Mótorhjólasafnið í Stubbeköbing

Syðst á Sjálandi, nánar tiltekið strax til vinstri eftir brúnna yfir Farö er staðsett merkilegt mótorhjólasafn í bænum Stubbeköbing. Safnið er tilkomið vegna söfnunar eins manns, Erik Nielsen að nafni sem safnaði mótorhjólum í kringum 1970. Hann ákvað árið 1976 að gefa bænum sínum safnið sem að lagði til hentugt húsnæði og loforð um að það yrðio þar um aldur og ævi. Árið 1983 var safnið stækkað til að bæta við útvarpssafni Benny Ahlburg og má þar meðal annars finna fyrsta hátalarann í heiminum, en það er önnur saga.

Innst á safninu var búið að koma fyrir sýningu á Honda mótorhjólum í tímaröð.

Um 170 mótorhjól er að finna á safninu en auk þeirra á safnið fjölda hjóla sem eru í endurgerð af sjálfboðaliðum, og gerð eru upp á öðrum stað í bænum. Alls á safni um 230 mótorhjól en auk þeirra á það 60 mótorhjólavélar sem eru flestar til sýnis á safninu. Loks eru 25 skellinöðrur einnig til sýnis. Af þeim 170 mótorhjólum sem eru til sýnis eru 11 mótorhjól sem framleidd voru í Danmörku. Við skulum skoða nokkur þeirra.

Fyrsta Nimbus hjólið kom árið 1919 en þetta hjól er frá árinu 1920 af fyrri gerð hjólanna sem oftast var kölluð Stovepipe í daglegu tali. Kemur það til vegan þess hvernig bensíntankurinn var í laginu. Þessi gerð var með 750 rúmsentimetra, fjögurra strokka motor og var framleidd til ársins 1934 þegar ný gerð hjólsins tók við. Hin gerð hjólsins heitir Type C og var mjög vinsæl, og keypti danski herinn og pósturinn þessi hjól í miklu magni.
Harley-Davidson framleiddi mörg hjól til notkunar í fyrri heimsstyrjöldinni og hér má sjá eitt þeirra. Það var upphaflega með hliðarvagni enda með stafinn L sem upphafsstaf í vélarnúmeri sínu. Fyrstu Harley-Davidson hjólin sem komu til Íslands voru alveg eins og þetta hjól.
William Mørch er danskt mótorhjól sem framleitt var frá 1914-1916 af dönskum málara. Aðeins voru fjögur framleidd og hjólið á safninu er það fyrsta sem smíðað var. Smíðin þótti vönduð með sveifaráshús úr bronsi meðal annars.
Douglas mótorhjólin voru þekkt fyrir að nota boxermótor sem komið var fyrir langsum í hjólinu. Þetta hjól er frá árinu 1930 en allavega tvö slík voru til hér á Íslandi í eina tíð. Douglas framleiddi mótorhjól frá 1904 til ársins 1956.
Fyrsta Cleveland mótorhjólið var smíðað árið 1915 og var með 270 rsm tvígengisvél. Árið 1924 kom einnig fjögurra strokka geð með 750 rsm mótor sem stækkaði í 1.000 rsm þremur árum seinna. Eitt tvígengis Cleveland kom til Íslands og var nákvæmlega eins og hjólið á danska safninu, en hjólin voru nokkuð vinsæl beggja vegna Atlansála.
Harley-Davidson kom fyrst með toppventlavél á markað í Peashooter hjólunum svokölluðu og meðal gripa á safninu er eitt frá árinu 1929. Það er svokallað Dirt-Track model enda vinsælt sem slíkt í Evrópu á þessum árum. Segir sagan að danski innflytjandinn hafi fengið mikið magn Harley-Davidson hjóla ódýrt á þessum tíma og selt víða um Evrópu, meðal annars til Íslands. Höfundur á eins hjól og þetta af sömu árgerð sem er í uppgerð í dag.
Eitt af elstu mótorhjólum sem voru til hér á Íslandi var Bradbury 500 eins og þetta mótorhjól. Þetta eintak er frá árinu 1906 en hjólið sem til var á Íslandi mun hafa verið nokkrum árum yngra. Vitað er til þess að það hafi verið til fram til árins 1930 eða þar um bil.
Með elstu hjólum á safninu er þetta Wanderer mótorhjól frá 1908 en tvö slík voru til hér á Íslandi í fyrir 1920. Þessi hjól voru vinsæl hjá þýska hernum í fyrri heimsstyrjöldinni og Wanderer var svo eitt af þeim merkjum sem sett voru saman í Auto Union samsteypuna árið 1932 en hin voru DKW, Horch og Audi.
Meðal minni sýninga innan um sýningargripi var sýning á Kawasaki hjólum frá áttunda áratugnum og hér fyrir innan andyrið tóku nokkur strax á móti manni.
Í kjallara hússins eru jafn stórt sýningarpláss fyrir mótorhjól og innst má finna merkilegt útvarpstækjasafn. Í forgrunni er BMW R50 frá 1952 með Steib hliðarvagni.
Vélar úr mótorhjólum skipa stóran sess á safninu en þær hafa verið teknar úr hjólum sem Erik Nielsen fékk gefins en voru of illa farin til að gera upp í heild sinni. Um sextíu slíkar vélar eru víðsvegar á safninu.

