Mecum mótorhjólauppboðið

Í lok janúar fer fram eitt stærsta mótorhjólauppboð ár hvert, sem er Mecum uppboðið í Las Vegas. Fjöldi fágætra mótorhjóla var þar á uppboði og má þar nefna hjól eins og 1908 árgerð Harley-Davidson, BMW R32 1925, Henderson C-módel 1914, Henderson 1916, 1938 árgerð Vincent HRD og margt fleira. Einnig var talsvert af nýrri mótorhjólum til sölu og mörg ansi sérstök, eins og við komum að síðar í greininni.

Hér má sjá Z1 900 1973 mótorhjól Mike Konopacki um það bil að fara undir hamarinn. Mynd: Youtube

Meðal hjóla sem fóru fyrir metfé á uppboðinu var Kawasaki Z1 900 frá 1973, sem var fyrsta árgerð þessa mótorhjóls. Sá sem átti hjólið og hafði gert það upp héitir Mike Konopacki og þekktur kvartmílukeppandi í Bandaríkjunum. Hann var með sex mótorhjól á uppboðinu og hafði gert sér vonir um að fá 3,5 milljónir fyrir Z1 hjólið. Hann var líka með óaðfinnanleg KZ900 1976 og Z1R 1978 sem fóru fyrst undir hamarinn, en honum til nokkurra vonbrigða fóru þau bara á 1,7 og 2 milljónir. Eftir hádegi var komið að Z1 hjólinu og Mike hafði áhyggjur að það myndi ekki ná því marki sem hann vildi ná. Annað átti þó eftir að koma í ljós því að boðin streymdu inn og fljótlega var það komið upp í 3,5 milljónir. Þá var eins og skipt hafi verið um gír og áfram héldu boðin að koma í hjólið, þar til það var slegið fyrir hæstu upphæð sem fengist hefur fyrir hjól af þessari gerð, eða litlar 7,1 milljón króna! Mike fór strax á barinn og pantaði sér einn Crown Royal til að halda uppá söluna. Hann hafði líka frekari ástæðu til að fagna síðar, því að tvö önnur Z1 hjól frá honum voru boðin upp seinna um daginn, og fóru á 3,5 milljónir hvort, en þá voru 1974 og 5 árgerð.

Þetta óaðfinnanlega Harley-Davidson eins strokks frá 1908 var á uppboðinu en ári seinna komu fyrstu V2 hjólin frá þeim á markað. Mynd: Mecum

Á uppboðinu fóru mörg hjól yfir 15 milljónir króna og sum nálægt 20 milljónum. Það sem vakti þó kannski ekki síður athygli var þegar Aaron Loveless frá Kaliforníu kom með ansi skrýtið mótorhjól á uppboðið. Greinarhöfundur þekkir hann ágætlega og fylgdist með honum í nóvember þegar hann fann gripinn í gömlu flugskýli. Hjólið er í grunninn reiðhjól frá 1915 og kallast Areothrust, en það er lítill flugvélamótor sem er festur á bögglaberann sem knýr hjólið áfram. Aaron er með ástríðu fyrir öllu gömlu þótt hann sé ungur að árum og keppir meðal annars árlega í Cannonball rallinu á 100 ára gömlum mótorhjólum. Þegar kom að því að bjóða upp flugreiðhjólið hans fóru skrýtnir hlutir að gerast. Greinilegt var að margir vildu eignast gripinn og verðið klifraði hratt upp. Þegar hjólið var slegið hafði það farið fyrir 82.000 dollara, eða 11,7 milljónir króna og geri aðrir betur.

Areothrust hjól Aaron Loveless fór á 82.000 dollara og brutust þá út mikil fagnaðarlæti.
Alls þurfti fjóra daga til að bjóða öll mótorhjólin upp en hér má sjá hluta þeirra í einni sýningarhöllinni. Mynd: Harald Zechner

