna. Það þornaði yfir nótt og var svo slípað og sett saman. Hjólið rauk í gang eftir viðgerðina og gekk í mörg ár á eftir. Átti hann BSA hjólið í allavega 10 ár.

Helgi Hjartarson á Matchless G8L hjóli sínu en hingað komu um 50 slík á árunum 1946-7.

Einu sinni ákvað hann að fá sér rúnt til Þingeyrar einn síns liðs á Matchless hjólinu. Þegar hann kom uppí Kinn mætti hann Ágústi Leósyni á mótorhjóli. Hann spyr hvert Helgi sé að fara og þegar hann heyrir það segir Ágúst. „Ég er að koma þaðan en ætla að snúa við og koma með þér.“ Þetta sýnir hvað menn höfðu gaman af mótorhjólunum á þessum árum. Helgi var mikill veiðimaður á bæði stöng og byssu. Hann fór allra sinna ferða á hjólinu og oft í veiðiferðir. Stundum fór vinur hans með til rjúpna en þá setti Helgi bakpokann og byssuna framan á sig, en vinurinn hafði sitt á réttum stað. Þannig keyrðu þeir alla leið í Arnarfjörð og víðar. Einu sinni plataði hann vin sinn til að koma með sér í langferð, alla leið suður yfir Snæfellsnes. Þar var unnusta hans í kaupavinnu það sumar. Þegar þeir voru komnir langt suður yfir gömlu Þingmannaheiðina þá yfirtók feimnin kjarkinn, og þeir snéru við.

Mikið efni hefur komið úr yfirferð minni um mótorhjólaáhuga á Vestfjörðum og því mun ég birta efnið í nokkrum hlutum. Er næsta kafla að vænta á allra næstu vikum.

Categories
Uncategorized

Einstakt Zenith með JAP mótor

Magnús Sverrisson á X-99 en myndin er líklega tekin á stríðsárunum.

Fyrstu skrif mín um fornhjól á Íslandi voru í félagsritinu Sniglafréttir í kringum 1993. Þar sendi fólk inn myndir mánaðarlega og ein af myndum mánaðarins var af þessu Zenith. Þau voru bresk, framleidd á árunum 1904-1950, en hjólið á myndinni er u.þ.b. 1930-32 árgerð. Maðurinn sem situr það og jafnframt þáverandi eigandi þess er Magnús Sverrisson, fæddur 1918 og átti hann hjólið í eitt ár. Myndin er tekin fyrir austan fjall.

Íslenska hjólið var að öllum líkindum svona B2 módel “Twin port.”

Þetta Zenith var með vélarnúmerið 48.518 og er hestaflatalan 4 skráð í skoðunarbók. Fyrsta skráningin á þessu hjóli er frá 1933 og er hjólið sagt komið notað frá Hamborg. Er það skráð á Ágúst Jónsson, Njálsgötu 35 með númerið RE-426 alveg til 1937.

Frá 1. Júlí 1938 en þá er Jón Ólafsson frá Álafossi skráður fyrir því en þá er það fært á R-426. Það er selt Gunnar Sveinssyni, einnig frá Álafossi 30. Maí 1939. Gunnar er einnig skráður fyrir því 1940 en það sé komið með númerið G-212. Óskar Guðlaugsson í Hafnarfirði er svo skráður fyrir því 1941 en 1. Júlí sama ár er það selt Þórði Jónssyni frá Forsæti í Árnessýslu. Ári seinna er það komið á númerið X-99 svo myndin af Magnúsi er tekin eftir það.

Það er sagt að það sé ennþá til í júlí 1943, en í skráningabók frá 1943 og í Bílabókinni frá 1945 er hjólið skráð á Pétur Sumarliðason frá Eyrarbakka. Eftir það finn ég ekkert um það. Líklega er þetta eina Zenith hjólið sem nokkru sinni kom til landsins.

Zenith notaði alltaf JAP vélar með fáeinum undantekningum enda er JAP 348 rsm toppventlamótor í þessu. Á þessum tíma var hægt að fá allt að 1100 cc. Zenith V2. Árið 1931 voru öll Zenith model sem í boði voru með JAP mótorum. Árið 1930 setti Joe Wright heimshraðamet á Zenith hjóli með JAP mótor þegar hann náði 240 km hraða á slíku hjóli. Það hjól var var með 998 rsm motor með keflablásara. Þrátt fyrir gott gengi á millistríðsárunum fékk Zenith engan hernaðarsamning þegar kom að heimsstyrjöldinni og reyndist það banabiti merkisins, því engine hjól voru smíðuð á þeim árum. Reynt var að taka upp þráðinn eftir stríð með síðuventla V2 hjólum, en vegan þess hve erfitt var að fá mótora hætti framleiðsla hjólanna 1950.