Verð fornhjóla heldur áfram að hækka

Það er ekki fyrir hvern sem er að gera upp fornhjól, hvað þá að kaupa eitt slíkt. Verð á fornhjólum hefur farið ört hækkandi undanfarin ár og einnig hefur verð varahluta hækkað samkvæmt því. Nú er svo komið að tengdir hlutir eins og gömul verkfæri, bensíndælur eða jafnvel olíubrúsar fara á óheyrilegar upphæðir og sýnist sitt hverjum. Um ástæður þess eru margar kenningar en líkleg ástæða er sú að sumir eiga meira af peningum en aðrir og eru tilbúnir að borga yfirverð fyrir eitthvað á uppboði sem fara myndi vel í sýningarskúr (Mancave) viðkomandi. Gott dæmi um slíkt er beyglaður olíbrúsi frá miðjum öðrum áratug síðustu aldar sem fór á rúma 18 þúsund dollara fyrir skömmu. Á brúsanum var mynd af 1915 árgerð Henderson sem eflaust hafði sitt að segja um verðið.

Hér má sjá olíubrúsann með Henderson mótorhjólinu sem fór á 2,5 milljónir króna fyrir skömmu.

Það er kannski ekki úr vegi að skoða verðmæti mótorhjóla sem hafa verið til hérlendis og jafnvel eru til ennþá. Byrjum á nokkrum mótorhjólum frá upphafi mótorhjólaaldar á Íslandi. Greinarhöfundur á Indian Powerplus verkefni sem verið er að safna íhlutum í smán saman. Síðast þegar slíkt hjól var selt á Mecum uppboði fór það á 38.750 dollara eða 5,3 milljónir króna. The Motorcycle and Railroad Museum of Wisconsins gefur út biblíu á hvert sem inniheldur áætlað verðmæti mótorhjóla, en það er eitt virtasta ritið á þeim vettvangi. Þar er gott upprunalegt eintak af Indian Powerplus 1918 metið á 60 þúsund dollara eða 8,2 milljónir króna. Á Mótorhjólasafninu er varðveitt Henderson mótorhjól sem að Grímur Jónsson járnsmiður gerði upp frá grunni. Algengt er að slík hjól fari á 80-90 þúsund dollara eða 11-12 milljónir króna.

This image has an empty alt attribute; its file name is Screenshot-2022-08-07-at-17.16.40.png
Þetta Harley-Davidson Model BA frá 1929 var selt árið 2006 úr safni Steve McQueen fyrir 32.000 dollara.

Greinarhöfundur á sjaldgæft Harley-Davidson Model BA frá 1929 sem verið er að gera upp, en slík hjól voru nokkuð sjaldgæf og fyrstu hjól Harley-Davidson til að vera seld með toppventlamótor. Aðeins 199 voru framleidd það árið og geta þau farið á 35 þúsund dollara ef þau kæmu á sölu samkvæmt biblíunni. Í íslenskum krónum gerir það tæpar fimm milljónir króna.

Góð eintök af Kawasaki Z1 900 með upprunalegu pústkerfi fara á himinháar upphæðir eða á fimmtu milljón króna.