Bætt við Harley-Davidson söguna

Það að safna heimildum og skrifa bækur um gömul mótorhjól er verkefni sem stoppar ekki, og sífellt eru að koma viðbætur við söguna. Aðeins hefur bæst í söguna síðan að bókin „Goðsögnin frá Ameríku“ kom út um jólin og því er það góður vettvangur að nota fornhjol.is til að segja frá því sem bæst hefur við heimildir. Til dæmis áskotnaðist ritstjóra fornhjol.is mynd af Sigga Palestínu á WL mótorhjólinu sem tekin er að vetri til. Einnig hafði maður samband sem að gat sagt frá því að Harley-Davidson U-módelið frá 1942 sem talið var að brunnið hafði í skemmuni við Hálogaland, var ekki ónýtt eftir brunann heldur var það gert upp. Loks komu myndir frá Hilmari Lútherssyni sem sýna bæði frá uppboði Harley-Davidson lögregluhjóla árið 1989 og myndir af hjóli Hlyns Tómassonar, flugvirkja þegar Stjáni Meik sótti það úr geymslu, og var með á vörubílspallinum í nokkra daga. Óhætt er að segja að það vakti nokkra athygli á sínum tíma.

Myndin af Sigurði Emil Ágústssyni kom í hendur höfundar eftir útkomu bókarinnar en hún sýnir hann stoppa skellinöðrugutta fyrir akstur með farþega. Eins og sjá má er hávetur og Harley-Davidson WL hjólið frá 1945 á snjókeðjum. Sá sem situr glaðbeittur á NSU skellinöðrunni er Símon Wium, en myndin er tekin veturinn 1960-61.

Það var Jón Már Richardsson rafeindavirki sem að keypti hjólið vorið 1960 og seldi aftur árið 1966. Sá sem gerði það upp að mestu var Jóhann Erlendsson flugvirki, en hann kemur heim frá námi í Bandaríkjunum árið 1957. Ekki fylgir sögunni hvernig hann eignaðist það en þegar hann kemur heim eru sex ár liðin frá brunanum svo líklegt er að einhver hafi átt það á undan honum. Jón Már var að vinna með bróðir Jóhanni flugvirkja sem hét Höskuldur og hafði aðstoðað við uppgerðina á hjólinu. Jón Már lýsir því þegar hann fór að skoða hjólið með þessum orðum. „Árið 1959 fæ ég bílpróf, og fer að velta fyrir mér kaupum á mótorhjóli. Áður var ég búin að vera með skellinöðru, en Höskuldur bróðir Jóhanns, segir að Jói bróðir sinn sé með stórt mótorhjól til sölu. Förum við nú suður á Reykjavíkurflugvöll til að skoða hjólið. Ég man að mér varð hálfpartinn um er ég sá gripinn, risahjól með hliðarkerru. Harley-Davidson týpa-U. Ég fór í smá prufutúr á gripnum, en hjólið var þungt og réð ég ílla við það með hliðarkerruna.  Ekki varð af kaupum þá, en ég hugsaði málið í dálítinn tíma og gerði honum svo tilboð í hjólið, án hliðar kerrunar. Hann tók tilboðinu, en ekki veit ég hvað hann gerði við kerruna.“

Annað þeirra Harley-Davidson mótorhjóla sem fóru til Akureyrar var af 1982 árgerð en þar var því ekið yfir 50 þúsund kílómetra áður en það var sent til Reykjavíkur skömmu fyrir aldamót. Sá sem keypti hjólið ásamt öðru hjóli úr Rekjavíkurflotanum hét Morten Corneliusson og var frá Noregi, en hann hafði aðstoðað lögregluna hér við kaup á búnaði við stofnun sérsveitarinnar. Morten á hjólin enn þann dag í dag og eru þau enn hjá honum í góðu yfirlæti að því best er vitað.
Hér er Harley-Davidson RL módel Hlyns flugvirkja á pallinum á Mack vörubílnum hans Stjána Meik, fyrir utan verkstæði hans í Súðavoginum.
Frá uppboð lögreglunnar í portinu bak við Borgartún 7. Mynd: Hilmar Lúthersson.

Nusurnar á Sigló

Inni á Síldarminjasafninu á Siglufirði má meðal annarra muna sjá þessa NSU skellinöðru frá hápunkti síldarævintýrisins.

Á dögunum fann greinarhöfundur bifhjólaskráningar frá því á sjötta áratugnum yfir hjól sem voru skráð með F-númeri en það eru ökutæki frá Siglufirði og nágrenni. Þar var mikið um skellinöðrur á þeim tíma og voru langflestar þeirra af NSU gerð eða um 30 talsins þegar mest var. NSU skellinöðrurnar voru reyndar vinsælar víðar og voru mest seldu mótorhjól í Evrópu á sínum tíma. Hérlendis var það Fálkinn sem flutti þær inn og seldi. Allavega tvær slíkar hafa varðveist á Siglufirði, en það eru hjól Árna Magnússonar sem bar númerið F-25 og Stefáns Kristjánssonar sem var með númerið F-13 og varðveitt er á Síldarminjasafninu.