Categories
Uncategorized

Eina íslenska Thor mótorhjólið

Thor 61 kúbiktommu mótorhjól í sama lit og Thor hjól Kristins, en því miður hafa engar myndir varðveist af því og er hér með auglýst eftir slíku.

Til eru heimildir um að eitt stykki Thor mótorhjól hafi verið til á Íslandi kringum 1920. Samkvæmt elstu skráningarupplýsingum frá Reykjavík er Thor mótorhjól skrásett 15. maí 1919 á nafn Kristins Einarssonar, og fær það númerið RE-110. Varðveist hefur reikningur frá 24. maí 1919 sem sýnir að Jóhann Ólafsson & Co selur fyrirtækinu K. Einarsson & Björnsson hjólið. Samkvæmt Rudolf Kr. Kristinssyni, syni Kristins Einarssonar á faðir hans hjólið til 1923 þegar hann kaupir sér nýjan Buick, einnig af Jóhann Ólafsson & Co. Hugsanlega hefur hann sett hjólið uppí kaupin á bílnum þótt engar heimildir séu til um það. Allavega eru engar frekari heimildir um hjólið svo líklega hefur það farið aftur erlendis eins og algengt var á þessum tíma. Að sögn Rudolfs var hliðarvagn á hjólinu og notaði Hjalti Björnsson, viðskiptafélagi Kristins hjólið mikið, en hann var seinna þekktur fyrir innflutning á Willys bifreiðum.

Reikningurinn sýnir aðeins að um eitt stykki 18 U mótorhjól er að ræða en samkvæmt elstu skráningarupplýsingum er Kristinn EInarsson skráður fyrir Thor mótorhjóli.

Á reikningnum kemur fram að um 18 hestafla hjól er að ræða í litnum Olive drab. Það passar við 1.250 rsm (76,25 kúbiktommu) U-hjólið sem kom 1918-19. Thor merkið kemur uppúr Aurora sem framleiddi meðal annars vélar í fyrstu Indian Camelback mótorhjólin. Thor U módeiið kom á markað 1912 en árið 1914 var það komið í 1.250 kúbik og var útbúið þriggja gíra kassa. Hjólið var talið öflugt með sín 16 hestöfl og gat náð 90 km hraða. Thor Model U varð til dæmis í öðru sæti í Dodge City 300 árið 1914 sem var helsta mótorhjólakeppnin vestanhafs á þessum tíma. Thor Model U mótorhjól átti bestan tíma á 5 og 50 mílna moldarbrautum árið 1913 og var því markaðssett sem kraftmesta mótorhjól síns tíma. Thor merkið er með eldingu efst sem á að vera elding þrumuguðsins Þórs. Thor hætti framleiðslu mótorhjóla árið 1919 svo að íslenska Thor mótorhjólið hefur verið eitt af þeim síðustu sem framleidd voru.

Categories
Uncategorized

Mynd af fágætu Raleigh

Á dögunum var birt mynd á facebook síðunni Gamlar ljósmyndir af tveimur herramönnum á faratækjum sínum. Annar þeirra situr í bíl en sá fremri situr uppábúinn með hanska og hatt og sígarettu í munninum, á greinilega talsvert gömlu mótorhjóli. Alltaf þegar ég fæ svona myndir í hendurnar get ég ekki á mér setið að finna betur út úr því hver sé á hjólinu og hverrar gerðar það er.

Viggó Bjerg situr hér Raleigh Model 17 frá 1926-7 en ekki er vitað hver situr í bílnum.
© Guðrún Einarsdóttir.

Fyrsta verkið var að sjálfsögðu að fletta upp í skráningarupplýsingum, en þar kom fram að hjólið var af Raleigh gerð, og var það í eigu Óskars Guðnasonar 1928-29 og Viggó Bjerg árið 1930. Ég sendi nöfnin á konuna sem birti myndina og kannaðist hún strax við Viggó sem tengdist afa hennar. Myndin er því líklega tekin 1930 eða fljótlega eftir það. Einu upplýsingarnar um gerð Raleigh hjólsins var svokallað vélarnúmer hjólsins, en það var 2651 sem sagði ekki mikið. Þrátt fyrir að leggjast yfir myndir af Raleigh hjólum frá þessum tíma var eingin greinileg samlíking. Það hitti reyndar svo vel á að ég hafði nýlega sent skráningarupplýsingar um vélarnúmer Raleigh hjóla á Íslandi, á aðila hjá eigendaklúbbi í Bretlandi sem var að safna vélarnúmerum af slíku hjólum, en talsvert var um Raleigh hjól á Íslandi á millistríðsárunum. Ég sendi myndina á viðkomandi sem svaraði mér um hæl að hér vaæri um sjaldgæfa gerð að ræða frá þessum framleiðanda.