Vinsæl fornhjól hérlendis eru hjól eins og Honda CB 750 og CBX 1047. Svokölluð „Sandcast“ útgáfa 1969 árgerðar sem er fyrsta árgerð CB 750 kostar þar 40 þúsund dollara eða 5,5 milljónir króna. Honda CBX 1000 1979 er metið á 23 þúsund dollara en það er 3,2 milljónir króna en nokkuð er til af slíkum hjólum hérlendis. Dæmi um hjól sem hafa hækkað mikið í verði að undaförnu eru elstu gerðir Kawasaki ofurhjólanna. Tvígengishjólið H2 750 kom á markað árið 1972 og voru 23.570 eintök framleidd það árið. Slíkt hjól er metið á 18 þúsund dollara í dag eða 2,5 milljónir króna. Kawasaki Z1 900 kom ári einna og þau fara á 30 þúsund dollara sem gerir 4,1 milljón króna. Það er sama verð og BSA Gold Star 500 geta farið á svo óhætt er að segja að þau séu nokkuð eftirsótt. Meira að segja fyrstu árgerðir Suzuki GSX-R 1100 frá 1986 fara á 10.000 dollara eða 1.370.000 kr. og sama má segja um fyrstu árgerð vatnskælda 750 hjólsins frá 1993.

Dýrstu mótorhjólin eru venjulega þau sem eru ennþá með öllu upprunalegu og þá líka litnum eins og þetta Indian Powerplus frá 1918.

Miðað við hvað fornhjól og hlutir þeim tengdir fara fyrir háar upphæðir má segja að peningunum er vel varið í slíka hluti og þeir ávaxti sig vel. Það er þó ekki einfalt mál að selja hérlendis þar sem markaðurinn er smár og hætt við að einhverjir freistist til að selja úr landi, sem er synd fyrir okkar litla land.

Myndir af Gillet Herstal hjólinu fundnar

Þeir sem hafa fylgst með greinum sem ég hef verið að birta á þessari síðu muna kannski eftir ryðgaðri grind sem ég fjallaði um fyrir nokkru og hékk uppá húsvegg á gömlu húsi á Ísafirði. Hjólið sem grindin tilheyrði hét Gillet Herstal og bar númerið Í-59, en það var í eigu Kjartans Stefánssonar á Flateyri. Svo skemmtilega vill til að grindin fannst einmitt í ruslahaug á Flateyri.

Björgmundur Örn Guðmundsson birti fyrir nokkrum dögum á Facebook mynd af afa sínum á gömlu mótorhjóli, og eftir samtal við hann og bróðir hans Bernharð kom í ljós önnur og skýrari mynd af hjólinu. Þar sést vel að númerið er Í-59 og er þar Gillet Herstal hjólið lifandi komið, enda passaði vel að Kjartan var vinur afa þeirra. Við birtum hér þessar myndir til að setja punktinn yfir i-ið ef svo má segja.

Magnús Kristján Guðmundsson mátar hér Gillet Herstal hjólið en hann átti einnig sjálfur Francis Barnett mótorhjól á þessum tíma.
Kjartan Stefánsson á Gillet Herstal hjóli sínu en myndin er líklega tekin 1945.
Gillet Herstal Sport frá 1929 en grindin er líklega frá 1931 og er alveg eins.

Gillet Herstal hjólin voru talin mjög góð eins og önnur belgísk hjól eins og FN og Sarolea. Framleiðsla þeirra hófst 1919 og náði til 1959 og voru á þriðja áratug tuttugustu aldar vinsæl keppnishjól. Setti René Milhoux meðal annars nokkur hraðamet á slíklu hjóli. Óbreytt Sport hjól var með 500 rsm toppventla mótor sem skilaði 20 hestöflum sem þótti gott. Við vitum að árið 1928 breytti Gillet Herstal grindinni fyrir söðultank svo að hjólið var allavega yngra en það. Hjólið er líklega flutt inn til Reykjavíkur sumarið 1939 og var með vélarnúmerið 35206 og fékk fyrst skráningarnúmerið R-1118 og er sagt 1931 árgerð. Þarna höfum við það, staðfestingu á að allavega eitt Gillet Herstal Sport hafi komið hingað til lands og leyfar af því séu ennþá til.