Árni Filippus Magnússon með F-6 en það var í eigu Vals Jóhannssonar þegar það kom nýtt árið 1956. Hjólið er af gerðinni NSU Quickly. Myndin er frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Leiða má getum að því að síldarævintýrið hafi haft sitt um kaupgetu ungra manna á staðnum því þetta er óvenjuhátt hlutfall sama ökutækis á einum stað. Guðmundur Pálsson eða Gvendur í Bænum, átti einstaklega fallegt NSU hjól, Benedikt Sigurðsson kennari var kallaður Benni á beyglunni, en hann var á Viktoria skellinöðru. Á þessum tíma gekk það á fyrir sunnan að mikið var um þjófnaði á NSU skellinöðrum og varð það að svo mikilli plágu að blöðin fjölluðu um það, enda hjólunum stolið í stundum tveimur í einu. Svo merkilegt sem það er voru tvö þessara hjóla frá Siglufirði en eigendur þeirra höfðu farið með þau til Reykjavíkur í sumarferð.

Magnús Pálsson á NSU skellinöðrunni sem stolið var fyrir sunnan, á Eyrargötunni á Siglufirði en þessi mynd var birt á vefsíðunni trolli.is. Þar stóð líka að samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum að það hefði verið hægt að panta svona hjól hjá Fálkanum í Reykjavík 1957, fyrir aðeins 5.550 kr. Myndin er frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Fyrra hjólinu var stolið í Reykjavík vorið 1957, en í Morgunblaðinu 7. maí birtist grein með fyrirsögninni “Skellinöðru stolið. Siglfirðingur sem í vetur hefur verið við nám hér í Reykjavík, varð fyrir því óhappi fyrir nokkru að „skellinöðrunni“ hans, F-18, var stolið. Er þetta nýleg NSU-skellinaðra grá að lit, og hefur ekkert til farartækisins spurzt síðan. Var því stolið fyrir utan húsið Mávahlíð 1, en þar stóð það læst. Eru það tilmæli rannsóknarlögreglunnar til þeirra er kynnu að hafa séð skellinöðru þessa að gera þegar viðvart.” Sá sem var skráður fyrir hjólinu hét Magnús Pálsson.

Í Morgunblaðinu þann 9. Febrúar er sagt frá stuldi á skellinöðrunni F-35.

Skellinöðruæðið hélt áfram þótt Nusurnar hefðu horfið ein af annarri en Simson hjólin voru einnig algeng á sjöunda áratugnum áður en að Honda skellinöðrurnar komu til sögunnar. Vinsældir þess merkis héldust alveg langt út níunda áratuginn með hjólum eins og Honda MT og MB, eins og sjá má í skráningargögnum. En það er önnur saga.

Algengustu gerðirnar á NSU Quickly var svokölluð N gerð eins og hér sést frá 1957 og mest var selt af hérlendis. Þjappan í mótornum var aðeins 5,5:1 og hestöflin 1,4 við 4.600 snúninga á mínútu. Gírkassinn var tveggja gíra og var hjólinu skipt í stýri með því að hreyfa til handfangið um leið og kúplað var með sömu hendi. Alls voru 539.793 NSU Quickly N framleiddar á árunum 1953-1962.
Greinarhöfundur er þriðji eigandi þessarar Kreidler K50 1955 skellinöðru sem kom ný til Siglufjarðar og fékk númerið F-9.. Sá sem átti hana fyrst hét Baldur Ólafsson en hann seldi hana suður í sumarlok 1957. Lárus Guðgeirsson flugmaður keypti hana og notaði við sendlastörf næstu þrjú árin en næstu sextíu árin fékk hún svo að kúra í geymslunni hans. Svona leit gripurinn út þegar hann kom aftur undir bert loft árið 2020.