Úr bæklingi um Raleigh Model 17 mótorhjól sem Greg Wood frá Kentucky hefur skannað og sett inná veraldarvefinn.

Mótorhjólið á myndinni er Raleigh Model 17 sem aðeins var framleitt 1926-27. Það var með 174 rúmsentimetra síðuventla mótor en það sem var óvenjulegt við hjólið var að það var með sambyggðan gírkassa. Flest hjól á þessum tíma voru með gírkassann sér og tengdist hann vélinni með reim eða keðjudrifi, en hér var allt í sömu blokkinni. Einnig var svinghjólið innbyggt en ekki utanáliggjandi eins og algengt var á þessum tíma.

Categories
Uncategorized

Fyrsta Ducati hjólið hér

Þetta Ducati 48 hjól lagði grunninn að 98 og 125 rsm hjólum Ducati sem aftur lögðu grunninn að því sem Ducati er í dag.

Við skoðun á gömlum skráningarupplýsingum fyrir skellinöðrur rakst ég á þá skemmtilegu staðreynd að fyrsta Ducati hjólið kom hingað árið 1958 og var af sjaldgæfri tegund frá 1953, en fyrsta slíka hjólið var framleitt árið 1952. Hjólið kom frá Sölunefnd varnarliðseigna og hefur því líkast til komið upphaflega frá Bandaríkjunum. Hjólið er fyrst í eigu Sigurðar Helgasonar, Miklubraut 3 en Ásgeir Eiríksson, meðlimur í Eldingu nr. 87 átti hjólið 1959-61. Það fer svo í eigu Guðbjarts Bjarnasonar, Þjórsárgötu 11 sumarið 1961 en ekki er vitað um það síðan.

Skráningarblaðið fyrir fyrsta Ducati hjólið á Íslandi sýnir að það bar númerið R-791 en það númer er nú á Volkswagen Bora.

Hjólið hefur þótt fullkomið á sinni tíð með fjórgengismótor, blautkúplingu og þriggja gíra kassa. Grindin var úr pressuðum stálplötum og hjólið því létt eða aðeins 41 kíló. Að sjálfsögðu voru Pirelli dekk undir hjólinu og hestöflin 1,5 komu hjólinu í 50 km hraða. Ducati var fyrst stofnað 1926 og framleiddi fyrst íhluti í útvörp. Ducati keypti lítinn mótorframleiðanda eftir stríð sem kallaðist Siata sem framleiddi vélar sem kölluðust Cucciolo, en það þýðir hvolpur á ítölsku. Fyrsta hjólið kom 1947 og árið 1950 var búið að selja 200.000 eintök og kom það fótunum undir Ducati merkið.

Categories
Uncategorized

Moto Guzzi lögregluhjólið

Mynd tekin í miðbæ Akureyrar sumarið 1973. Eigandi myndar er Vigfús Sigurðsson.

Á fésbókinni birstist nýlega flott litmynd af Moto Guzzi lögregluhjólinu þegar það var nýtt á Akureyri. Myndin er tekin af Vigfúsi Sigurðssyni og er hjólið í forgrunni en eitthvað umferðaróhapp fyrir aftan. varð myndin til þess að ég heyrði í fyrrum eiganda þess, Ólafi Unnari Jóhannssyni til að forvitnast um sögu hjólsins.

Mynd af hjólinu fyrir utan lögreglustöðina á Akureyri. Mynd: Minjasafnið á Akureyri.

Að sögn Ólafs kemur hjólið nýtt til landsins og er sýnt á sýningu 1973, en lögreglan á Akureyri fékk það svo til prófunar. Á fyrstu dögunum varð óhapp á hjólinu, en það var þannig að löggan var að elta Trabant sem átti að beygja til vinstri, en beygði svo til hægri, og hjólið fór því beint og fór út af. Lögreglan þurftu því að gera við það um veturinn og eiga það áfram. Dóri Sigtryggs eignast það svo sumarið 1982 þegar lögreglan auglýsti hjólið á uppboði hjá Innkaupastofnun Ríkisins.

Svona var hjólið þegar það var komið í eigu Ólafs árið 1984. Mynd: Ólafur Unnar.