Mótorhjól Landssímans

Fyrstu hugmyndir um póstburð á mótorhjólum birtust í Íslending árið 1916, en þar segir: „Þá gæti einn maður í bifreið (eða á mótorhjóli með tveimur sætum) flutt póst um alt Faxa- flóaláglendið á einum degi.” Ekki varð af þeim áformum strax og póstburður á mótorhjólum var ekki stundaður hér fyrr en af hermönnum Breta í seinni heimsstyrjöldinni. Fyrstu heimildir um mótorhjól í eigu Landssíma Íslands munu verða þær að það voru allavega tvö BSA af 1948 árgerð skráð á Landsímann. Báru þau númerin R-1131 og R-1136. Voru þau notuð til að flýta fyrir skeytasendingum í Reykjavík. Sérstakir póstsendlar voru þá við störf og unnu nokkrir þeirra á bifhjólum að fara með símskeyti út um allan bæ.

Samkvæmt Bílabókinni frá 1956 er R-1131 skráð á Landssíma Íslands sem BSA 1948 mótorhjól. Einnig var R-1136 þar skráð sem BSA mótorhjól af sömu árgerð í eigu Landssímans. R-1136 var síðast skráð á Matchless hjól árið 1947 en það var flutt til Danmerkur sama ár svo að 1948 árgerðin getur vel staðist. Hugsanlega er annað hjólið til hérna ennþá samkvæmt skráningarupplýsingum.

Næstu mótorhjól Landssímans virðast hafa verið keypt árið 1951 en þá eru þrjú slík skráð á Landssíma Íslands með númerin R-1114, R-118 og R-1124. Vélarnúmer R-1114 er ekki skráð en R-1118 var með vélarnúmerið 9001NA og flutt inn 9. ágúst 1951 nýtt frá Englandi. Triumph mótorhjól með vélarnúmer 101NA til 15808NA eru öll af 1951 árgerð og þá annað hvort 500 eða 650 rúmsentimetra. R-1124 var með vélarnúmerið 9225NA svo það hefur einnig verið 1951 árgerð. Þegar farið er að skoða nákvæmlega hvernig Triumph 1951 út frá myndum sem til eru af gripunum kemur í ljós að um svokallað 6T Blackbird mótorhjól er að ræða, en þau áttu aðeins að fara á Ameríkumarkað. Eru þau auðþekkjanleg á svörtum litnum, með svörtum framdempurum.

Þrír póstmenn á Triumph mótorhjólum af 1951 árgerð, en myndin er líklega tekin þegar hjólin komu hingað ný árið 1951. Frá vinstri Magnús Björnsson, Ólafur Jónsson og Magnús Benjamínsson. Mynd © Gunnlaugur Emilsson.

Triumph mótorhjólið R-1124 er skráð á Landsíma Íslands árið 1951 og er í eigu fyrirtækisins til 1958 er það er sett á númerið R-3524. Það er skráð 1959 á Ritsíma Íslands í Landssímahúsinu og árið 1961 er það skráð á Egil Óskarsson, Nesvegi 12. Baldur Bjarnason, Nökkvavogi 36 er skráður fyrir því árið 1962 og Jens B. Guðmundsson, Bústaðahverfi 8 er skráður fyrir því 1964-66 er það er lagt niður sem ónýtt.

Magnús Benjamínsson frá Stóra-Knarranesi Vatnsleysiströnd. Skeytaþjónustumaður Landssímans uppúr 1940. R-1118 var í eigu Landssímans frá 1951 þegar það kemur nýtt, til ársins 1956 svo myndin er tekin einhverstaðar á því tímabili.

Póstur og Sími mun hafa notað vespur en þann 26 september 1962 birtist frétt í blaðinu Mynd um stuld á Vespu frá Pósti og Síma. Þar eru þeir sem hafa orðið gráu vespunnar R-3922 varir síðan um helgi, að láta rannsóknarlögregluna vita. Landssíminn fékk sér svo aftur ný BSA mótorhjól af 1954 og 1955 árgerð, sem báru númerin R-3917 og R-3946. R-3917 var með vélarnúmerið BM 21-3355. M-21 var með 600 rsm síðuventlamótor. Þau voru upphaflega notuð í stríðinu en framleiðsla á M-21 stóð alveg til 1958. R-3917 var einnig selt Agli Óskarssyni, Nesvegi 12 þann 21. nóvember 1961 en ekki er vitað hvað af því varð eftir það. R-3946 var selt Júlíusi Ingvarssyni, Fossvogsbletti 30 þann 13. maí 1964.

Árið 1961 birstist í öllum blöðum þessi auglýsing í byrjun nóvember. Þarna er Landssíminn að auglýsa öll mótorhjól sín á einu bretti.