Risauppboð á hlöðufundi áratugarins

Hver kannast ekki við hugtakið “hlöðufund” eða “Barn find” sem fylgist með gömlum bílum eða mótorhjólum? Þótt að mótorhjólum sem keypt voru fyrir 100 árum og síðan lagt af fyrsta eiganda séu enn að skjóta upp kollinum eru líka aðrar tegundir af hlöðufundi nú til dags. Safnarar hafa í mörgum tilvikum safnað að sér mótorhjólum sem að gleymast svo í þeirra eigu, allt þar til þeir hrökkva upp af. Þá koma í ljós skemmur fullar af mótorhjólum, en það er einmitt samansafn mótorhjóla úr tveimur þannig tilvikum sem hér um ræðir. Það er mótorhjólaverslunin Hitchcocks Motorcycles sem stendur fyrir uppboðinu og þótt mótorhjólin komi upphaflega frá Ameríku fer það fram í Solihull í Bretlandi. Það þurfti fimm 40 feta gáma undir allt dótið sem inniheldur tæplega 200 mótorhjól og kynstrin öll af varahlutum.

Mótorhjólin eru mörg hver óuppgerð eins og þetta AJS frá fyrri hluta síðustu aldar en einnig er mikið að nýrri gerðum frá því eftir miðja tuttugustu öldina.

Það mun taka einhvern tíma áður en hægt verður að flokka og merkja alla hluti svo þeir verði tilbúnir fyrir uppboð, en á meðfylgjandi myndbandi má sjá herlegheitin. Þarna eru mótorhjól frá Triumph, Norton, BSA, Indian, AJS, Royal Enfield og fleiri framleiðendum. Magn varahluta er líka yfirþyrmandi sem sjá má að eru flokkaður eftir hlutverkum þeirra, felgur í einum kassa, hedd í öðrum og svo mætti lengi telja. Búast má við að varahlutirnir verði boðnir til sölu smátt og smátt á vefverslun Hitchcocks Motorcycles svo það gæti borgað sig að fylgjast með á komandi vikum og mánuðum ef þið skylduð sjá eitthvað áhugavert í myndbandinu.

Norton 500 mótorhjólið

Norton mótorhjól voru kannski ekki algengustu bresku mótorhjólin hérlendis en í skráningum finnast vel innan við tugur slíkra hjóla frá því fyrir stríð. Meira virðist þó hafa komið af slíkum hjólum í stríðinu til landsins með sjómönnum og eflaust hafa einhver fyrirstríðshjólin komið þannig til landsins. Ekkert umboð var rekið fyrir Norton mótorhjólin en þau voru síðar seld hjá Fálkanum á seinni hluta aldarinnar.

Ingiberg Þórarinn Halldórsson á Norton 1937 hjóli uppúr seinni heimsstyrjöldinni. G-452 var í eigu Jakobs Indriðasonar úr Keflavík 1945 samkvæmt Bílabókinni. Athygli vekur að þetta Norton er með uppsveigðu pústi sem bendir til meiri sportútgáfu.

Norton er einna helst þekkt fyrir 500 rsm hjólið sem þótti bæði öflugt og áreiðanlegt, en það kom fram í ýmsum gerðum Norton mótorhjóla. Rekja má sögu  500 rsm eins strokks vélarinnar í Norton hjólunum til 1911 þegar 490 rsm hjól með 79 mm bori og 100 mm slagi keppti í Isle of Man Senior Class. Nákvæmlega þessi hlutföll mundu haldast óbreytt í meira en hálfa öld eða allt þar til árið 1963 þegar síðasta eins strokks 500 hjólið var framleitt hjá Norton.

Norton 18H frá 1933 með 500 rsm mótor.

Þótt að Norton hjólið hafi ekki unnið nein verðlaun fyrsta árið var reynslan notuð til endurbóta, en hönnuðurinn og keppandinn James Norton, betrumbætti vélina og tók þátt í Brooklands keppninni árið 1912 sem hann vann, ásamt því að setja þrjú heimsmet. Þess vegna kom Norton BS á markað árið 1913 en það stóð fyrir Brookland Special og gat það hjól keyrt sporöskjuna á Brookland með meðalhraðanum 115 km á klst. Eftir fyrri heimsstyrjöldina kom Norton 500 hjólið með þriggja gíra Sturmay-Archer gírkassa ásamt keðjudrifi. Norton hjólið fékk 16H nafnið árið 1921 þegar James Norton kynnti 500 mótorinn í breyttri og lægri grind, en H stóð einfaldlega fyrir Home. Einnig var hægt að kaupa 500 hjólið i annarri grind með meiri veghæð en það var kallað 17C þar sem C stóð fyrir Colonies eða nýlendur.