Árið 1983 var Ólafur Unnar Jóhannsson búinn að ákveða að hann langaði í mótorhjól og auglýsti eftir slíku. Hann langaði í BMW en Dóru bauð honum Moto Guzzi hjólið til kaups, enda um svipuð hjól að ræða. Dóri hafði breytt hjólinu og sett minna stýri, tvegga manna sæti og auka töskur. Dóri sendi það með skipi til Talknafjarðar en hjólið var rafmagnslaust þegar þangað var komið. Það var því dregið gegnum skaflana af bíl heim til Ólafs. Ólafur sótti svo um við stofnun Sniglanna en flytur svo í bæinn haustið 1984. Hann notaði það þar mikið sumarið 1985, og fór víða um land á hjólinu, fór hringinn, vestfirði, til Vestmannaeyja og fleira. Þá hafði Óli gert það upp að hluta og krómað hluti eins og tank, hlífar, verkfæratösku og fleira. “Einu sinni fórum við meira að segja fjögur á því í sund fyrir vestan, en maður segir náttúrulega ekki frá slíku” sagði Ólafur í samtali við undirritaðann. Svo “fór loks tímagírinn í hjólinu og þá keypti Dóri aftur hjólið 1987” sagði Ólafur ennfremur. Núverandi eigandi er Ólafur Sveinnson á Akureyri.

Moto Guzzi 850 California af 1972 árgerð sem er alveg eins hjól.

Vélin í Commando hjólinu á sér nokkuð sérstaka sögu. Árið 1959 óskaði ítalski herinn eftir þríhjóli frá Moto Guzzi og þá varð til 754 rsm V2 mótor sem skilaði aðeins 20 hestöflum en fullt af togi. Síðar vildi ítalska ríkisstjórnin fá hentug lögreglumótorhjól og þá var þessi viðhaldsfríi mótor dreginn aftur fram og minnkaður aðeins, en skilaði nú 50 hestöflum. Þannig var hjólið kynnt á mótorhjólasýningunni í Mílanó árið 1965 og var líklega fyrsta hjólið með rafstarti án þess að hafa startsveif til vara. Árið 1969 var vélin stækkuð í 757 rsm og með nýjum heddum fór aflið í 60 hestöfl og þá fór hjólið á ameríkumarkað. Tveimur árum seinna var vélin stækkuð í 844 rsm og hjólið fékk nafnið Eldorado, en ferðaútgáfan útbúin töskum og framrúðu fékk nafnið California. Hjólið varð líka vinsælt sem lögregluhjól í samkeppni við Harley-Davidson Electra Glide þar sem það var 100 kílóum léttara en skilaði sama afli. Einnig var styttra á milli hjóla svo það átti auðveldrara með krappar beygjur en Harley hjólin.

Categories
Uncategorized

4ra ventla Rudge 1926 á Akureyri

Myndin er tekin fyrir utan ljósmyndastofu Vigfúsar Sigurgeirssonar á Akuryeri, líklega af honum sjálfum. Myndin er í eigu Minjasafns Akureyrar og er klippt til að sýna hjólið betur.

Í nýlegri heimsókn á Minjasafn Akureyrar rakst ég á merkilega mynd sem sýnir frekar fágætt mótorhjól af Rudge Whitworth gerð. Það er á RE-númeri en myndin er tekin á Akureyri svo líklega hefur það farið í ferðalag norður, en myndin er tekin upp úr 1930. RE-321 er árið 1928 skráð á Ottó Baldvinsson, Bergstaðarstræti 10b. Um Rudge mótorhjól er að ræða með vélarnúmerið 42016. Það þýðir að um merkilegt Rudge Whitworth 500 hjól er hér á ferðinni, 1926 árgerð með fjögurra ventla mótor.

Hér má sjá samskonar hjól af 1927 árgerð en þá var kominn stýrisdempari í hjólið.

Rudge mótorhjólamerkið var stofnað 1910 og var helst þekkt fyrir að þróa 4ra ventla eins strokks mótorhjól. Fyrsta fjögurra ventla hjólið frá þeim kom árið 1924 og var með fjögurra gíra kassa, eins og RE-321. Árið 1928 vann slíkt hjól Ulster Grand Prix og þess vegna komu á markað hin frægu Ulster hjól frá Rudge. Merkið lifði ekki seinni heimsstyrjöldina af og ekki er vitað hvað varð af þessu merkilega hjóli heldur.