Loks eru nokkur BSA mótorhjól og 3 stykki Vespur auglýst í fjölmiðlum til sölu nokkrum sinnum í apríl 1964 en notkun mótorhjóla við póstburð og skeytasendingar virðist því hætta um miðjan sjöunda áratuginn. Kannski hafði þessi frétt sem birtist þann 4. Janúar 1964 í dagblaðinu Vísi sín áhrif:

“Stolna mótorhjólið fannst í porti lögreglunnar”

Geysiumfangsmikil leit var gerð fyrir nokkru að mótorhjóli í ríkiseign, nánar Landssímans. Mótorhjólið hvarf eitt kvöldið og fannst ekki þrátt fyrir leit og greinargóðar lýsingar dagblaðanna á gripnum. Það bar svo við að nýliði í lögreglunni, gæddur þefvísi og eftirtekt hins unga manns, tók eftir mótorhjóli, sem hafði verið lagt upp við skilti í porti lögreglustöðvarinnar sem kvað svo á, að „bannað væri að leggja hjólum í portinu”. Í Ijós kom að þar var mótorhjól Landssímans. Nú kom einnig í ljós að starfsmaður á Landssímastöðinni hafði „rétt skotizt” á nöðrunni i kaffi á veitingahús við hlið lögreglustöðvarinnar, en steingleymt að loknum veitingum að hann hafði komið á reiðskjótanum og kom honum ekki í hug eftir þetta að hann hafði tekið reiðskjótann án fengins leyfis!

Thunderbird 650 mótorhjólin komu fyrst á markað árið 1949 og þau voru kynnt með sérstökum hætti. Á steyptu Montlhéry hringakstursbrautinni í Frakklandi voru þrjú slík látin keyra 800 km með meðalhraðann 150 km á klst. Síðustu hringirnir voru eknir á yfir 160 km hraða og þeim var svo öllum ekið aftur til Coventry í Englandi, sem er um 650 km leið.

Fór á mótorhjóli um Ísland árið 1913

Árið er 1913 og ungur bókari frá Uxbridge í London er um það bil að fara um borð í skip á leiðinni til Íslands. Það sem er sérstakt við þetta ferðalag hans er að með í för er Rover mótorhjólið hans sem hann hyggst nota til ferðalags um eyjuna. Stefnan var sett á að sjá hvort hægt væri að þvera hana og kanna vegi fyrir aðra sem gætu haft áhuga á að gera slíkt hið sama, enda skrifaði L. W. Spencer fyrir tímarit sem kallaðist Motorcycling. Hann hafði unnið sér til nokkurrar frægðar í Englandi að verða fyrstur á mótorhjóli uppá nokkra fjallstoppa eins og Snowden, ásamt því að keppa á Morgan þríhjóla kappakstursbílum.

L. W. Spencer á fyrsta legg ferðarinnar á leiðinni á Þingvöll. Eins og sjá má voru vegirnir þá ekki uppá marga fiska.

Það var fyrir tilviljun að undirritaður frétti af greininni um þessa för við lestur gamalla dagblaða á timarit.is. Í Vísi þann 2. September 1955 er fjallað um að 1913 hafi Englendingur ætlað yfir Ísland á bifhjóli og er sagt frá því með skemmtilegum hætti hvernig eintak af blaðinu komst hingað til lands. Sem betur fer fyrir undirritaðan var tilgreint í hvaða tölublaði greinin birtist og hófst því leitin um víðfeðmar lendur veraldarvefsins. Leitin tók tvö ár og hafðist að lokum að hafa uppi á henni, og birtist ferðasagan í fjórum tölublöðum alls rúmar 20 síður með fjölda mynda. Spencer lýsir þar för sinni á Þingvelli, ferð austur fyrir fjall yfir Hellisheiði og upp að rótum Heklu, ásamt fleiri ferðum að Reykjafossi og Keflavík, alls um 500 enskar mílur. Við drepum hér niður í frásögn hans að því þegar hann kemur til Þingvalla í fyrsta skiptið.

Þótt myndin sé óskýr sést vel að hér er á ferðinni Rover mótorhjól frá 1913. Kunnugir þekkja eflaust Ingólfsfjall og áin er því líklegast Ölfusá.