Norton WD 16H hermótorhjólið sem var algengasta hermótorhjól breska hersins.

Í framhaldi kreppunnar miklu árið 1929 varð Bretum fljótt ljóst að það stefndi í aðra heimsstyrjöld og þess vegna fór hermálaráðuneytið að undirbúa það, meðal annars með því að gera samninga um framleiðslu á mótorhjólum. Þar sem að Norton hafði orð á sér fyrir áreiðanleika var haft samband við Norton og beðið um hjól frá þeim í prófanir.

Mynd af íslensku hermótorhjóli í eigu Gunnars Péturssonar en það var frumsýnt nýlega á herminjasýningu í Mosfellsbæ.

Í stað þess að koma með nýustu útgáfurnar fór Norton þá leið að velja 16H hjólið með síðuventla mótor og breytti grindinni fyrir meiri veghæð. Einnig var framgafflinum breytt og settir sterkari gormar í hann og hjólið fékk grófari fótstig, farangursgrind, hraðamæli og rafmagnsflautu ásamt stærri og sterkari afturstandara. Skemmst er frá að segja að Norton hjólið kom best út í samanburði við hjól eins og BSA, Matchless, Triumph og Royal Enfiled meðal annars.

Þetta Norton WD 16H hermótorhjól er í uppgerð hjá Hinriki Steinssyni flugvirkja og hefur engu verið til sparað til að gera það sem upprunalegast. Það mun fara á stríðsminjasafnið á Reyðarfirði þegar það verður tilbúið.

Árið 1936 var Norton þegar búið að afhenda 900 WD 16 H mótorhjól en WD stendur fyrir War Department. Norton hjólin voru þau algengustu meðal breska hersins í stríðinu og alls framleidd í hátt í 100.000 eintökum.

R-1155 er líklega Norton 1937 en það var árið 1945 í eigu Gunnar Elíassonar.

Eins og annars staðar var Norton algengasta herhjólið á Íslandi í stríðinu. Hingað komu reyndar fyrst BSA hjól á hernámsdaginn en með tilkomu 47 herfylkisins og herlögreglusveitar sem var búin Norton hjólum fjölgaði þeim mikið hér. Engar tölur yfir fjölda þeirra hafa fundist en samkvæmt ljósmyndasafni ritstjóra fornhjol.is má finna 35 stykki Norton WD 16H á ljósmyndum.

Þessi mynd af herlögreglumönnum við æfingar á Norton mótorhjólum sínum er tekin í Daníelsslipp árið 1940.

Hvar er tvíburahjólið niðurkomið?

Það er alltaf gaman að rekast á gamla „vini“ eins og Maico M250B mótorhjólið sem ég sá hjá honum Alexander Ólafssyni á dögunum. Sumarið 1973 komu hingað tveir þjóðverjar á tveimur gömlum hermótorhjólum með það fyrir augum að aka á þeim yfir hálendi Íslands. Þessir ungu menn hétu Dieter Kizele og Georg Johna og höfðu þeir safnað fyrir hjólunum í eitt og hálft ár. Hjólin voru gömul hermótorhjól af Maico gerð, einnig kölluð Blizzard, með 250 rsm tvígengisvélum og fjögurra gíra kassa. Þeir keyptu þau á 100 mörk stykkið og þurftu talsvert að dytta að þeim áður en þeir komu hingað.

Alexander Ólafsson við annað M250B hjólið en ekki er vitað hvar hitt er niðurkomið.

Hjólin urðu eftir á Íslandi eftir för þeirra hingað og Grímur Jónsson járnsmiður keypti bæði hjólin. Átti hann þau fram til 1992 þegar Magnús Axelsson kaupir þau bæði af honum. Þegar stóra afmælissýning Snigla var haldin í Laugardalshöll 1994 fékk ritstjóri fornhjol.is bæði hjólin lánuð á sýninguna. Magnús selur seinna bæði hjólin og allavega annað þeirra Ólafi Hafsteinssyni. Nýlega rakst ég á annað þeirra hjá Alexander Ólafssyni í Hafnarfirði, en sonur hans Ellert keypti það af Ólafi. Þar hefur hjólið verið geymt lengi eða í hjartnær 20 ár, en ekki er vitað hvað varð af hinu hjólinu. Gaman væri ef að einhver getur bent okkur á hvar það skyldi niður komið og hvort það sé upprunalegt ennþá eins og hjól Alexanders og Ellerts.