Categories
Uncategorized

Mótorhjólagrind á Ísafirði

Það getur verið gaman að finna hluti sem hægt er að tengja við fornar heimildir um mótorhjól. Í heimsókn minni á Ísafjörð kom ég meðal annars við hjá Ralf Trilla sem hafði hengt upp gamla grind af mótorhjóli til skrauts á garðvegg hjá sér. Grindin var nokkuð sérstök lykkjugrind, með breiðum, gamaldags Druid framgaffli svo að hún var örugglega gömul. Eftir nokkuð gúggl seinna um kvöldið komst ég að því að hjólið var örugglega af Gillet Herstal gerð, sem voru belgísk mótorhjól.

Grindin “óþekkta” hangandi uppá garðvegg Ralf Trilla á Ísafirði.

Þar sem ég hef dundað mér alllengi við að setja í tölvuskrá allar skráningar sem ég get fundið um gömul mótorhjól mundi ég eftir að til hefði verið hjól með slíku nafni hérlendis. Þegar ég var kominn aftur suður var það eitt af mínu fyrstu verkum að fletta því upp og viti menn, árið 1945 var Gillet Herstal hjólið Í-59 í eigu Kjartans Stefánssonar á Flateyri. Svo skemmtilega vill til að grindin fannst einmitt í ruslahaug á Flateyri.

Gillet Herstal Sport frá 1929 en grindin er líklega frá 1931 og er alveg eins.

Gillet Herstal hjólin voru talin mjög góð eins og önnur belgísk hjól eins og FN og Sarolea. Framleiðsla þeirra hófst 1919 og náði til 1959 og voru á þriðja áratug tuttugustu aldar vinsæl keppnishjól. Setti René Milhoux meðal annars nokkur hraðamet á slíklu hjóli. Óbreytt Sport hjól var með 500 rsm toppventla mótor sem skilaði 20 hestöflum sem þótti gott. Við vitum að árið 1928 breytti Gillet Herstal grindinni fyrir söðultank svo að hjólið var allavega yngra en það. Hjólið er líklega flutt inn til Reykjavíkur sumarið 1939 og var með vélarnúmerið 35206 og fékk fyrst skráningarnúmerið R-1118 og er sagt 1931 árgerð. Þarna höfum við það, staðfestingu á að allavega eitt Gillet Herstal Sport hafi komið hingað til lands og leyfar af því séu ennþá til.

Ralf Trilla með Gillet Herstal grindina, sem enn skreytir vegginn á garðinum hans.
Categories
Uncategorized

Fleiri gömul BSA

Við myndaleit vegna bókarskrifa hjá Þjóðminjasafni Íslands rakst ég á tvær mjög gamlar myndir af BSA mótorhjólum. Erfitt er að segja hvar þessar myndir eru teknar eða hvaða fólk er á hjólunum en sjá má númer á öðru þeirra. Myndirnar eru líklega teknar snemma á þriðja áratug síðustu aldar og því að verða hundrað ára gamlar.

RE-161 er BSA Model 2 frá 1918 eða þar um bil. Vélarnúmer þess 30676 og hestöfl 4,5.

RE-161 var í eigu Þórðar L Jónssonar, Þingholtsstræti 1 til 8. júní 1920, en þá tilkynnir Þórður að hann hafi selt Lofti Guðmundssyni, verksmiðjueiganda hjólið en hann bjó þá á Miðstræti 4. Tilkynnt er 5. september 1922 að hjólið hafi verið selt í ágúst Magnúsi Oddssyni frá Eyrarbakka. Hann selur að Gunnar Gunnarssyni bifreiðastjóra, Hafnarstræti 8. Hann selur Hinriki Jónssyni Álftanesi en tilkynnt 20. september 1923 að það sé selt Ásgeiri Stefánssyni í Hafnarfirði.
1926 er það komið í eigu Guðmundar Egilssonar í Hafnarfirði og þá með númerið HF-48. Guðmundur er einnig skráður fyrir því 1929 og er það það síðasta sem vitað er um hjólið.

Hér má sjá RE-161 skráð í gamla skoðunarbók sem oft eru einu heimildir um þessi hjól.

Þessi útgáfa BSA Model 2 kom á markað árið 1915 og þótti sérlega hentugt til að bera hliðarvagn. Tvær útgáfur voru af því, Model K sem var með reim sem lokadrifi og Model H sem var með keðju í lokaðri hlíf. Á síðu Yesterdays.nl í Hollandi var til sölu slíkt hjól fyrir nokkru með Canoelet hliðarvagni, svipuðum og á íslenska hjólinu.

Hjólið í Hollandi var í grunninn alveg eins hjól og RE-161 en með aðeins fínni hliðarvagni.