„Þegar ég kom aftur að Geithálsi, beygði ég skarpt til hægri á veginn til Þingvalla, sem lá yfir breiða hásléttu sem náði á tímabili 1.110 feta hæð. Bráðum fór vegurinn að lækka aftur þar til að Þingvallvatn, drottning íslenskra vatna, kom í ljós. Það var mjög fallegt í sólskini síðdegisins og blár himininn endurspeglaðist í glitrandi yfirborðinu. Langt fyrir aftan mátti sjá snævi þakta fjallstoppa og fjarlæga jökla og meðal þeirra hið fræga fjall Heklu.Undur landslagsins létu mig gleyma mér um stund en skyndilega leit út fyrir að vegurinn lægi fram af djúpri gjá en sem betur fer beygði hann til vinstri niður skarð sem kallast Almannagjá. Þetta var inngangurinn til Þingvalla. Við enda skarðsins gat ég séð láglendið breiða úr sér.“

Forsíðu greinarinnar prýðir þessi mynd af hjóli L. W. Spencer í miðri Almannagjá eða Allmen´s Chasm. Bókin um land miðnætursólarinnar er um ferð hans til Noregs árið áður.

Spencer lýsir á skemmtilegan hátt hvernig barningur það var að ferðast um landið á misgóðum reiðvegum þess tíma, en það er í of löngu máli til að gera því skil hér. Þess í stað verður ferðasagan birt í nokkrum köflum á heimasíðu sem undirritaður heldur úti um gömul mótorhjól á Íslandi á slóðinni fornhjol.is. Spencer mun hafa heimsótt fleiri lönd á mótorhjóli eins og Noreg og mun hann hafa skrifað bók um þá ferðasögu, en leit að henni hefur ekki borði árangur ennþá. Spencer bauð sig fram til þjónustu í mótordeild breska hersins í fyrri heimstyrjöldinni. Þar lét hann lífið í sendiferð, líklega á mótorhjóli sínu, þegar leyniskytta hæfði hann í höfuðið í október 1914.

Þessi mynd er líklega tekin á leið til Heklu, en L. W. Spencer segir frá því að þegar hann ók yfir Hellisheiði hafi hann séð þar sem rauk úr fjallinu og er því myndin líkast til tekin í Hveradölum.

Hjólið þótti vel heppnað enda var það með 3,5 hestafla mótor í miðri, demantslaga grind og að framan var tvískiptur gaffall með gormum að framan. Fyrsta Rover hjólið var með úðablöndungi og vélknúnum ventlum og góð smíði hjólisins tryggði góðar móttökur enda seldust yfir 1.000 Rover mótorhjól árið 1904. Ári seinna hætti þó Rover framleiðslu mótorhjóla í nokkur ár til að einbeita sér að framleiðslu reiðhjóla, enda varð sölufall á mótorhjólum um þetta leyti vegna tilrauna annarra framleiðenda sem þóttu ekkert sérlega vel heppnaðar. Árið 1910 var svo mótorhjólaframleiðslan sett aftur í gang og John Greenwood sem seinna hannaði fyrir Sunbeam, fenginn til að koma með endurbætta útgáfu 3,5 hestafla hjólsins með Bosch kveikju og Brown & Barlow blöndungi. Hjólið kom með Druid framgaffli og var kynnt á Olympia sýningunni árið 1910 og seldust 500 eintök af því hjóli 1910-11. Það var á slíku hjóli sem L. W. Spencer kom á til Íslands árið 1913.

Kveikjan á hjólinu var höfð fyrir aftan mótorinn þar sem bleytan komst ekki að og hún var keðjudrifin. Árið 1913 kom hjólið með endurhannaðri grind og þekkist hjól L.W. Spencer sem 1913 árgerð þar sem að þá kom hjólið með olíutanki sem var innfelldur í bensíntankinn hægra megin.

Harleyinn úr Vík

Segja má að áhugi minn á gömlum mótorhjólum og söfnun heimilda um þau hafi kviknað þegar ég skoðaði nokkrar myndir sem að Hilmar Lúthersson Snigill #1 hafði komið með til varðveislu í Sniglaheimilinu 1993. Myndirnar voru af tveimur mótorhjólum, Ariel 1930 og Harley-Davidson 1929 sem bar númerið R-1130. Myndirnar sýndu hjólin á slæmum malarvegi og lýstu vel þeim barningi sem að hjólafólk þess tíma lifði við. Var mér sagt að vegurinn væri gamall þjóðvegur á Höfðabrekkuheiði, ekki langt frá Vík í Mýrdal. Myndirnar heilluðu mig upp úr skónum og ég komst að því að á Harley-Davidson hjólinu sæti Loftur Ámundason járnsmiður.