Tvíburahjólin á mótorhjólasýningu Snigla í Laugardalshöll árið 1994.

Þegar ég skrifaði bókina um 100 ára sögu mótorhjólsins á Íslandi rakti ég aðeins sögu Georg og Dieter, enda var birt grein um þessa ferð þeirra í Morgunblaðinu 15. júlí 1973. Tókst mér meira að segja að hafa uppi á ættingjum þeirra og ræddi í síma við son Georg Johna, sem sagði mér að þeir væru báðir látnir, en þeim þætti mjög merkilegt að þeir væru að fara að birtast í bók á Íslandi. Hér fyrir neðan má lesa greinina úr Morgunblaðinu í heild sinni.

Yfir hálendið á eldgömlum hermóturhjólum

Fjórir ungir Þjóðverjar eru nýkomnir til Reykjavikur eftir næsta ævintýralega ferð um Island. Þeir ferðuðust um á eldgömlum hermótorhjólum sem þeir keyptu fyrir lítinn pening í sínu heimalandi og þeir voru m. a. fyrstu sumargestirnir sem komu að Hveravöllum í ár. Þeir Dieter Kizele og Georg Johna komu hingað í þeim fasta ásetningi að fara á mótorhjólum yfir hálendið og á leiðinni hiittu þeir tvo landa sína, Frank Backmann og Hans Jurgen Bunson sem voru á ferð á jafnvel enn fornfálegra farartæki en þeir sjálfir. Þeir Frank og Hans Jurgen höfðu ekki gert neina ferðaáætlun, en ákváðu að slást í för með þeim félögum og það á 14 ára gamalli Vespu sem þeir höfðu keypt fyrir 18 mörk.

Dieter Kizele og Georg Johna við hjól sín á Íslandi ásamt Frank Backmann og Hans Jurgen Bunson sem þeir hittu á þessari vespu á leið sinni.

Dieter Kizele var mestur enskumaðurinn í hópnum og hafði því orð fyrir þeim: “Við Georg ákváðum að fara í þessa ferð mest vegna þess að þetta er dálítið óvenjulegur íerðamáti og við vildum fara þær leiðir sem við þyrftum ekki að deila með túristahópum. Áhugann á Islandi fengum við frá vini okkar Halldóri Gíslasyni, sem við kynntumst þegar hann var við nám í Stuttgart. Halldór hlýtur að vera góður Islendingur þvi hann lýsti landi og þjóð svo fagurlega að við ákváðum að við YRÐUM einhvem veginn að heimsækja Ísland. Það eina sem mælti á móti því að við gerðum það var fjárskortur svo við byrjuðum á að bæta úr því. Við lögðum fyrir tvö mörk á dag í Íslandsferðarsjóð og hreyfðum þann sjóð ekki einu sinni í neyðartilvikum. Söfnunin tók eina átján mánuði en þeim tíma var vel varið því þá lágum við yfiir bókum og kortum og öllum þeim upplýsingum sem við gáturn orðið okkur úti um, um land og þjóð. Við komum því vel undirbúnir. Á söfnunartímanum svipuðumst við einnig um eftir heppilegum farkostum og það varð úr að við keyptum tvö 13 ára gömul mótorhjól af hernum, fyrir 100 mörk stykkið. Þau þurftu auðvitað töluverðrar viðgerðar við, en voru samt komin í gott stand þegar upp var lagt, enda lentum við aldrei í neinum vandræðum með þau.”