Á þessari mynd gefur að líta tvö stykki hjól, nokkuð aldin að árum. Myndin er tekin 1940 á Höfðabrekkuheiði. Heiðin sú arna er rétt fyrir austan Vík í Mýrdal og var á sínum tíma þjóðvegur, en er það víst ekki lengur. Svona voru þjóðvegirnir á þessum tíma, ekki beint augnayndi fyrir okkur hjólafólk. Mennirnir á myndinni eru þeir Loftur Ámundason og Hlöðver Einarsson.

Árið 1992 fór ég í Vík ásamt tveimur félögum mínum að skoða gömul Harley mótorhjól sem að eldri maður átti þar inní skúr. Annars vegar var þar V2 hjól sem líklegast var af WL gerð frá 1945 og svo eldra 1929 hjól með öðrum en upphaflegum mótor. Maðurinn sem átti hjólin hét Guðmundur Guðlaugsson og segir sagan að hjólið hafði gengið manna í millum þarna í sveitinni í nokkurn tíma. Guðmundur hafi fengið að hirða hjólið þegar stóð til að henda því og í stað þess að laga mótorinn hafi hann sett í það eins strokks mótor úr 1927 árgerð af Harley-Davidson hjóli. Vitað er hvaðan það hjól kemur og munum við fjalla betur um sögu þess á næstunni.

Hjólið lá upp við haug af allskonar dóti árið 1993 og komst ég ekki nær því en þetta til að taka mynd af því. Mynd © Njáll Gunnlaugsson

Ekki segir svo sem meira af þessari ferð annað en að ég tók nokkrar myndir af hjólunum ásamt Panther mótorhjóli í öðrum skúr, en það hjól er nú í uppgerð. Vitneskjan af þessum Harley hjólum var þó alltaf til staðar og ég frétti seinna að ættingjar Guðmundar hefðu eignast hjólin eftir fráfall hans. Í sambandi við bókaskrif mín um sögu Harley-Davidson mótorhjóla á Íslandi setti ég mig í samband við núverandi eigendur og komst ég þá að því að eldra hjólið gæti verið til sölu. Góðir hlutir gerast hægt og eftir að hafa verið í sambandi við eigandann í næstum tvö ár var komið að því að kaupa gripinn.

Þrír menn sitja hjól sín við bensíndælu, hugsanlega á leiðinni norður í land. Frá vinstri eru Eggert Jóhannesson, Einar Björnsson og Jón Einarsson.

Ákveðið var að drífa sig í Vík eftir hádegi á þriðjudegi þar sem að ég þurfti að fara erlendis morguninn eftir. Farið var á sendibílnum sem er sérútbúinn fyrir mótorhjólaflutninga og eftir á að hyggja var það góð ákvörðun. Mér hafi verið sagt að það væri dót sem fylgdi hjólinu á bretti og þegar til kom reyndist það rétt og gott betur. Hjólið lá uppvið vegg undir segli í gömlum olíuskúr sem var sem betur fer þurr og góður. Dótið sem fylgdi með var hins vegar á víð og dreif ofan í olíugryfju sem þarna var og því ekkert annað í stöðunni en að fara þangað niður, opna kassa og færa til bílvélar og varadekk til að komast að því hvað væri þarna. Ef þið hafið séð þátt af Pickers að þá vitið þið hvað ég er að tala um.

Hjólinu ýtt út úr skúrnum þar sem það hafði verið geymt síðan á síðustu öld. Við fætur mínar er fremsti hluti olíugryfjunnar sem geymdi þá hluti sem fylgdu með hjólinu, eins og mótorinn úr hjóli Lofts. Mynd © Tryggvi Þormóðsson.

Þolinmæðin reyndist þess virði og það sem kom uppúr gryfjunni var merkilegt og sýndi hjólið í alveg nýju ljósi. Þarna var nánast heill mótor af D-módeli frá 1929. Auk þess var líka þarna auka gírkassi og kúpling ásamt fleiri hlutum. Það voru líka nýir stiplar ennþá í kassanum ásamt nýjum ventlum og flautu svo að greinilega hefur staðið til að gera upp hjólið í upprunalegt horf. Á einum vélarhlutanum var sem betur fer vélarnúmer svo að ég hugsaði að ég myndi fletta gripnum upp í skrám mínum um leið og ég kæmi heim. Þið getið ímyndað ykkur furðu mína þegar ég sá að upprunalega vélin tilheyrði hjólinu hans Lofts sem ég hafði heillast af 30 árum áður!

Elsta myndin ef hjólinu er af Aage Lorange, reyndar á öðru hjóli en RE-519 númerið er það sem tilheyrði því til ársins 1936. Sá sem situr R-519 er Carl Emil Ole Møller Jónsson. Þessi mynd er tekin á Hafursstöðum í Skagahreppi. Stúlkan aftan á mótorhjólinu var fædd árið 1913, Herborg Gestsdóttir svo að myndin hefur verið tekin 1931 að öllum líkindum.

En víkjum aðeins að sögu hjólsins hans Lofts. Aage Lorange, Freyjugötu 10 kaupir hjólið nýtt 11. Febrúar 1930 og á það í tvö sumur. Emil Jónsson verslunarmaður, Baldursgötu 10 kaupir það 12. Október 1931 og er skráður fyrir því 1932 en 3. júní 1933 er það komið á nafn Lofts Helgasonar sem er skráður fyrir RE-519 frá 1933-1936. Eggert Jóhannesson, Hringbraut 132 er skráður fyrir hjólinu 2. Maí 1936 ásamt Eyjólfi K. Steinssyni, Frakkastíg 12. Árið 1939 fær það númerið R-519 og er þá enn í eigu Eggerts og Eyjólfs. Loftur Ámundason, Grettisgötu 73 kaupir það 26. Febrúar 1939 og þann 1. Júlí er það sett á númerið R-1130. Hjólið fær seinna númerið G-672 en 20. Október 1958 er það komið á númerið R-3918 og á nafn Preben Skovsted, Laufásvegi 41.

Harley-Davidson hjól Lofts auglýst í Morgunblaðinu í lok árs 1959 en þá var það í eigu Baldvins Einarssonar.

Þann 24. Nóvember 1958 er það skráð á Konráð Bergþórsson til heimilis að Nökkvavogi 1. Hann auglýsir það til sölu í Morgunblaðinu 29. Maí 1959 og er það selt ódýrt. Baldvin Einarsson, Hverfisgötu 90 er skráður fyrir því 12. Júní 1959 en hann auglýsir það til sölu í Vísi 11. Ágúst og svo aftur 19. Nóvember sama ár, sem ódýrt Harley-Davidson, 10 hestöfl og eru upplýsingar gefnar á Hverfisgötu 90. Þann 17. Febrúar 1967 er númerið sagt niðurlagt og ónýtt.

Blokkin úr hjóli Lofts með vélarnúmerinu sem tilheyrði skráningu hjólsins.
 

Í hjólinu frá Vík er í raun og veru um leyfar þriggja hjóla að ræða, því að grunnurinn eins og grind, gaffall, afturfelga og fleira er úr C-módeli frá því árið 1930, en það eina ár var grindin með ákveðnu formi á bita undir sæti sem ekki er á öðrum árgerðum. Ég á eftir að greina það betur hvaða hjól það var nákæmlega sem um ræðir þar, en við skráningar á árum áður var venjulega notast við vélarnúmer sem ekki er til í þessu tilfelli. Hugsanlega geta einstakir aukahlutir og fleira í þeim dúr svarað þeirri gátu en fjögur hjól koma til greina af þeirri árgerð. Allar líkur eru á því að hjólið í Vík verði þannig grunnur að uppgerð á þremur Harley-Davidson mótorhjólum þegar fram í sækir, og er ég þegar byrjaður að fá hluti fyrir elsta mótorinn, en sögu þess segjum við betur frá í næsta kafla um Harleyinn í Vík.

Við vitum að þessi mynd er tekin sumarið 1937 út frá þeirri staðreynd að sá sem situr R-472 átti hjóllið bara það eina sumar. Þá voru þeir Eggert Jóhannesson og Eyjólfur K Steinsson eigendur hjólsins R-519 . Sá sem situr R-93 er Gissur Erasmusson en RE-565 situr Tómas Þorsteinsson. R-583 situr Sigurður Sigurðsson og á RE-488 er knapin Adolf Hólm. Myndin er tekin við Tryggvaskála á Selfossi og er úr ljósmyndasafni Gissurar Erasmussonar.