“Nú, svo rættist draumurinn loksins og við stóðum himinlifandi á hafnarbakkanum I Reykjavík. Líklega var mesta hættan á leiðinni sú að við keyrðum út af veginum, þvi landið ykkar er svo stórbrotið og fallegt að við vorum sifellt skimandi í kringum okkur. Við fórum Þingvallahring inn og að Gullfossi og Geysi og það var eins og að sjá gamla vini, þvi við vorum búnir að lesa um þetta, ekki sízt sögu Þingvalla. Mér er óhætt að fullyrða að maður nýtur þess helmingi betur að ferðast um ókunnugt land ef maður hefur kynnt sér það vel áður með bókum og kortum. Nú, við keyrðum svo inn Haukadalinn og komum brátt að fyrsta alvarlega vegartálmanum, Sandá. Okkur leizt satt að segja ekkert á hana til að byrja með. Þar hittum við fyrir þá Frank og Hans Jurgen en þeir ætluðu þá að snúa við þvi þeir þorðu ekki í ána. Okkur var iila við að gefast upp við svo búið og það varð úr að við svömliuðum yfir. Heldur var það óburðugur hópur sem náði bakkanum hinum megin, því við urðum að hálf draga mótorhjólin og allt draslið yfir og vorum rennandi blautir og hraktir þegar yfir kom. Það var nú líka óneitanlega nokkur óhugur í okkur meðan á bjástrinu stóð þvi áin var ansi straumhörð. Jæja, við héldum nú samt áfram eins og leið lá norður með Langjökli og þar til við komum að Hveravöllum. Það var ekki neinn lúxusvegur á þessari leið, en þótt við hossuðumst heill ósköp gekk þetta nokkuð greiðlega. Á Hveravöllum var okkur forkurnnarvel tekið og þar sem við vorum blautir, kaldir og hraktir vorum við fegnir að komast i skála Ferðafélagsins. Þeir eru mikiil guðsblessun fyrir ferðamenn þessir skálar.”

“Eftir að hafa hvílt okkur þarna héldum við áfram í norðurátt og að Varmahlíð og þaðan til Akureyrar. Eftir það fórum við eftir þjóðvegum í austurátt, til Mývatns, Egilsstaða, niður til Breiðdalsvikur og með ströndinni til Hafnar í Hornafirði. Við höfðum nokkrar áhyggjur af Breiðamerkursandi, en það reyndist óþarfi. Skeiðará var okkur að vísu gersamlega ófær, en við vorum ferjaðir yfir hana og þar eftir gekk allt eins og i sögu. Það eru komnar ágætar brýr á aðrar ár og við gátum farið nokkuð greitt yfir þótt við stönzuðum oft til að skoða okkur um. Nú, svo var draumurinn búinn og við vorum aftur komnir til Reykjavíkur. Það er kanmski ekki rétt að segja að draumurinn hafi ver ið búinn því við eigum áreiðanlega eftir að dreyma um þessa ferð og tala um hana, rifja upp það sem gerðist. Þetta hefur verið óglevmanlegt ævintýr. Það er kannski eigingjarnt, en ég vildi óska þess að Ísland yrði aldrei fjölfarið ferðamannaland. Ykkar ósnortna náttúra er svo dásamleg að það ætti eiginlega að geyma hana handa þeim sem vilja leggja eitthvað á sig til að sjá hana. Og ég get ekki skilið við þetta án þess að minnast á fólkið sem var í einu orði sagt dásamlegt. Það var sama hvar við komum okkum var tekið af vinsemd og hjálpfýsi sem ég efast um að fyrirfinnist annars staðar. Ísland mun héðan í frá verða okkur sem hilling eða fagur draumur.”

Fyrsta M250B hjólið kom árið 1960 og eru hjólin sem komu til Íslands af þeirri árgerð.

Maico var stofnað af tveimur bræðrum, Otto og William Maisch og byrjaði að framleiða reiðhjól árið 1926 en fyrsta mótorhjól merkisins kom árið 1934 og var 98 rsm. Stærra 118 rsm hjól fylgdi í kjölfarið en stríðið kom í veg fyrir frekar framleiðslu allt til ársins 1947, þegar fyrsta fullhannaða Maico hjólið kom með eigin vél. Það hét M125 og fljótlega kom M200 og bæði hjólin urðu vinsæl í Þýskalandi. Á sjötta áratugnum fjölgaði hjólum frá Maico og má þar nefna Maico Taifun, Maico Mobil sem var yfirbyggt og Maicoletta sem var með skúterlagi. Sala minnkaði þegar fór að líða á áratuginn en það sem bjargaði Maico gegnum þá kreppur var samningur við Vestur-þýska herinn, sem keypti 10.000 eintök af M250B byggt á Blizzard hjólinu. Sá samningur gerði meira en það og kom fótunum undir Maico sem framleiðanda torfærumótorhjóla, en Maico var eitt þekktasta merkið í heimi torfæruhjóla á áttunda áratugnum.